Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 16:04:37 (5361)

1997-04-17 16:04:37# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé sjálfsagt að reyna að hlíta því að fullgilda þennan samning sem hv. þm. nefndi. Það er rétt að það dregst stundum úr hömlu að við fullgildum samninga sem við vildum gjarnan afgreiða sem fyrst, en því er til að svara að okkar litla þjónusta hefur ekki alltaf þá burði til þess að afgreiða það með þeim hraða sem við gjarnan vildum.

Ég tek undir það með hv. þm. að það er mjög mikilvægt að samvinna á sviði efnahagsmála aukist og t.d. má nefna að á sviði Eystrasaltsráðsins er einkum verið að huga að aukinni efnahagssamvinnu þeirra ríkja til þess að treysta þar lýðræði og framtíðarmöguleika þeirra. Það sama er að gerast í Evrópu.

Við skulum ímynda okkur að ef við neituðum að stækka Atlantshafsbandalagið, við vildum ekki stækka það. Hvað gerðist þá? Þá yrði dregin lína í Evrópu og þeim þjóðum sem þar hafa verið að berjast fyrir lýðræði í marga áratugi yrði hreinlega hafnað. Halda menn að það kæmi til með að auka öryggi í Evrópu? Nei, þvert á móti. Það skapaði nýjar hættur í Evrópu og það er leið sem að mínu mati kemur ekki til greina.

En á sama tíma verðum við að auka samvinnuna við Rússa. Við þurfum að gera hvort tveggja. Ég hefði nú vænst þess að það mikilvægi sem hefur komið í ljós í sambandi við Atlantshafsbandalagið yrði til þess að náðst gæti bærileg sátt um það starf hér á landi því að starfsemi Atlantshafsbandalagsins og tilvera þess er forsenda þess að vel takist til um uppbyggingu á öryggi í Evrópu. Það væri óðs manns æði að veikja það. Menn leggja ekki niður tryggingafélag þó menn sjái öryggi aukast um stundarsakir jafnvel. Það er mikil skammsýni og það væri vonandi að umræðan hér gæti orðið önnur og menn sjái mikilvægi Atlantshafsbandalagsins.