Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 16:08:13 (5363)

1997-04-17 16:08:13# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JónK
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:08]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá yfirlitsræðu sem hann flutti í morgun um utanríkismál. Það hefur komið fram í þessum umræðum að þýðing utanríkismála er mikil. Hún hefur ávallt verið það fyrir þessa þjóð og hún fer vaxandi því að smáþjóðir eru háðar erlendum samskiptum á öllum sviðum hvort heldur er á sviði viðskipta, öryggismála, menningarsamskipta eða á annan hátt.

Ég hef eins og fleiri þingmenn haft tækifæri til að fylgjast með afmörkuðum þætti utanríkismála, starfi þingmannasamtaka NATO-ríkjanna, en það er farvegur þjóðþinga þessara ríkja til að fylgjast með störfum á vettvangi NATO. Það er vafalaust þess vegna sem mitt nafn dróst inn í þessar umræður í upphafi þeirra í morgun, en ég kem að því síðar.

Það sem er efst á baugi hjá NATO um þessar mundir er stækkun bandalagsins eins og hér hefur fram komið. Það má spyrja sem svo: Hvers vegna er þetta verkefni jafnfyrirferðarmikið og raun ber vitni? Ýmsir hafa haldið því fram, jafnvel hér, að hlutverki bandalagsins væri lokið, óvinurinn horfinn og engin þörf á því að fara í slíka aðgerð. Ég held að þessi skoðun byggist á miklum misskilningi og skammsýni. Ég vil aðeins koma inn á þetta atriði nánar.

Stækkunin er tilkomin vegna ásóknar fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja eða ríkja Austur-Evrópu sem hafa barist fyrir lýðræði í áratugi. Þau vilja taka þátt í samfélagi Evrópuþjóða og vilja taka þátt í því samstarfi á sem flestum sviðum, bæði á sviði efnahags- og öryggismála. Aðild að NATO er þeim öryggismál og líka tákn um að þau séu að ganga inn í samfélag vestrænna þjóða. Stækkunin er flókið og viðamikið verkefni, en verkefni NATO eru á miklu fleiri sviðum. Þau felast í samstarfi í þágu friðar sem áður hefur verið komið inn á í þessari umræðu. Þau felast í viðamiklum viðræðum við Rússa um samskipti NATO við Rússland við breyttar aðstæður. Þau felast í viðræðum um stöðu Úkraínu sem er stórþjóð þar sem ástand mála er afar viðkvæmt. Þau felast í viðræðum við þjóðirnar við Miðjarðarhafið um öryggismál en þar er einnig afar viðkvæmt svæði. Einnig felast þessi verkefni í að endurskipuleggja bandalagið hið innra í kjölfar hinna miklu breytinga sem fram undan eru en það er risavaxið skipulagsverkefni.

Í þessari umræðu hefur verið um rætt afstöðu Rússa til stækkunar bandalagsins. Það er fljótt frá sagt að Rússar halda því fram á vettvangi þingmannasamtaka NATO, því að þeir eiga þar áheyrnaraðild, málfrelsi og tillögurétt, að það eigi að stofna evrópskt öryggiskerfi í stað stækkunar. Því er til að svara að ástandi mála í Rússlandi og Sovétlýðveldunum fyrrverandi er háttað á þann veg að öryggismálasamtök með þá innan borðs yrðu veik innan frá vegna hins ótrygga ástands sem er í landinu. Styrkur NATO byggist á samheldni og skipulagi og ógnin stafar ekki eingöngu af ótryggu stjórnmálaástandi í Rússlandi og her sem er í upplausn. Hún stafar af þjóðernisminnihlutum, trúarbragðadeilum, borgarastyrjöldum, hryðjuverkastarfsemi og alþjóðlegri eiturlyfjasölu sem allt eru þekkt vandamál innan Evrópu. Þess verður rækilega vart á þessum vettvangi þegar rætt er við þingmenn frá öðrum ríkjum að öryggismál eru mikið alvörumál fyrir þjóðir sem hafa fórnað mönnum í tveim heimsstyrjöldum á þessari öld og upplifað blóðug átök í sínu næsta nágrenni og þolað innrásir og harðræði. Þess vegna er því horft til NATO sem sterkra samtaka og þess vegna er sótt á um að taka þátt í þessu samstarfi.

Í þessum umræðum hefur verið rætt um kjarnorkuflota Rússa á norðurslóðum og umhverfishættuna sem stafar af þeim. Við höfum lagt á það mikla áherslu innan þessara samtaka að sú vinna og sú upplýsingaöflun sem þingmannasamtökin gangast fyrir, m.a. með starfshópi með öryggismál á norðurslóðum, beinist að því að afla upplýsinga um kjarnorkuflota Rússa, hættuna sem af honum stafar umhverfislega og leita leiða til úrbóta, en auðvitað er efnahagsástandið slíkt að aðstoð hins alþjóðlega samfélags verður að koma til ef miklar breytingar eiga að verða þar á.

[16:15]

Hv. 15. þm. Reykv. sagði í morgun að ég hefði sagt hér í umræðum, sennilega um alþjóðaskýrslur, að Rússar ættu að hafa neitunarvald um stækkun NATO. Þetta er alrangt og frjálslega farið með orð mín svo ekki sé meira sagt. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að stækkun NATO yrði þannig að hún skapaði ekki ný vandamál í samskiptum við Rússa. Rússar munu ekki samþykkja hana. Og ef ég væri á þeirri skoðun að Rússar ættu að hafa neitunarvald um stækkun NATO, þá mundi ég ekki styðja þá stækkun þar með. Ég hef aldrei haldið þessu fram. Hins vegar höfum við haldið fram málstað Eystrasaltsríkjanna. Við höfum haldið því fram að þau eigi að fá aðild að bandalaginu og við höfum haldið þeim málstað fram á alþjóðlegum vettvangi. Ég kannast ekki við neinn ágreining í íslensku sendinefndinni hjá þingmannasamtökum NATO um þau efni. Ég kannast reyndar ekki við neinn ágreining við Sjálfstfl. um þessi efni. Við höfum haldið því fram að Eystrasaltsríkin eigi að fá aðild og við höfum haldið því fram að ef þessi aðild verði ekki í fyrstu umferð, þá eigi dyrnar að standa opnar um þau efni. Það er ósköp einfalt mál að skýra frá þessu og ég kannast ekki við neinn klofning í stjórnarliðinu um þetta.

Ég held nú satt að segja að staðhæfingar hv. 15. þm. Reykv. um þessi efni nú trekk í trekk séu í ætt við sárindi maka eða sambýlismanns sem hefur verið sagt upp og látinn róa úr sambúð sem honum þótti góð. Hann reynir að koma illu af stað vegna sárinda og afbrýðissemi og í von um að endurvekja fornar ástir við Sjálfstfl. Það hygg ég að sé undirrótin að þessum tilraunum hans til þess að draga mig fram sem einhvern sérstakan talsmann Rússa í þessari umræðu og reyna að koma af stað einhverjum klofningi við Sjálfstfl. í utanríkismálum hvað þetta varðar. Ég vildi leiðrétta þetta því að það er hálfleiðinlegt að slíkar fullyrðingar séu endurteknar hér umræðu eftir umræðu ef utanríkismál ber á góma.

Að lokum vil ég endurtaka að það er nauðsynlegt fyrir þingmenn að fylgjast sem best með utanríkismálum hver á sínu sviði þar sem menn fá tækifæri til þess og þingmenn hafa fengið það sem betur fer og margir hafa lagt á sig mikla vinnu til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og það ber að þakka. Það starf er mikilvægt. Það verður til þess að rödd Íslands heyrist á þeim vettvangi og það er alveg nauðsynlegt að hún heyrist sem allra víðast. Okkur eru takmörk sett í þessu efni en við eigum að leggja á okkur nokkra vinnu til þess að halda uppi þessum samskiptum.