Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 17:04:55 (5372)

1997-04-17 17:04:55# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:04]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um þetta atriði. Ég hygg að fram hafi komið hjá formanni Alþb. fyrr í þessum umræðum að sterk samstaða er með okkur varðandi þær áherslur um ÖSE sem hæstv. ráðherra nefndi áðan. Ég held að það sé kannski líka nauðsynlegt að nefna það sem hefur út af fyrir sig ekki komið fram í þessum umræðum en hefur komið fram á öðrum vettvangi, að t.d. er mjög breið samstaða um það, hygg ég, að Íslendingar sækist eftir því þegar aðstæður skapast til þess, að Ísland gæti átt aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Ég hygg með öðrum orðum að gríðarlega breið samstaða sé um það á Alþingi að þjóðin verði að gera sig gildandi á alþjóðavettvangi með myndarlegum hætti. Eftir að hluti Norðurlandanna gekk inn í Evrópusambandið er minna um samstillingu norrænu þjóðanna á heimsvettvangi en áður var t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum. Það reynir því meira á okkar fólk og okkar utanríkisþjónustu þannig að ég hygg að verulegur vilji sé til þess að leggja eitthvað til í þeim efnum. Ég hef satt að segja ekki orðið var við það t.d. við afgreiðslu fjárlaga, sérstaklega í seinni tíð, að menn væru að agnúast út í utanrrn., sem var þó landlægt hér áður fyrir allmörgum árum eða áratugum. Ég held því að um þessi mál sé býsna víðtæk samstaða, eins og hefur reyndar komið fram í þessum umræðum, og ég mundi treysta mér til þess í framhaldi af þeim að skrifa upp beinagrind að verkefnalista yfir þau verkefni sem mér sýnist að menn séu í raun og veru ótrúlega sammála um í þessari stofnun.