Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 17:11:21 (5375)

1997-04-17 17:11:21# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um utanríkismál í dag. Ég tel að hún hafi verið mjög gagnleg og margar þarfar ábendingar hafi komið fram í henni sem við munum taka til frekari athugunar í utanrrn. Ég tel að þrátt fyrir allt eigum við okkur öfluga utanríkisþjónustu þó að hún sé lítil. Þar er unnið mjög mikið og ég get fullyrt það að á þeim vinnustað þar sem utanrrn. er er vösk sveit manna sem vinnur nánast oft og tíðum allan sólarhringinn að ýmsum málum og þar eru verkefni leyst mjög vel af hendi.

Það er líka ljóst að við eigum mikið af fólki sem er tilbúið til að takast á við hin ýmsu verkefni á sviði utanríkismála. Það var t.d. auglýst eftir nokkrum aðilum í utanrrn. fyrir stuttu og var gaman að sjá hvað stór hópur af hæfu ungu fólki var tilbúinn til að takast á við þau störf. Það er því enginn skortur á fólki. Við eigum marga einstaklinga sem eru tilbúnir til að takast á við þennan málaflokk og bera uppi hróður Íslands á erlendum vettvangi.

Það er líka ljóst að utanríkismál og innanlandsmál tvinnast svo saman í dag að þar verður ekki skilið á milli, eins og skýrt hefur komið fram í þessari umræðu.

Það hefur verið sagt í umræðunni að í þeirri ræðu, sem var flutt af hálfu utanrrh. --- og er að sjálfsögðu unnin af utanríkisþjónustunni og hefur verið safnað til hennar úr öllum áttum --- komi fram lítil framtíðarsýn, engin markmið og þetta sé allt saman heldur ómerkilegt. Ekki ætla ég að gerast dómari í þeim efnum þó að ég sé ekki sammála því. Það eru nokkur atriði sem koma fram þar sem menn hefðu viljað sjá sterkari áherslur og í reynd skýrari mynd. Það á kannski ekki síst við á sviði Evrópumálanna. Við í ríkisstjórninni erum ásakaðir fyrir að hafa enga stefnu í þessum málum og Evrópumálin séu ekki á dagskrá sem auðvitað er ekki rétt. Auðvitað eru Evrópumálin á dagskrá og verða á dagskrá. En við hljótum að fylgjast mjög vel með því sem nú er að gerast, því sem kemur út úr ríkjaráðstefnunni, því sem kemur út úr stækkunarferli NATO o.s.frv. því að það mun áreiðanlega hafa áhrif á ákvarðanir okkar í framtíðinni.

Ég vil hins vegar benda á að það er þó sú skýra stefna af hálfu núv. ríkisstjórnar að fylgjast mjög vel með því sem er að gerast innan Evrópusambandins og reyna eftir mætti að hafa áhrif á þá þróun. Við tökum t.d. þátt í enn ríkari mæli í því starfi sem þar fer fram. Við höfum krafist aðildar að nefndum og ráðum og höfum í reynd fengið aðild að yfir um 300 nefndum og það eru e.t.v. fimm nefndir sem við hefðum viljað fá aðild að sem við höfum ekki fengið. Hluti þeirra nefnda starfar ekki á vettvangi Evrópskra efnhagssvæðisins og því kannski eðlilegt að við höfum ekki aðgang að þeim. Ég vil einnig nefna þá staðreynd að við höfum sóst eftir samstarfi við Schengen-ríkin. Við erum sem sagt að leita eftir öllu því samstarfi sem við getum leitað eftir með þá staðreynd í huga að við stöndum utan Evrópusambandsins. Vilja menn þetta eða vilja menn þetta ekki?

[17:15]

Sumir halda því fram að með þessari stefnu séum við í reynd að nálgast Evrópusambandið enn meira og gera það líklegra að við verðum aðilar að því í framtíðinni. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við séum beinlínis að hafa áhrif þar á. En við erum a.m.k. ekki að útiloka það. Við tökum þátt í öllu því frjálsa samstarfi sem við getum við Evrópusambandið og reynum að hafa þar áhrif og gerum það á jákvæðan hátt. Með því erum við að gera það léttbærara fyrir komandi kynslóðir, ef mönnum sýnist svo í framtíðinni að rétt sé að stíga ný skref í þessu sambandi, því að það er staðreynd að við erum aðilar að innra markaði sambandsins og tökum þátt í mjög mörgum þáttum af því samstarfi sem þarna á sér stað í dag. Þetta er okkar stefna en aðrir halda því fram að þetta sé röng leið. Menn eigi einfaldlega að sækja um aðild að Evrópusambandinu, eyða í það miklum tíma og mikilli umræðu innan lands og athuga hvað komi út úr því.

Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir hvað út úr því kemur. Það eru engar líkur á því t.d. að við munum breyta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki gengið undir hana og ég tel það vera óþarfa æfingu að vera að fara út í það eins og málin liggja fyrir í dag. En það hefur ekkert verið útilokað og menn geta tekið það upp hvenær sem er eftir því sem menn meta hverju sinni.

Það er hins vegar ljóst að stækkunarferli Evrópusambandsins gengur hægt. Það eru engar líkur á því að ný aðildarríki muni bætast við fyrr en alllöngu eftir næstu aldamót, kannski 2005, kannski síðar. Það er ekkert þarna að gerast sem menn eru að missa af. Og það er óþarfi að láta í það skína í þessari umræðu að með stefnu núverandi ríkisstjórnar séu menn að missa af tækifærum sem kunni að rýra lífskjör Íslendinga í framtíðinni.

Það kemur líka fram í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í dag að mismunandi áherslur eru að því er varðar stækkunarferli Atlantshafsbandalagsins. En þó þeir heyri ég ekki annað en að allir þingmenn séu því fylgjandi að Atlantshafsbandalagið sé stækkað. Við eigum að taka þátt í að byggja upp nýtt öryggiskerfi í Evrópu, í samvinnu við nýfrjálsar þjóðir, í samvinnu við Rússa og það er mjög mikilvægt að sú samstaða sé fyrir hendi.

Fram hafa komið margvíslegar spurningar og ég hef reynt að svara þeim eftir bestu getu. Hér hefur t.d. verið rætt allmikið um sjávarútvegsmál og hvalveiðimál og spurt um stefnu Íslendinga í þeim efnum. Mér finnst sú stefna skýr. Við reynum að verja okkar réttindi. Við höfum sýnt fram á að við getum náð friðsamlegri niðurstöðu við samstarfsþjóðir okkar og vini á Norður-Atlantshafi. Við höfum leyst erfið ágreiningsmál á undanförnum tveimur árum og það eru ekki mjög mörg ágreiningsmál sem nú bíða úrlausnar. Eitt mál rís hæst og það er deilan um Barentshafið. Við höfum gert ítrekaðar tilraunir til að ná lausn í því máli en hún hefur ekki fengist. Ég á von á því að ef við næðum þar lausn, þá væri það áreiðanlega lausn sem ekki væru allir ánægðir með, en við vinnum enn þá að því og ég skil það svo á þessari umræðu að um það sé samstaða að haldið verði áfram á þeirri braut.

Við höfum rætt allítarlega í utanrmn. stöðuna að því er varðar Kolbeinsey. Það er rétt sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði að þar er á margan hátt breytt aðstaða og við höfum látið gera lögfræðilega úttekt á stöðu þess máls og leitum eftir samningum við Dani í því máli. En það er mjög líklegt að auðveldara sé að ná lausn í því máli en deilunni að því er varðar línunni milli Íslands og Færeyja.

Því er haldið fram að við eigum að ná góðu samkomulagi við Grænlendinga um Reykjaneshrygg og standa svo fast á rétti okkar og hlusta ekkert á Dani að því er varðar Kolbeinsey. Þetta eru markmið sem rekast hvert á annars horn. Við höfum ekki átt í nægilega góðu samstarfi við Grænlendinga, það er rétt. En við höfum bætt þau samskipti mjög að undanförnu og það höfum við gert í þeirri von að við getum leyst deiluna að því er varðar Kolbeinsey og jafnframt skiptingu sameiginlegra stofna á milli Íslands og Grænlands.

Ég er sannfærður um að við erum búnir að haga okkur alveg skelfilega að því er varðar umgengnina við grálúðustofninn og reyndar karfastofninn líka. Þar hefur átt sér stað veruleg rányrkja. Á sama tíma og við erum nú að draga úr veiðum á þessum svæðum, sem er því miður að einhverju leyti orðið of seint, þá eru Grænlendingar og aðrar þjóðir að auka sínar veiðar. Hér er því um mjög stórt hagsmunamál að ræða því grálúðu- og karfastofnarnir verða ekki byggðir upp á nokkrum árum. Við höfum verið að bíða eftir því að þorskurinn kæmi upp. Þorskurinn er miklu duglegri skepna og fljótari að jafna sig en grálúðan og karfinn. Ég óttast því að þarna hafi orðið óbætanlegt tjón sem við munum seint jafna okkur á án þess að ég sé að ásaka neinn í því sambandi. En því miður eru karfaveiðarnar suðvestur af landinu stundaðar m.a. með þeim hætti að verulegu magni af fiski er hent fyrir borð. Ef einhver minnsta skemmd er á fiskinum, þá fer hann fyrir borð jafnvel þótt það sé aðeins á roðinu, en ef hann er flakaður er flakið í góðu ásigkomulagi. Hvorki okkar umgengni né annarra hefur því verið til fyrirmyndar á þessum slóðum.

Allmikið hefur verið talað um öryggismál og NATO og ég spurður um það af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur hvað ég eigi við um varanlega viðveru Bandaríkjamanna í Evrópu og gagnrýndi hv. þm. það orðalag. Ég tel að það sé meginatriði í öryggismálum Evrópu að samskiptin yfir hafið verði varðveitt þannig að Bandaríkjamenn taki með einum eða öðrum hætti þátt í öryggismálum Evrópu. Þetta verði sameiginleg stefna og samvinna Bandaríkjanna, Kanada og Evrópu. Það hefur reynst mjög farsælt undanfarna hálfa öld og ekkert sem bendir til þess að ekki sé þörf fyrir það áfram. Ég teldi það mjög skaðlegt fyrir okkur Íslendinga ef það samband rofnaði.

Ég er þeirrar skoðunar að ef viðvera Bandaríkjanna í Evrópu væri ekki lengur fyrir hendi mundi þessi samvinna og þetta samband rofna. Þess vegna er einhver lágmarksviðvera þeirra í Evrópu nauðsynleg, bæði við Miðjarðarhaf og einnig í Þýskalandi.

Að því er okkur Íslendinga varðar þá er aðalatriðið að hér sé lágmarksvarnarbúnaður og að við tökum þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða. Það er þörf á því í dag. Það tryggingakerfi sem við höfum verið aðilar að hefur reynst þess megnugt að styrkja mjög lýðræði í Evrópu. Það hefur líka veitt okkur tækifæri til að stórauka samstarf við Rússa og Austur-Evrópu- og Mið-Evrópuþjóðir og gert okkur kleift að efla friðsamleg samskipti við þessar þjóðir. Við Íslendingar eigum að nota það tækifæri og leggja okkur fram og leggja okkar af mörkum til þess að öryggiskerfi í Evrópu geti orðið gott á komandi áratugum og öldum.

Herra forseti. Ég hef því miður ekki getað svarað öllu því sem hér hefur komið fram, en ég vænti þess að síðar verði tækifæri til að ræða utanríkismál og við erum að sjálfsögðu tilbúnir til að mæta hvenær sem er í utanrmn. og svara mörgum þeim spurningum sem hafa komið fram og leggja fram gögn í því sambandi. En að lokum vil ég þakka hv. þingmönnum málefnalega og gagnlega umræðu í dag.