Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 17:27:42 (5376)

1997-04-17 17:27:42# 121. lþ. 105.2 fundur 554. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 1997 sem gengið var frá með orðsendingaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 16. og 17. janúar 1997. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.

Samkvæmt samningi þessum er færeyskum nótaskipum veitt heimild til veiða á allt að 30 þúsund lestum af loðnu innan íslenskrar lögsögu á tímabilinu janúar til apríl 1997. Takist ekki að veiða þetta magn er færeyskum skipum heimilt að veiða það sem á vantar á tímabilinu júlí til desember 1997. Gert er ráð fyrir því að heimilt sé að landa aflanum til vinnslu á Íslandi en að óheimilt sé að vinna eða frysta um borð afla sem veiddur er á fyrra tímabilinu og að utan Íslands sé einungis heimilt að landa þeim afla til bræðslu.

Samningurinn gerir enn fremur ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til kolmunnaveiða innan lögsögu hins á árinu 1997. Vonir standa til að slík gagnkvæm heimild muni hvetja til veiða á kolmunna og þegar hafa borist fréttir af skipum sem hyggjast stunda þær veiðar.

Loks er í samningnum staðfest heimild íslenskra skipa til veiða á allt að 1.000 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld, annarri en norsk-íslenskri, innan færeyskrar lögsögu á árinu 1997 og hafa átt sér stað tilraunir með veiðar á makríl sem lofa góðu og mér er kunnugt um að mörg skip hafa áhuga á að reyna fyrir sér á því sviði.

Samningur þessi er nær óbreyttur samningi landanna frá 1996 að öðru leyti en því að nú gefst Færeyingum kostur á að nýta allar loðnuveiðiheimildir sínar á vorvertíð.

Samningurinn tók gildi til bráðabirgða 17. janúar 1997 og mun öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.