Samningur um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 17:34:56 (5378)

1997-04-17 17:34:56# 121. lþ. 105.4 fundur 556. mál: #A samningur um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun í löndum, sérstaklega í Afríku, sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar og hann var gerður í París 17. júní 1994.

Samningur þessi á rætur að rekja til heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó árið 1992. Hann skiptist í meginmál og fjóra viðauka sem fjalla um svæðisbundnar aðgerðir í Afríku, í Asíu, í rómönsku Ameríku og á Karabíasvæðinu og við norðanvert Miðjarðarhaf.

Markmið samningsins er eins og nafnið bendir til að vinna gegn eyðimerkurmyndun og draga úr skaðlegum afleiðingum þurrka í löndum sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka, sérstaklega í Afríku.

Í samningnum er eyðimerkurmyndun skilgreind sem hnignun lands á þurrum eða úrkomulitlum svæðum og á úrkomulitlum jaðarsvæðum úrkomusvæða af völdum ýmissa þátta, þar á meðal veðurfarsbreytinga og mannlegra athafna. Samkvæmt skilgreiningu samningsins á þessu falla heimskautasvæði og svæði sem næst þeim liggja, þar með talið Ísland, utan við samninginn.

Herra forseti. Ég legg til að þessum samningi verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanmrn. Rétt er að taka það fram að ekki er þörf á breytingum í íslenskri löggjöf vegna skuldbindinga sem felast í samningnum en kostnaður vegna hans gæti orðið allt að 1 millj. kr. á ári. Jafnframt felur samningurinn í sér kvaðir um þróunaraðstoð en hverju ríki er í sjálfsvald sett hversu miklu fjármagni það beinir í þann farveg.