Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:13:50 (5387)

1997-04-17 18:13:50# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:13]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. vék að störfum nefndar sem starfað hefur að undanförnu undir forustu hv. þm. Árna R. Árnasonar. Þessi nefnd lauk störfum fyrir skömmu og skilaði áliti sínu til sjútvrh. Álitið hefur verið lagt fyrir ríkisstjórn og er þar til umfjöllunar. Það hefur enn fremur verið kynnt utanrmn. og verður kynnt formönnum flokka í stjórnarandstöðu áður en ríkisstjórnin lýkur umfjöllun sinni um málið. En það hefur ekki verið birt opinberlega enn þá, eins og ég þykist vita að hv. þm. skilja að ekki er unnt meðan málið er enn til umfjöllunar innan ríkisstjórnar og á vettvangi utanrmn. og leitað er eftir samráði við stjórnarandstöðuna. Ríkisstjórnin telur að það sé mjög æskilegt að leita eftir sem allra víðtækustu samstöðu í þessu mjög svo viðkvæma og vandasama máli.

Ég hygg að það sé rétt hjá hv. 9. þm. Reykv. að í flestum efnum séu menn á einu máli um grundvallaratriðið. Auðvitað eru, væntanlega bæði innan þings og úti í þjóðfélaginu, einhverjir sem ekki telja rétt að Íslendingar hefji hvalveiðar að nýju en ég hygg að meginþorrinn vilji stefna að því að við tökum upp hvalveiðar á nýjan leik. Röksemdirnar eru fyrst og fremst þær að málið snýst um grundvallarrétt okkar til þess að nýta auðlindir hafsins innan okkar lögsögu og reyndar einnig á alþjóðlegum hafsvæðum. Það lýtur að mikilvægi þess að tryggja jafnvægi í þróun lífríkisins og það liggur í augum uppi að það gæti verið hættulegt fyrir okkur ef við gæfum eftir þann fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar að nýta auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt eins og við höfum gert og stefnum að því að gera.

Sjónarmið manna geta verið nokkuð mismunandi eins og hér hefur komið fram um það hvernig eigi að vinna málinu framgang og í sjálfu sér er ekkert alveg einhlítt í þeim efnum vegna þess að málið er býsna snúið eins og hér hefur reyndar komið fram. Það er mjög mikilvægt að mínu áliti að sérhvert skref sem við tökum í þessu efni skili okkur fram á við. Það er vissulega rétt að við erum í mjög þröngri stöðu. Það hefur enginn borið á móti því. En við megum ekki taka skref sem þrengja þá stöðu enn meira eða loka okkur af.

Við tókum ákvörðun um að fara úr hvalveiðiráðinu á sínum tíma, m.a. vegna þess að við töldum eins og hér hefur komið fram, að meiri hluti hvalveiðiráðsins bryti gegn stofnsáttmála sjóðsins. Við vorum líka í annarri stöðu en Norðmenn, og það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því, með því að við ákváðum á mótmæla ekki hvalveiðibanninu. Norðmenn tóku hins vegar annan pól í hæðina og mótmæltu hvalveiðibanninu og voru þess vegna ekki bundnir af samþykktum hvalveiðiráðsins og gátu haldið áfram að vinna að því innan þess að hefja hvalveiðar.

Þegar við tókum þessas ákvörðun á þessum tíma, þá var því lýst yfir af þáverandi ríkisstjórn að vel kæmi til álita að við gengjum aftur í ráðið ef það væri þáttur í því að styrkja stöðu okkar á nýjan leik í þessu máli og opna möguleika okkar á því að hefja veiðar að nýju. Því miður hefur þróunin innan hvalveiðiráðsins ekki verið í þessa átt enn sem komið er.

Hér segja menn: ,,Það er ekki annað að gera en ganga inn með mótmælum og þá erum við orðnir jafnsettir Norðmönnum.`` Málið er ekki alveg svona einfalt því að um það eru skiptar skoðanir hvort slík mótmæli hafa eitthvert gildi eða ekki. Því miður hygg ég að staðan sé sú í dag að meiri hluti þjóða innan Alþjóðahvalveiðiráðsins viðurkennir ekki að slík mótmæli hafi lagalegt gildi. Það er þess vegna frumskilyrði, áður en slík ákvörðun er tekin, að við vitum hvort slík mótmæli eru tekin gild af meiri hluta hvalveiðiráðsins eða ekki því ef við förum inn án þess að mótmælin hafi lagalegt gildi, erum við að þrengja stöðu okkar og loka okkur meira af. Við þurfum auðvitað líka að vita hvort áhrifaþjóðir innan hvalveiðiráðsins eru með einum eða öðrum hætti reiðubúnar að standa þannig að málum að við gætum innan vébanda hvalveiðiráðsins hafið hér hvalveiðar í takmörkuðum mæli á nýjan leik. Það væri óskynsamlegt af okkur að stíga þetta skref án þess að vitneskja um þessa hluti liggi fyrir áður. Þess vegna þarf aðdragandi slíkrar ákvörðunar að vera annar en sá sem hér er verið að leggja til.

Með þessu er ég ekki að útiloka að það komi til greina að við göngum í hvalveiðiráðið. Það hefur legið fyrir alveg frá upphafi, frá fyrsta degi að við sögðum okkur úr hvalveiðiráðinu að það gæti komið til álita. En það verður þá að vera þáttur í því að styrkja stöðu okkar aftur og þess vegna þarf frekari viðræður við aðildarþjóðir hvalveiðiráðsins eða þær þjóðir sem mestu ráða þar til að þessi hluti málsins sé skýr. Ég trúi því reyndar og ætla ekki annað en að flutningsmenn þessarar tillögu séu reiðubúnir að taka þátt í samstarfi þar um og ég legg á það áherslu að það skipti mjög miklu máli að þær þjóðir sem við þurfum að eiga samskipti við í þessu efni finni það að Íslendingar standi nokkuð sameinaðir í þessum málum. Mér sýnist ekki að það beri það mikið á milli skoðana um vinnubrögð að það ætti að koma í veg fyrir að við getum stillt saman strengi okkar. Eins og hér hefur komið fram í máli hv. 9. þm. Reykv. eru menn sammála um grundvallaratriðin. Þar er ekki ágreiningur á milli manna og mér sýnist að það þurfi ekki að bera svo mikið í milli varðandi vinnubrögðin að við getum ekki sameinað krafta okkar í þeim efnum. Ég legg áherslu á að við umfjöllun málsins nú og í framtíðinni getum við stillt saman strengi okkar í þessum efnum.