Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:24:37 (5389)

1997-04-17 18:24:37# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:24]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Sé það svo að ekkert nýtt hafi komið fram í mínu máli hér áðan sem ég er ekki að mótmæla, þá á það einnig við um það sem fram kom í máli hv. 9. þm. Reykv. Vissulega held ég að það sé kannski lýsandi um stöðu þessa máls. Það sem ég er að leggja áherslu á er að við megum ekki stíga skref sem geta leitt til þess að við þrengjum stöðu okkar. Við verðum að viðurkenna að það er umdeilt að þjóðarétti hvort þjóðir geti gengið inn í alþjóðasamtök með fyrirvara um hvort þær eru bundnar af samþykktum þeirra. Það er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir. Það væri óvarlegt af okkur að stíga það skref ef það kæmi svo í ljós að fyrirvarinn hefði ekki gildi og við Íslendingar værum áfram bundnir af hvalveiðibanninu og hefðum þrengt stöðu okkar. Þess vegna legg ég á það áherslu að við samþykkjum ekki þessa tillögu eins og hún er hér úr garði gerð á þessu stigi málsins. Ég vona að um það geti tekist samstaða vegna þess að enginn ágreiningur er um það að hugsanlega getur verið skynsamlegt fyrir okkur að ganga inn í halveiðiráðið aftur. Eins og hefur til að mynda verið bent á, þá er það forsenda fyrir því að við getum hafið viðskipti með hvalaafurðir. Við getum ekki flutt þær út til Japans sem er eini markaðurinn nema við séum aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu þannig að það getur verið margt sem mælir með því. En þá verður þetta að vera fyrir hendi. Það er ekki gagn að fara inn í einhvern klúbb sem ætlar að halda áfram að brjóta alþjóðahvalveiðisáttmálann og jafnvel að breyta hvalveiðiráðinu í hrein friðunarsamtök.