Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:26:42 (5390)

1997-04-17 18:26:42# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:26]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra andmælir því ekki að ræða hans sem hann flutti hér áðan sé orðið klassísk, þ.e. í tölu þeirra ræðna sem hann flytur árlega af sama tilefninu og er alltaf sama ræðan, en ver sig með því að ábendingar, tillögur og gagnrýni á ræðuna sé líka sú hin sama. Það leiðir af sjálfu sér, ef hæstv. ráðherra er alltaf í sömu sporunum og flytur alltaf sömu ræðuna, þá kallar það á sömu gagnrýnina. En niðurstaðan er þá pattstaða vegna þess að ráðherrann hefur ekki þokað málinu áfram.

Kjarni málsins er sá að, að svo miklu leyti sem ráðherrann segir, við þurfum að vinna málinu fylgi. Við þurfum að tryggja að við komumst inn í ráðið með þessum skilgreinda fyrirvara og þar reynir á lagatæknileg atriði. Þá er spurningin: Hvað hefur verið að gerast á undanförnum árum? Hefur ráðherrann ekki frá neinu að skýra um að það eru tilteknar þjóðir sem vilja veita atbeina sinn til þess? Það þarf ekki atbeina allra og við fáum hann ekki fyrir fram.

Þess vegna ítreka ég enn, herra forseti: Hvað er að frétta af starfi þessarar merku nefndar sem vakti miklar vonir um að nú þegar nefndin hefði komist að skýrum niðurstöðum og lagt fyrir hæstv. ráðherra, þá yrði stefnan og kúrsinn markaður og nú færi að styttast í það að tími orða væri liðinn og athafna upp runninn? Hefur þess nefnd í engu breytt neinu í málinu? Hefur hún ekkert nýtt fram að færa? Er ekkert að finna í niðurstöðum hennar um það hvernig eigi að ganga fram, ef það er svo að ráðherrann hafi ekki fundið ráð til þess að eigin frumkvæði?