Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 18:32:51 (5393)

1997-04-17 18:32:51# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:32]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að hafa ekki tekið það fram hér í upphafi, sem ég átti auðvitað að vita, að hv. 15. þm. Reykv. hefði ekki skilning á mikilvægi þess að freista þess að hafa samstöðu í þessu efni.

Varðandi skipan þessa starfshóps þá var hann ekki fjölmennur. En vissulega er það svo að einn af fremstu forustumönnum jafnaðarmanna í landinu sat í þessum hópi og furðar mig að hv. 15. þm. Reykv. skuli flytja ræðu af því tagi sem hér var flutt og með þeim ummælum sem hér voru höfð, að forustumenn jafnaðarmanna hefðu ekki komið að þessari vinnu. En það er annar handleggur.

Ég ítreka einungis þá von að skilningur hv. þm. vaxi. Hann hefur oft sýnt það í umræðum í þinginu að þó að hann hafi komið að málum með takmörkuðum skilningi, þá hefur hann vaxið og hv. þm. er þeirrar gerðar að geta viðurkennt það og tekið nýja og breytta afstöðu. Fyrir því eru mörg fordæmi og á hann mikil hól og hrós skilið fyrir það og ég veit að það á eftir að endurtaka sig í þessu máli eins og svo oft endranær.