Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 10:33:59 (5397)

1997-04-18 10:33:59# 121. lþ. 106.92 fundur 293#B breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[10:33]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í viðtalsþætti við formann þingflokks Framsfl. um miðnættið í nótt fréttu þingmenn af því að til stæði að setja lög um tekjuskatt og eignarskatt á þriðjudaginn kemur. Ég vil þakka fyrir það að almennt skuli þingmenn látnir vita af þessum tíðindum í sjónvarpinu.

Þetta mál mun einnig hafa verið rætt á fundi efh.- og viðskn. í gær en þetta frv. hefur aldrei verið rætt við formenn þingflokkanna eða á vettvangi þeirra og forseta Alþingis og ég gagnrýni það. Það hefur verið unnið að skipulagi fundahalda hér næstu daga, mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Það hefur verið gert ráð fyrir því að fara á mánudaginn í mál frá efh.- og viðskn., bankamál og fleira, og það hefur verið gert ráð fyrir því að halda áfram í stjórnarfrumvörpum næstu daga þar á eftir. Það er bersýnilegt að þessari vinnuáætlun verður að breyta ef þetta frv. um tekju- og eignarskatt á að koma þannig til meðferðar að það verði að lögum eins og tilkynnt var í sjónvarpinu á miðnætti í nótt.

Einnig er nauðsynlegt að hafa það í huga, herra forseti, að hér er mjög sérkennilega að málum staðið af stjórnarliðinu. Þessa viku hafa menn verið að hjakka á fyrstu umræðu málum frá ríkisstjórninni um búfjárhald, býlanöfn og Örnefnastofnun en þau mál sem er sagt að brýnt sé að verði lokið næstu daga eru látin bíða þangað til í lok vikunnar eins og það frv. sem hér á að ræða á eftir um tekju- og eignarskatt sem er hluti af þeim kjarasamningum sem verið er að gera.

Ég kem hér upp, herra forseti, til þess að óska eftir því að þessi mál verði rædd á ný. Við í þingflokki Alþb. og óháðra munum ekki setja okkur á móti því að reynt verði að flýta eins og kostur er meðferð tekjuskattsmálsins. Það er hluti af kjarasamningavinnu sem við erum vön að taka þátt í hér í þessari stofnun með þeim hætti sem við teljum eðlilegt á hverjum tíma. En það þýðir að öðrum málum verður þá að ryðja til hliðar. Það er ekki hægt að gera hér allt í einu, það er ekki hægt að setja lög á þriðjudag og miðvikudag með annarri hendinni en ræða 10--12 stjórnarfrumvörp á sama tíma í þessari stofnun og það er auðvitað algjörlega fáránlegt að þetta mál skuli aldrei hafa verið rætt í skipulagningarhópi þingsins sem eru formenn þingflokkanna.