Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 10:40:03 (5400)

1997-04-18 10:40:03# 121. lþ. 106.92 fundur 293#B breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[10:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert einasta orð hjá báðum þeim þingmönnum og félögum mínum sem hér hafa talað. Það kemur fram í orðum Ágústs Einarssonar að það er fullur vilji til þess af hálfu efh.- og viðskn. og stjórnarandstöðunnar að taka höndum saman við stjórnarflokkana í þessu máli. En við erum alltaf að ræða það að hér er starfsáætlun og hér er verið að reyna að taka á vinnulagi þingsins. Það er ekki bara verið að brjóta vinnureglur heldur er til nokkuð sem heitir mannleg samskipti. Ég fékk að heyra um þetta mál seinni partinn í gær, vangaveltur míns núverandi formanns efh.- og viðskn. um hvernig hann gæti komið til móts við stjórnarflokkana í þessu máli. Viðbrögð mín voru þau að þetta yrðum við stjórnarandstöðuflokkarnir að geta rætt á þingflokksfundum þannig að málið verður ekki til lykta leitt fyrr en á mánudag. Það er engin ástæða til annars en að búast við því af okkur að við tökum vel á málum, en að það sé valtað yfir okkur með þeim hætti að hér séu gerðar áætlanir og áformað að fara með mál í gegn á föstudegi og gera að lögum á þriðjudegi, ég tala ekki um að láta þingmenn hlusta á það í sjónvarpsþætti, það er svo mikið brot á eðlilegum mannlegum samskiptum í þessum sal að ég átel það harðlega. Og ég óska eftir því að fyrr en seinna verði gert fundarhlé hér og formenn þingflokka boðaðir á fund forseta til að ræða hvernig fara skuli með þetta mál.