Vörugjald af olíu

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 11:07:34 (5409)

1997-04-18 11:07:34# 121. lþ. 106.5 fundur 527. mál: #A vörugjald af olíu# (lituð olía) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[11:07]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál þarf að skoðast aðeins með tilliti til forsögunnar, því að olíugjaldskerfi með litaðri olíu, sem á að taka upp í stað endurgreiðslu, tengist einnig þungaskatti. Ég vil geta þess að hér er um að ræða kerfisbreytingu sem sumir aðilar hafa áhyggjur af, þar á meðal vörubílstjórar sem benda á að sú breyting sem gerð var á þungaskattslögunum í fyrra hafi skilað ríkissjóði meiri tekjum en ætlað var. Tilefni þess að ég kem upp núna við 1. umr. er að vekja athygli á því að þetta mál þarf að skoða mjög vel og vandlega í efh.- og viðskn. og ekki hvað síst sjónarmið starfandi manna í stétt vörubílstjóra sem hafa af þessu áhyggjur. Sömuleiðis tekjuöflun fyrir Vegagerðina sem þarf að liggja fyrir sem fyrst, eins og hæstv. fjmrh. gat um. Það er vitaskuld mjög brýnt mál að útlínur séu ljósar en við vitum og höfum raunverulega stutt þá kerfisbreytingu að taka upp litaða olíu. Það er eins og gengur og gerist í Evrópu og er almennt til bóta, en það þarf að taka sérstakt tillit til þeirra aðila sem eiga að vinna með þessi kerfi með tilliti til þungaskatts og annarrar útfærslu á þessu frv.

Ég vil einnig varpa því fram hvort e.t.v. eigi að taka þá pólitísku ákvörðun að halda verði á dísilolíu alltaf undir bensínverði, t.d. 15--20%. Þessi stefnumörkun þekkist í nágrannalöndunum og ég vil varpa því fram í umræðuna til umhugsunar fyrir frekara starf í þingnefnd og við seinni afgreiðslu málsins.