Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 11:43:41 (5414)

1997-04-18 11:43:41# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[11:43]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu tengist nýgerðum kjarasamningum og þeim sem í farvatninu eru. Það er samt sem áður meginniðurstaða mín þegar ég skoða frv. að sú skattastefna sem hér er verið að lögfesta er í reynd framhald fyrri skattastefnu því þetta frv. felur ekki í sér kerfisbreytingar þótt svo að nokkur tekjuskattslækkun sé hér á ferðinni.

Það er skoðun mín að hérlendis vanti fjölskylduvæna skattastefnu sem tekur mið af fólki sem er að ala upp börn. Allt skattkerfið íþyngir þessum þjóðfélagshópi umfram aðra eða tekur ekki nægjanlegt tillit til stöðu fólks á því æviskeiði þegar það er með fjölskyldu og er að ala upp börn. Við sjáum einnig afleiðingu þessarar skattastefnu í því að það er millitekjufólkið sem er í vandræðum. Það eru millitekjuhóparnir sem kvarta yfir sköttunum. Það eru ekki hálaunahóparnir og það eru ekki láglaunahóparnir. Það er venjulegt launafólk sem kvartar yfir skattkerfinu og skattálögum hér. Þetta frv. hæstv. ríkisstjórnar leysir ekki þennan vanda. Það kemur ekki með fjölskylduvæna skattastefnu sem tekur mið af fólki með börn. Það leysir ekki öll vandkvæði millitekjufólks, gengur að vísu nokkur skref í átt að þessu sem ég er að tala um, en kemur ekki með neitt nýtt kerfi í staðinn. Þetta frv. er hefðbundið að því leytinu til að það er árvisst að lagt sé fram skattafrv. í tengslum við kjarasamninga.

Það er fyrst að segja um þetta mál að þingflokkur jafnaðarmanna mun greiða fyrir úrvinnslu þess í þingsölum. Það er hins vegar mjög ámælisvert, herra forseti, að nú í dag, 18. apríl, skuli vera talað fyrir máli sem lagt er fyrir þingið 4. apríl, þegar það liggur fyrir og lá fyrir löngu fyrir þann tíma að tiltekin ákvæði þurfa að koma til framkvæmda 1. maí. Ástæða þess að við erum nokkuð til samninga um úrvinnslu málsins, ekki einungis sú að 1. maí er hefðbundinn hátíðisdagur hér á Íslandi heldur einmitt sá dagur sem jafnaðarmenn munu vinna stórsigur í Bretlandi. Það eru því margar ástæður fyrir okkur að hafa þennan dag í heiðri. En það er e.t.v. ekki meginmálið í þessu heldur hitt að það eru mjög slæm vinnubrögð, herra forseti, að málið var ekki sett fyrr á dagskrá og afsakanir hæstv. fjmrh. um að hann ráði ekki dagskrá þingsins duga ekki.

Það er vitaskuld svo að hér kemur forgangsröðun ríkisstjórnarinnar skýrt fram einu sinni enn. Þeir lögðu ekkert upp úr því að standa raunverulega við þá samninga sem þeir voru búnir að gera. Þegar þeir uppgötva að nú sé næstum komið að þeim þá ætla þeir að valtra á hefðbundinn hátt yfir eðlilega þinglega meðferð á málinu. Það eru vinnubrögð sem við höfum séð áður. Við stjórnarandstæðingar höfum hins vegar ákveðið eins og hér kom fram, að hjálpa til við umfjöllun málsins og efh.- og viðskn. hefur þegar sent málið út og mun hefja vinnu við málið á mánudaginn þannig að e.t.v. standa vonir til að hægt verði að lögfesta þá þætti sem skipta máli fyrir 1. maí.

Breytingar ríkisstjórnarinnar á sköttunum leiða til tekjuskattslækkunar um 5 milljarða eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh. Það er hins vegar áhyggjuefni hve tekjuskattar einstaklinga hafa vaxið á síðustu árum og ekki hvað síst í tíð þessarar ríkisstjórnar og reyndar á starfstíma hæstv. fjmrh. sem er nú að verða allra manna elstur í starfi fjmrh. Ég man ekki hvort hann er búinn að slá fyrri met en það fer örugglega að koma að því. (Fjmrh.: Í júlí.) Í júlí, upplýsir hæstv. fjmrh. og verður vafalítið tilefni hjá einhverjum að halda honum veglega afmælisveislu, a.m.k. fyrirtækin í landinu og þeir sem betur mega sín (Fjmrh.: Þér verður boðið.) því verður er verkamaðurinn launa sinna. Það sem hins vegar er athyglisvert hér við þróun tekjuskatts er það að tekjuskattur einstaklinga er að verða næstum því jafnhár og virðisaukaskattur. Þetta er áhyggjuefni vegna þess að þó að tekjuskatturinn renni til ríkisins, tæpir 20 milljarðar, þá fara tæpir 30 milljarðar til sveitarfélaganna. Þetta eru mjög háar tölur og eiga vitaskuld að vekja okkur til umhugsunar um hvort við séum á réttri braut með tekjuskattskerfi okkar. Vitaskuld er margt gott í þessu frv. þegar litið er til lengri tíma. Gert er ráð fyrir hækkun skattleysismarka næstu þrjú ár og verið að lögfesta skattastefnu rétt fram yfir aldamót. Vitaskuld er alltaf gott þegar menn geta horft til lengri tíma en það er hægt að setja spurningarmerki við það hvort hér sé um að ræða hina einu réttu línu.

Meginatriðið í þessu er að kerfi með eitt þrep er haldið við, reyndar höfum við núna tvö þrep þar sem við höfum sérstakan hátekjuskatt, en meginútfærsla okkar í kerfinu er eitt þrep. Tillögur Alþýðusambandsins voru um tvö þrep en því var fundið allt til foráttu og nú síðast af hæstv. ráðherra. Þetta er mikið notað erlendis og gengur ágætlega. Ég bendi nú á að sumar þjóðir hafa leyst þetta á miklu skemmtilegri hátt eins og Þjóðverjar sem hafa þrepin þannig að þeir hafa sléttað bil á milli þrepa út með stærðfræðilegri jöfnu, og hafa stighækkandi tekjuskatt. Það er allt frá tveimur og upp í fimm þrep erlendis og það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma og segja að allar þjóðir öfundi okkur af skattkerfinu. Það er nú ekki svo.

Það sem er hins vegar ámælisvert varðandi útfærslu þessa máls og það sem Alþýðusambandið hefur gagnrýnt hvað mest er að þessir fjármunir sem hér er varið til skattkerfisbreytinganna skyldu fara upp allan tekjuskalann, að þeir sem eru hæst launaðir fengu mest af þessum umbótum ríkisstjórnarinnar. Ekki var farin sú leið sem allir lögðu mesta áherslu á, að reyna að rétta hlut láglaunafólksins varðandi þennan þátt. Tekjutengingin í skattkerfinu er mjög þungbær sérstaklega fyrir millitekjufólk. Þessu var lýst mjög ágætlega í grein Arnar Friðrikssonar, formanns Samiðnar, í byrjun ársins þar sem hann dró upp skýr dæmi um áhrif tekjutengingarinnar og hvað væri raunverulega lítið eftir í umslögunum þegar upp væri staðið. Og sú hugmyndafræði mótaði reyndar stefnu verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðum.

Hæstv. fjmrh. verður að svara einum mikilvægum þætti í sambandi við þessar skattkerfisbreytingar og það er hvað á að gera gagnvart eldri borgurum þessa lands. Við þekkjum forsöguna um að bætur almannatrygginganna voru teknar úr sambandi við launamál fyrir einu og hálfu ári og það var slagur hér á síðastliðnu hausti um það þegar einungis átti að hækka bætur um 2%. Hæstv. fjmrh. þverneitaði að opna nokkurn frekari möguleika til hækkunar til eldri borgara. Nú í skattyfirlýsingum ríkisstjórnarinnar gáfust þeir upp og sögðu að bætur úr almannatryggingakerfinu muni taka mið af þessum launabreytingum. Hér þarf hins vegar að svara og hæstv. fjmrh. getur ekki gengið frá þeirri umræðu: Hvað munu bætur almannatrygginga hækka mikið? Munu þær hækka um 5% eða 7--8% eins og líka væri hægt að miða við eða verður tekið mið af enn hærri prósentuhækkunum í tengslum við hækkun lægstu launa? Það er mjög brýnt að eldra fólk fái svar við þessu og sé ekki skilið eftir í óvissu. Eldra fólk hefur komið fram á sjónarsviðið undanfarna mánuði og kvartað yfir tekjutengingu í almannatrygginga- og skattkerfinu og það er brýnt að leiðrétta hluti gagnvart þessum hópi eins og að hækka grunnlífeyri og skerða ekki tekjutryggingu vegna lífeyrissjóðsgreiðslna, þó að vitaskuld væri hægt að hugsa sér einhverja skerðingu vegna launatekna. Einnig er brýnt mál að víkka út heimilisuppbót þannig að allir þeir sem hafa aðeins grunnlífeyri og tekjutryggingu njóti þess. Þessi hópur hefur hingað til verið skilinn eftir af hæstv. ríkisstjórn og það er ósvinna að við getum ekki gengið frá skattamálum og almannatryggingamálum gagnvart eldra fólkinu þannig að sómi sé að. Það er skömm að því fyrir okkur stjórnmálamenn og í þessu efni er það ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á því vegna þess að tillögur okkar stjórnarandstæðinga hafa gengið í aðra átt.

Það má heldur ekki gleyma því þegar hæstv. fjmrh. kemur fram eins og jólasveinninn með 5 milljarðana sína, hvað hann gerði hér í desember þegar hann frysti allar greiðslur í tekjuskattkerfinu, þ.e. frysti skattleysismörkin, barnabæturnar, vaxtabæturnar og annað og lét þær ekki taka eðlilegri hækkun vísitölu eða einhverri hækkun út frá verðlagsbreytingum. Þá var hann að safna upp í þær gjafir sem hann er að gefa núna með þessu frv. Þetta var vond stefna. Það var lúalegt bragð sem ríkisstjórnin beitti í desember og hæstv. fjmrh. er vafalítið að vonast eftir að menn hafi gleymt vinnubrögðum hans í því efni.

Það er ámælisvert, herra forseti, að ekki er haft samráð við sveitarfélögin. Þau eiga að taka þátt í þessum kostnaði. Það er ekki rætt við þau þegar lagt er upp með frv. eins og hér er. Það hefur sömuleiðis komið fram í umræðu á hinu háa Alþingi, ekki hvað síst fyrir forgöngu þingmanna jafnaðarmanna eins og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, varðandi skattsvik að hægt er að ná mun meiri árangri hvað þann þátt varðar. Það á að leggja mun meiri áherslu á það mál.

Hátekjuskattur er lækkaður í reynd. Hæstv. fjmrh. fór með talnaleikinn sinn eina ferðina enn. Hátekjuskattur var hér 47% en fer niður í 45%. Það er meginniðurstaðan. Það er það sem hátekjumennirnir spyrja að: Hvað greiddi ég áður og hvað greiði ég nú? Þeir greiddu 47%, greiða 45%. Það er hins vegar gert þannig að almenna þrepið er lækkað um 4% og hátekjuþrepið er hækkað um 2%. Það þýðir að fyrir hátekjuhópinn kemur fram skattalækkun upp á 2% meðan almennir launþegar þar undir fá skattalækkun upp á 4%.

Vitaskuld er vert umhugsunar það sem hæstv. fjmrh. gerði að umtalsefni, þ.e. svarið við fyrirspurn hv. þm. Árna Mathiesens, að af 200 þúsund framteljendum greiða 70 þúsund skatt, 40 þúsund fá endurgreitt og 90 þúsund greiða hvorki né fá endurgreitt. Það eru aðallega námsmenn og ellilífeyrisþegar. Við sjáum á þessu að þungi tekjuskattskerfisins er á bökum tiltölulega fárra einstaklinga í þjóðfélaginu. Við erum að mínu mati komin út á ystu mörk í því hvað hægt er að leggja á þennan hóp. Þetta er millitekjuhópurinn í þjóðfélaginu sem ég hef gert að umtalsefni. Þetta er fjölskylduhópurinn sem hef gert að umtalsefni. Það þarf vitaskuld að hugsa þetta öðruvísi. Hvað gera aðrar þjóðir? Þær hafa farið þá leið sem m.a. ASÍ talaði um, þ.e. lægra skattþrep, en breikka þá skattstofninn, fjölga þeim sem greiða skatt. Þetta mundi felast í því að menn væru jafnvel með lægri persónuafslátt á lægstu tekjur en mun lægra tekjuskattsstig. Þetta tengist vitaskuld umræðu um kjaramál, uppstokkun á skattkerfi og almannatryggingakerfi. Við þurfum að ræða þetta í hreinskilni. Við horfum upp á að skattleysismörkin eru notuð hér miskunnarlaust í kjarabaráttunni til að halda niðri lægstu laununum. Það þarf að endurmeta þessa stefnu, þ.e. að hækka sífellt skattleysismörkin. Það er spurningin. Eru menn alltaf þar með að þoka niður lífsmöguleikum og raunverulega ráðstöfunartekjum lægsta tekjuhópsins? Þetta kerfi hefur ekki verið vinsamlegt þeim sem lægstar hafa tekjur og þeir hafa ekki haft mikið að bíta og brenna þegar upp er staðið.

Athyglisvert er að taka fyrirtækjaskatta inn í þessa umræðu þótt efnið snúi auðvitað að einstaklingum. Hagur fyrirtækjanna hefur batnað. Það þarf að endurmeta tekjuskatta fyrirtækja í hvert einasta skipti sem lagt er upp með endurskoðaða áætlun og alltaf kemur út lægri tala en áður. Fyrirtækin í landinu greiða sífellt lægri tekjuskatta en menn ætluðu áður og skattumhverfið er með því hagstæðasta í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Auðvitað getur það verið gott út af fyrir sig til að efla fyrirtæki til nýrrar atvinnusköpunar og fjárhagslegs styrkleika, en þegar forsvarsmenn þessarar ríkisstjórnar koma aftur og aftur og krefjast skattalækkana fyrir fyrirtæki og hátekjufólk þá er engin furða þó að venjulegu launafólki sé nóg boðið. Það má nefna það í þessari umræðu, af því arður hefur oft verið nefndur og fjármagnstekjuskattur, að frádráttur arðs frá tekjum eins og viðgengst í íslenska skattkerfinu hjá fyrirtækjum er einsdæmi. Það er sérstök ívilnun af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem hún ætlar að viðhalda. Ekki farið í aðgerðir sem gætu eflt skattkerfið að öðru leyti, t.d. með aukinni frádráttarbærni við þróun, rannsóknir og nýsköpun sem mundi efla fyrirtæki og laun í landinu eða þá í að efla aðra þætti eins og listir, menningu eins og við þingmenn jafnaðarmanna höfum reyndar flutt frv. um.

[12:00]

Nei, það eru ekki gerðar neinar kerfisbreytingar í þessu efni. Það væri athyglisvert í þessari umræðu, af því við eigum eftir að ræða lífeyrismál hér í dag, að stundum er talað um að það eigi að setja þak á lífeyrisgreiðslur inn í samtryggingarkerfið. Það hefur komið fram sú skoðun hjá ráðandi sjálfstæðismönnum að það eigi að gera. Með sama hætti mætti segja að það ætti að setja þak á tekjuskattsgreiðslur þeirra sem mestar hafa tekjurnar í landinu. Það er sambærilegt. Við skulum átta okkur á einu sem er að gerast í þjóðfélaginu og mun marka þá umræðu sem fer fram hér í dag að það eru að verða skýr vatnaskil milli fulltrúa fjármagnsins og fulltrúa launafólks í landinu. Það endurspeglast í þessu frv. og öðrum sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fyrir.

Ég efast reyndar nú orðið um þá stefnu aðila vinnumarkaðarins og einnig verkalýðshreyfingarinnar að í hvert skipti við kjarasamninga sé gerð, stundum sameiginlega, atlaga að ríkisvaldinu, fjmrh., til að knýja fram skattalækkanir. Vegna þess að þessi aðferðafræði hefur ekki þýtt neitt annað en að vinnuveitendur hafa losnað við að hækka launin eins og þeir ættu og gætu gert. Síðan hefur ríkisstjórnin, einkum þessi ríkisstjórn, mætt skattalækkunum með því að skera niður í velferðar- og menntakerfinu.

Ég held, herra forseti, að það sé orðið tímabært fyrir okkur í stjórnarandstöðunni ásamt félögum í verkalýðshreyfingunni að endurmeta, hvort skynsamlegt sé að fara fram þannig að láta ríkissjóð, sem er sjóður fólksins í landinu sem greiðir hvort sem er bróðurpartinn inn í þennan sjóð, sífellt greiða launahækkanir sem vinnuveitendur í landinu eiga að greiða. Ég efast orðið mjög um þessa aðferðafræði. En það breytir ekki því, frv. er komið fram, frv. er samkomulagsatriði, frv. byggir á kjarasamningum og samkomulagi við verkalýðshreyfinguna að nokkru leyti a.m.k. Þess vegna ber að skoða það með þeim hætti og stuðla að því að þau atriði sem þurfa að koma til framkvæmda um mánaðamótin stöðvist alla vega ekki af hálfu stjórnarandstöðunnar og þau munu ekki gera það. Það eru þeir sem fá fyrirframgreidd laun eins og opinberir starfsmenn og reyndar margir aðrir. Ég sé enga ástæðu til annars en að greiða fyrir því að löggjöfin nái fram að ganga gagnvart þeim þannig að staðið sé við samninga sem fjmrh. hefur ekki lagt mikla áherslu á að knýja hér í gegn. En það mun ekki standa á þingflokki jafnaðarmanna við að reyna að leysa það mál.

Ég hef þrjár spurningar til hæstv. fjmrh. sem ég óska eftir að hann svari. Í fyrsta lagi: Hvað verður um ellilífeyrisþegana? Hvað munu bætur í almannatryggingakerfinu verða hækkaðar mikið, 5%, 8% eða hver er niðurstaða ríkisstjórnarinnar varðandi fyrri loforð og baráttu eldri borgara og stjórnarandstöðunnar? Í öðru lagi: Eru nýjar hugmyndir um vaxtabótakerfi? Og í þriðja lagi, sem ég tel vera brýnt að hér komi fram vegna þess að tveir þingmenn Sjálfstfl. hafa lagt fram frv. á Alþingi um að afnema sjómannaafslátt, og það er ósamið við sjómenn. Ég vil fá að vita hjá hæstv. fjmrh.: Nýtur það frv. stuðnings hans? Mun hann greiða fyrir því að það verði samþykkt á þessu þingi? (Forseti hringir.) Við erum að fjalla hér um skattamál í tengslum við kjarasamninga og það er brýnt að upplýst verði hver sé afstaða fjmrh. gagnvart þessu frv. samflokksmanna hans.

Að lokum, herra forseti, munum við í þingflokki jafnaðarmanna greiða fyrir afgreiðslu málsins á málefnalegan hátt.