Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:04:18 (5415)

1997-04-18 12:04:18# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:04]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég taka fram að eins og hefur komið mjög skýrt fram af hálfu forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar munu ellilífeyrisþegar fá hækkun í almannatryggingakerfinu sem jafngildir meðalhækkun sem kemur fram í kjarasamningum. Það er verið að skoða hjá Þjóðhagsstofnun hvað þetta sé mikið og það verður auðvitað gefið út um leið og það er tilbúið en þegar hefur komið fram sú yfirlýsing að þetta verði afturvirkt og gildi frá 1. mars.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um vaxtabótakerfið. Því er til að svara að það eru ekki uppi áform að svo stöddu um að breyta vaxtabótakerfinu. Menn geta gefið sér sumarið til þess að undirbúa það einfaldlega vegna þess að slíkt mundi ekki taka gildi fyrr en um næsta áramót.

Í þriðja lagi spurðist hann fyrir um afnám sjómannaafsláttar. Hvað sem segja má um persónulegar skoðanir í því sambandi þá vil ég að það komi fram að ríkisstjórnin hefur ekki rætt það mál eða komið sér saman um að styðja afnám sjómannaafsláttar að þessu sinni. Þingmannafrv. er því ekki stjórnarfrv. og ekki stutt af ríkisstjórninni.

Mig langar loks, virðulegi forseti, að segja það, af því talað er um skattahækkanir, að það liggur fyrir í nýlegu svari að ef litið er á skatttekjur ríkisins sem prósent af landsframleiðslu þá hefur skatttekjuhlutfall ríkisins af vergri landsframleiðslu á undanförnum árum, frá því að ég tók við sem fjmrh., verið ívið lægra en árin á undan. Það er ekki mikill sjónarmunur en það er ívið lægra þannig að það er aldeilis rangt að í fjármálaráðherratíð minni hafi skattar verið hækkaðir. Það mætti fremur halda því fram að þeir hafi verið lækkaðir. Það er hins vegar rétt að það hefur verið fært til og ástæðan fyrir því að tekjuskatturinn hefur þyngst er fyrst og fremst sú að útsvar hefur hækkað á móti niðurfellingu aðstöðugjalda sem auðvitað var verulegur tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Þetta verða menn að muna því að menn verða að sjá heildarmyndina þegar rætt er um skattbreytingar.