Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:11:24 (5418)

1997-04-18 12:11:24# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:11]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi eldri borgara. Ég hef átt skoðanaskipti hér í þingsölum við hæstv. fjmrh. varðandi þetta mál. Hann neitaði, nokkrum vikum áður en kjarasamningum lauk, að tengja þessar bætur við laun. Það er búið að vera slagur næstum því í hverri einustu viku að toga út úr þeim þessa réttmætu leiðréttingu á kjörum eldri borgara í landinu. Það hafðist sigur, ekki bara vegna stjórnarandstöðunnar heldur líka vegna þess að eldra fólk sló sér saman í baráttu fyrir þessu máli, bæði Félag eldri borgara og Aðgerðahópur aldraðra.

Svo kemur hæstv. fjmrh. hér upp og segir: Það er gott heilbrigðiskerfið. Hvernig ætli því fólki sem er núna á biðlistunum, líði við þessi ummæli? Hvernig ætli því fólki líði sem nú liggur á göngum á spítölum landsins? Vitaskuld veit ég það, herra forseti, að fólkið sem vinnur í heilbrigðisþjónustunni er gott. Við eigum gott fólk sem vinnur í heilbrigðisþjónustunni hvort sem það eru læknar, hjúkrunarfræðingar eða aðrir. Það er ekki vandamálið. Vandamálið er kerfið sem þessi ríkisstjórn er sífellt að skera niður og minnka þjónustu við borgara í landinu. Og að koma hér upp og segja að málin séu í góðu lagi finnst mér vera fyrir neðan allar hellur.

Ég fagna því hins vegar að hann tekur undir að það þurfi að stokka upp skattkerfið. Hann hefur í sjálfu sér ekki gert neitt í þeim efnum. Hann hefur flikkað upp á gamalt kerfi sem er einkenni þessarar ríkisstjórnar. Þessu skattkerfi verður ekki breytt, herra forseti, fyrr en þessi ríkisstjórn er farin frá. Mín framtíðarsýn er sú að eftir tvö ár komi aðrir aðilar að og breyti skattkerfinu í átt við það sem ég hef verið að lýsa og öðrum þáttum sem viðvíkja opinberum umsvifum, þjónustu og skipulagi. Það verður ekki, herra forseti, gert með Sjálfstfl.