Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:13:47 (5419)

1997-04-18 12:13:47# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:13]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Vegna orðaskipta sem urðu hér fyrr á fundinum um störf þingsins vill forseti taka þetta fram: Röð mála á dagskrá er ákveðin af þingforseta. Dagskrá þingfunda þessarar og næstu viku var kynnt þingflokksformönnum í nefndavikunni. Það kom fram í umræðum í morgun að svo virtist sem skorti á samstarf milli þingforseta og ráðherra um röð mála á dagskrá. Svo er ekki en það þarf vart að taka það fram að hver ráðherra leggur áherslu á sín mál.

Forseti sýndi hæstv. forsrh. þá sjálfsögðu kurteisi að bera undir hann dagskrárdrögin fyrir þessa og næstu viku auk þess sem drögin voru kynnt a.m.k. í þingflokkum stjórnarflokkanna. En að sjálfsögðu ber forseti ábyrgð á dagskránni.

Um sérstaka flýtiafgreiðslu einstakra mála er ekki að ræða nema um það takist sæmilegt samkomulag. Yfirlýsingar einstakra þingmanna gefnar hérlendis eða erlendis skipta þar ekki sköpum.

Það er rétt sem fram kom í morgun að samkvæmt starfsáætlun átti ekki að vera fundur í dag. En á fundi forseta með þingflokksformönnum þann 10. þessa mánaðar kom fram tillaga frá einum þingflokksformanna að halda fund í dag en fella niður í staðinn fund föstudaginn 25. þessa mánaðar. Þessi tillaga fékk undirtektir í þingflokkunum og var samþykkt í forsn. mánudaginn 14. apríl.

Forseti hefur rætt við formenn þingflokka um framgang frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem nú er hér til umræðu. Það er samkomulag um að ljúka 1. umr. hér á eftir og vísa frv. til nefndar. Atkvæðagreiðsla verður væntanlega um klukkan þrjú í dag. Efh.- og viðskn. taki málið til meðferðar og komist nefndin að samkomulagi um afgreiðslu málsins eða hluta þess verður málið tekið á dagskrá og afgreitt eigi síðar en á miðvikudag í næstu viku.

Ný áætlun um dagskrá þingfunda næstu viku verður gerð á mánudag í samráði við formenn þingflokka. Með þessu vonast forseti til að þingstörf geti gengið fram samkvæmt dagskrá.