Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:37:15 (5421)

1997-04-18 12:37:15# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að þessi ræða hv. þm. var að mörgu leyti mjög góð og athygli verð, satt að segja. Ég ætla að geyma mér að ræða það sem hann talaði um síðast. Ég skil það vel en ég tel nú að það sé eðli ríkisstjórnarsamstarfs á hverjum tíma að fást við mál eins og þessi. Þetta eru kannski stærstu málin sem við erum að fást við einmitt þessa stundina og munum gera væntanlega eitthvað fram á nýja öld.

Ég vil taka það fram að ákvörðun um hækkun bóta almannatrygginga hefur verið ákveðin. Það er verið að reikna út hvað eigi að koma mikið í upphafi og það er ljóst að ákvörðunin mun ná út samningstímabilið. Það hefur verið sagt.

Ég er sammála hv. þm. að skattalækkanir og reyndar launahækkanir líka eru auðvitað ekki hagfræðilega réttar og virka eins og olía á eld í þenslu. Þetta segja kennslubækurnar okkur. Ég tel þess vegna að hann hafi margt til síns máls þegar hann segir að það sé rangt að gera kjarasamninga á kostnað ríkisins á þenslutímum. En þá verðum við að hafa það í huga að verkalýðsforustan sagði að það væri forsenda kjarasamninga, grundvallarforsenda kjarasamninga að samið yrði um skattalækkun á borð við þá sem hér er verið að ræða. Það er hins vegar rétt að sú skattalækkun mun að einhverju marki setja á okkur pressu útgjaldamegin til þess að við getum varist of mikilli þenslu sem auðvitað getur sett stöðugleikann í hættu. Með þessum orðum vil ég að nokkru leyti taka undir orð hv. þm. en jafnframt benda honum á að pressan sem ríkisstjórnin var í var sú að foringjar verkalýðsins sögðu: Það er forsenda kjarasamninga að hreyft verði við skattamálunum. (Gripið fram í: Hverjir sögðu þetta?)