Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 13:33:26 (5424)

1997-04-18 13:33:26# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er nokkur nýlunda að ræða frv. frá ríkisstjórninni til hagsbóta fyrir launafólk í landinu því það hefur frekar verið þannig að stjórnarandstaðan hefur þurft að verja láglaunafólk og bótaþega fyrir árásum ríkisstjórnarinnar á kjör þessara hópa. Því er ástæða til að fagna því að hér sé tekið til umræðu frv. frá ríkisstjórninni um skattalækkun. En það er eins og, virðulegur forseti, að hvenær sem ríkisstjórnin hreyfir sig í skattamálum þá sé hún fyrst og fremst að hugsa um hálaunahópana og fjármagnseigendur. Það munum við glögglega þegar við ræddum hér og samþykkt var frv. um fjármagnstekjuskatt að það var allt sniðið að því að fjármagnstekjueigendur slyppu vel frá því að greiða fjármagnstekjuskatt en fyrst og fremst var það hinn almenni sparifjáreigandi sem bar hitann og þungann af skattinum. Og það virðist vera svo, herra forseti, í því frv. sem við ræðum hér að ríkisstjórnin sé við sama heygarðshornið því það eru einkum hálaunahóparnir sem fara vel út úr þeirri skattbreytingu sem hér er til umræðu.

Við hljótum að velta fyrir okkur hvert markmiðið með þessari breytingu er. Hverjum er þetta frv. fyrst og fremst ætlað að gagnast? ASÍ setti sér það markmið og kom því á framfæri við ríkisstjórnina í tengslum við kjarasamninga að markmið Alþýðusambandsins væri að lækka skatta á meðaltekjur fyrst og fremst og náttúrlega alls ekki að hækka skatta á láglaunahópana, sem mér sýnist þessi ríkisstjórn vera að gera. Við meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu máli kom ASÍ því á framfæri að það áliti að það ætti að lækka skatta á meðaltekjufólk, mótmælti því að hér væri um að ræða verulega skattalækkun á hátekjufólk og taldi að draga ætti úr henni og nýta það svigrúm sem skapaðist til þess að hækka skattleysismörkin. Mér virðist ríkisstjórnin alls ekki gera það og það sést náttúrlega best á þeim töflum sem fram koma í þessu frv. sem sýnir að áhrifin af þessum breytingum verða þau að ráðstöfunartekjurnar aukast langmest hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Ráðstöfunartekjur hjá fólki með 600 þús. kr., t.d. hjón með tvö börn, aukast fast að 20 þús. kr. og ef það eru hjón með eitt barn þá er það yfir 20 þús. kr. Síðan erum við að sjá eftir því sem neðar dregur að um er að ræða 2, 3--4 þús. kr. skattalækkun. Og það er athyglisvert eins og reyndar kom hér fram í umræðunni hvers vegna ríkisstjórnin sýnir ekki hvaða áhrif þessar breytingar hafa á tekjur undir 75 þús. kr. Þá er komið að spurningu minni, hæstv. forseti, sem ég hef til hæstv. ráðherra: Hvað eru það margir sem hafa verið undir skattleysismörkum fram til dagsins í dag, sem hafa verið á þessum strípuðu launatöxtum, og fara nú inn í skattkerfið og fara að greiða skatta þegar þeir fá tekjur sem eru 70 þús. kr.? Hvers vegna telur hæstv. ráðherra enga ástæðu til að sýna hvaða áhrif þessar skattbreytingar hafa á tekjur fólks með 70 þús. kr.? Nú hlýtur hæstv. ráðherra að hafa skoðað þetta. Hvað eru það margir af láglaunahópnum sem fara inn í skattkerfið við þessa breytingu? Hve margir af þeim fara að greiða skatt? Einhverjir eru það, a.m.k. einstaklingar sem ekki eru inni í bótakerfinu. Og hjá öðrum sem eru þó með 70 þús. kr. hlýtur þetta að þýða lækkun á bótagreiðslum ef þetta gengur upp í þær. Þess vegna spyr ég: Hvaða breyting verður fyrir þessa hópa þegar þessar breytingar komast til framkvæmda? Mér finnst það grundvallaratriði að hæstv. ráðherra svari því.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, en hann hefur fært rök fyrir því af hverju ekki var orðið við tillögum ASÍ um að fara í fjölþrepakerfi. Mér fannst rök hæstv. ráðherra góð og gild. Ráðherrann sagði að rökin væru þau að þá kæmi skattalækkunin ekki til framkvæmda fyrr en um mitt næsta ár og fjölþrepaskattkerfi gæti aukið smugur fyrir skattundandrátt. Þetta finnst mér góðra gjalda vert og gild rök út af fyrir sig. Engu að síður sýndu tillögur um fleiri þrep að skattalækkunin skilaði sér miklu betur til fólks með meðaltekjur og fólks með lágar tekjur heldur en sú leið sem ríkisstjórnin velur. En nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra um aðra útfærslu sem hann getur ekki fært þessi sömu rök fyrir, þ.e. að þá sé ekki hægt að láta skattalækkanirnar taka gildi fyrr en um mitt næsta ár og að þær muni leiða til aukningar á skattundandrætti. Það eru hugmyndir ASÍ sem ríkisstjórninni var fullkunnugt um sem gengu í þá veru að almenn tekjuskattslækkun yrði úr 42% í 40% í staðinn fyrir 42% í 38%. Það svigrúm sem skapaðist með því að farið yrði með þetta niður í 40% í staðinn fyrir 38% yrði nýtt til þess að hækka skattleysismörkin í 70 þús. kr. Af hverju var sú hugmynd ekki skoðuð? Hvaða áhrif hefði hún haft? Í gögnum frá ASÍ, sem ég vænti að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér, hefur komið fram samanburður á þeirri útfærslu --- hvernig hún hefði dugað fyrir fólk með lágar tekjur og meðaltekur samanborið við tillögur ríkisstjórnarinnar. Þá kemur í ljós að ef þessi leið er farin, tillögur ASÍ, sem ég held að kosti lítið meira en sú leið sem ríkisstjórnin er að fara, hefði það þýtt að fólk með meðaltekjur, ef við miðum við 250 þús. kr., hefði fengið meiri skattalækkun samkvæmt þeim eða um 2 þús. kr. meiri skattalækkun, en hálaunahóparnir sem eru með hæstar tekjurnar, um 600 þús. kr., hefðu fengið 12 þús. kr. í skattalækkun í staðinn fyrir 16 þús. kr. sem ríkisstjórnin ætlar að færa þessum hópum. Og ég spyr: Hvaða rök voru fyrir því að fallast ekki á þessar hugmyndir eða a.m.k. að taka til skoðunar hugmyndir ASÍ að því er þetta varðar?

Ef við bara skoðum þetta línurit sem hér er sést að við hefðum náð því markmiði sem allir hafa verið að tala um, að draga úr jaðarsköttunum, ná fram skattalækkunum sérstaklega til fólks með meðaltekjur, sem allir eru sammála um að þurfi að gera, og koma í veg fyrir, sem er lykilatriði, að sú litla kjarabót sem launafólk sem er á strípuðum töxtum fær verði ekki tekin til baka í sköttum sem þetta fólk hefur ekki þurft að greiða hingað til. Af hverju er það svo? Það á að hlífa fólki með 70 þús. kr. við skattgreiðslum. Ég hélt að um það væri almenn sátt í þjóðfélaginu að fólk sem er á lægstu launum, á hungurtöxtunum, og þeir eru hungurtaxtar áfram þótt þeir séu 70 þús. kr., ætti ekki að greiða skatta. Launin duga ekki fyrir framfærslunni, langt í frá, og þess vegna væri það réttlætismál sem samstaða væri um hjá öllum stjórnmálaflokkum að þetta fólk ætti ekki að greiða skatta. Auðvitað er það svo að við búum náttúrlega við óþolandi launakerfi þar sem ríkissjóður þarf að taka á sig að greiða niður skatta fyrir atvinnureksturinn og það er óþolandi ástand til frambúðar og því miður erum við að festa það ástand í sessi fram yfir næstu aldamót. Atvinnureksturinn í landinu er ekki fullfær um að greiða hér sómasamleg laun fyrir alla og þess vegna hefur ríkisvaldið tekið að sér að greiða niður launin. Auðvitað vildi þetta fólk mjög gjarnan greiða skatta til samfélagsins, en af 70 þús. kr. --- það sjá allir að það gengur ekki að láta fólk greiða skatta af slíkum tekjum. Ríkisstjórnin á auðvitað að viðurkenna þá staðreynd að þegar launin duga ekki fyrir framfærslunni, til hnífs og skeiðar frá degi til dags, þá á hún að hækka skattleysismörkin upp í 70 þús. kr. En hvað gerir ríkisstjórnin? Hún kýs frekar að nota það fjármagn sem á núna að fara til þess að lækka skattana, láta skattalækkanir ganga frekar til hálaunahópanna heldur en að hlífa þeim sem eru á botninum og nú fara að greiða skatta. Þetta er auðvitað eftir öðru hjá ríkisstjórninni. Hún er þarna við sama heygarðshornið og áður. Það var komið í veg fyrir það, sem betur fer, að hún næði fram mjög óréttlátri útfærslu á vaxtabótunum sem bitnað hefði á fólki með lágar tekjur og meðaltekjur en hún virðist ætla að komast upp með það, herra forseti, að verulegur hluti af því fjármagni sem tekið er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna á að renna til þess að lækka skatta hálaunahópanna. Og ráðstöfunartekjur þeirra sem eru með 400, 500 og 600 þús. kr. aukast mest við þessa breytingu. En við erum að fara í þá grundvallarbreytingu á skattkerfinu að fólk með lægstu tekjurnar, fólk með lægstu launin, er nú allt í einu komið inn í skattkerfið og á að fara að greiða skatta. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra sérstaklega um þessa útfærslu, hæstv. forseti. Var sú útfærsla að lækka skatthlutfallið úr 42% í 40% en hækka skattleysismörkin í staðinn í 70 þús. kr. strax skoðuð af hálfu ríkisstjórnarinnar? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera varðandi skattleysismörkin? Hún ætlar að hækka þau úr 60 í 65 þús. kr. --- ekki strax. Nei, í lok samningstímans, í 65 þús. kr. árið 2000. Hún ætlar að hækka skattleysismörkin um 2,5% frá næstu áramótum og síðan um 2,5% árlega upp frá því til aldamóta sem er auðvitað ekkert annað en hækkun sem áætluð er á verðlagi þennan tíma.

[13:45]

Þess vegna spyr ég: Hvað með þessa hugmynd? Er ráðherra opinn fyrir því að hv. efh.- og viðskn. skoði þessa leið við meðferð málsins? Og ef leið ráðherrans verður ofan á hvað eru það þá margir á þessum launum sem hafa verið undir skattleysismörkum hingað til sem nú koma inn í skattkerfið? Og ég spyr ráðherrann líka: Hver verða útgjöld ríkissjóðs vegna þessara skattbreytinga árlega, þ.e. á þessu ári? Ég spyr um hvert ár fyrir sig. Ég veit að þetta er 5--5,5 milljarðar allan tímann en ég spyr um hvert ár fyrir sig, árið í ár 1997, 1998 og 1999. Og ég spyr líka um hátekjuskattinn. Hvað gefur hann ríkissjóði nú þessi sérstaki hátekjuskattur og hvað mun hann gefa eftir breytinguna? Fjölgar þeim sem greiða sérstakan hátekjuskatt? Stendur það í stað eða verður þar fækkun á?

Og ég spyr líka um það sem margir hafa áhyggjur af: Munu þessar skattalækkanir sem sérstaklega koma til með gagnast hálaunahópunum verða til þess að ríkisstjórnin mun við næstu fjárlagaafgreiðslu eða við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1999 fara að þrengja að velferðarkerfinu til þess að eiga fyrir þessum skattalækkunum og ég tala nú ekki um þær sem eiga að renna til hálaunahópanna? Getur stjórnarandstaðan og getur verkalýðshreyfingin fengið loforð fyrir því og vilyrði að ekki verði farið út í að auka þjónustugjöld á láglaunahópana til þess að eiga fyrir þessum skattalækkunum eða að þrengja að velferðarkerfinu? Hvers megum við vænta í því efni? Það er grundvallaratriði að þetta liggi fyrir, ekki síst þegar búið er að festa kjarasamningana fram til ársins 2000.

Ég vil líka spyrja, herra forseti, hvort hæstv. ráðherra lítur svo á að hér sé verið að fara fram með skattbreytingar í sátt við verkalýðshreyfinguna. Hæstv. ráðherra greindi frá tillögum ASÍ --- ég veit ekki hvort BSRB var með í þeirri útfærslu --- sem ríkisstjórnin hefði ekki getað fallist á með þeim rökum sem ráðherra tilgreindi hér. En skoðaði ríkisstjórnin þá hugmynd sem kom fram hjá ASÍ og ég nefndi áðan? Lítur ráðherrann svo á að sú útfærsla sem hér er gerð sé í fullri sátt við verkalýðshreyfinguna? Mun hæstv. ráðherra, ef verkalýðshreyfingin, t.d. BSRB --- það væri gott að heyra hér á eftir afstöðu formanns BSRB til þeirra hugmynda sem ég hef sérstaklega talað fyrir hér --- vera tilbúinn að skoða og veita liðsinni sitt til að þessi skattbreyting sem ég tala hér fyrir verði ofan á ef sérstaklega verður gengið eftir því af hálfu aðila vinnumarkaðarins?

Ég tel líka fulla ástæðu til þess að spyrjast fyrir um það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra hér áðan þegar hann var inntur eftir því hvaða breytinga væri að vænta á bótakerfinu nú í kjölfar samninga. Hæstv. ráðherrann svaraði því til að verið væri að vinna að þessu máli í Þjóðhagsstofnun, en ég skildi hann svo að það væri búið að taka ákvörðun. Þar nefndi ráðherrann að miðað væri við meðalhækkun á launum í landinu. Getur ráðherrann staðfest það hér --- það mundi eyða ákveðinni óvissu --- að þegar sé búið að taka ákvörðun um að bótagreiðslur almannatrygginga, þ.e. öryrkja, ellilífeyrisþega og atvinnulausra, eigi ekki að hækka til samræmis við hækkun á lægstu launum í landinu? Liggur það þegar fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að bótagreiðslurnar hækki ekki á þessu samningstímabili upp í 70 þús. kr. eins og lægstu taxtarnir eiga að gera? Það mundi eyða ákveðinni óvissu ef það lægi fyrir. Og af því mér fannst á máli hæstv. ráðherra að þegar lægi fyrir ákvörðun í þessu efni þá spyr ég: Hefur sú prinsippafstaða verið tekin að hækka ekki bótagreiðslur almannatrygginga til samræmis við lægstu launin? Ef svo er þá er um ákveðna grundvallarbreytingu á bótakerfi almannatrygginga að ræða vegna þess að á umliðnum árum hafa lægstu bætur, þ.e. grunnlífeyrir og full tekjutrygging í almannatryggingakerfinu ásamt heimilisuppbót, haldist í hendur við lægstu launin í landinu. Við erum því að gera grundvallarbreytingu á bótakerfinu ef ríkisstjórnin ætlar að nota þá lagabreytingu á þann hátt sem hún knúði hér í gegn í andstöðu við stjórnarandstöðuna fyrir rúmu ári síðan, þ.e. að aftengja bætur almannatrygginga við launaþróun.

Herra forseti. Ég hef lagt ákveðnar spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem ég tel mikilvægt að fá svör við. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum sem ég vona að hann hafi tekið niður, og að við fáum hér upplýst hvað þessar skattalækkanir eiga að kosta. Það hefur verið farið í gegnum það að greiðslur í tekjuskattkerfinu sem fólk átti með réttu að fá nú fyrir jólin voru frystar. Það gaf ríkisstjórninni svigrúm upp á 800 þús. kr. til einn milljarð í tekjur. Kosta þessar skattbreytingar eitthvað meira á þessu ári en sem þeirri fjárhæð nemur? Ég held að mjög nauðsynlegt sé að fá fram svar við því. Og ekki síst ítreka ég að svarað verði spurningu minni um það hve margir þeirra sem hafa verið undir skattleysismörkum komi inn í skattkerfið við þessa breytingu.