Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 13:55:06 (5426)

1997-04-18 13:55:06# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að ráðherrann svaraði ekki í þessu stutta andsvari þeim grundvallarspurningum sem ég beindi til hans varðandi það að fara aðra leið, þ.e. þá sem ASÍ hefur sett fram og hvað það þýddi fyrir láglaunahópana þegar þeir fara nú að greiða skatt af því skattleysismörkin verða undir þeim tekjum sem þeir fá á tímabilinu.

Varðandi það að grundvallarmunur sé á skattastefnu minni og hv. þm. Ágústs Einarssonar þá er það rangt hjá hæstv. ráðherra. Ég tala fyrir því að það þurfi sérstaklega að gera vel núna í skattkerfinu fyrir fólk með meðaltekjur og að það sé ekki verið að íþyngja fólki með lágar tekjur. Það er nákvæmlega líka málflutningur Ágústs Einarssonar að það eigi ekki að fara þá leið. Ég heyrði það í ræðu Ágústs Einarssonar að hann talaði líka um að verið væri að gera sérstaklega vel við hálaunahópana. Ég get líka tekið undir það sem fram kom hjá Ágústi Einarssyni og fleirum við umræðuna um frv. að ég mun auðvitað greiða fyrir því að frv. muni ná fram að ganga. Hins vegar hef ég þá skoðun að hægt sé að fara aðra leið sem skilar þessum markhópi sem ég er að tala hér fyrir miklu meiri skattalækkunum en hálaunahópunum sem hæstv. ráðherra ber sérstaklega fyrir brjósti og að þeim sé skilað minna í þessum skattalækkunum. Ég hygg að gjörvöll stjórnarandstaðan tali nú fyrir því að fyrst og fremst eigi að hugsa um fólk með lágar og meðaltekjur en ekki að vera að hugsa sérstaklega um hálaunahópana með 500--600 þúsund eins og þessi ríkisstjórn gerir ávallt í öllum skattalagabreytingum sem hún stendur fyrir.

Hæstv. forseti. Ég mun ganga eftir því að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem hann átti ósvarað nú síðar á þessum fundi.