Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 13:57:08 (5427)

1997-04-18 13:57:08# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:57]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. spurðist fyrir um það hvort hér væri á ferðinni stefna sem væri gerð í sátt við verkalýðshreyfinguna. Það skal tekið fram að stefnan var að sjálfsögðu kynnt verkalýðshreyfingunni í tengslum við kjarasamningana og þeir voru staðfestir eftir að sú stefna lá fyrir sem hér er verið að kynna í þessu frv. Þess vegna er ekki hægt að breyta frv. í grundvallaratriðum nú. Þá væri talið að við værum að fara á bak við þá hópa sem þegar hafa samið vegna þess að þeir töldu að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar stæði og yrði að lögum.

Hv. þm. spurðist fyrir um það hve margir yrðu nýir skattgreiðendur og færu upp í 70 þús. kr. Því get ég ekki svarað nákvæmlega. Ég held að það sé ekki hægt að svara því fyrr en upp er talið úr kössunum og með tímanum. Ég vona að sem flestir bætist í hóp skattgreiðenda því það þýðir að þeir sem lægst hafa launin hafa fengið það mikla hækkun að þeir verða skattgreiðendur. Og það var nákvæmlega það sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði líka. Hann lagði áherslu á að sem flestir greiddu skatta en benti á að hugsanlega mætti hafa lægra skatthlutfall fyrir þá sem lægstar hefðu tekjurnar. Ef við ætluðum að einblína eingöngu á skattleysismörkin eins og hugmyndir hv. þm. eru, þ.e. að nota svigrúm til þess, þá erum við að fækka skattgreiðendum og láta þá sem greiða skatta borga hærra hlutfall, þ.e. að þyngja skattbyrðina á þeim sem bera hitann og þungann af skattgreiðslum í kerfinu sem eru ekki nema þriðjungur framteljenda. Á þetta vil ég benda og það kemur þess vegna fram verulegt misræmi í málflutningi hv. þm. og hv. þm. Ásgústs Einarssonar sem leggur áherslu á að tekjujöfnuðurinn og jöfnunin í skattkerfinu sé kannski orðin of mikil á sama tíma og formaður Þjóðvaka heldur því fram hér að það eigi að hækka skattleysismörkin en draga minna úr skatthlutfallinu en gert er ráð fyrir í þessu frv.