Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:01:26 (5429)

1997-04-18 14:01:26# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:01]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að gera að umræðuefni þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að hér séum við í raun að fjalla um hluta af kjarasamningum. Þær tillögur sem hér liggi fyrir séu forsendur kjarasamninga, hafi verið forsendur kjarasamninga og séu forsendur kjarasamninga. Þetta er alrangt. Ég mun skýra nánar hvað ég á við.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að mótmæla málflutningi hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. bæði hér á Alþingi og einnig í fjölmiðlum, sem gengur út á að telja okkur trú um að í tengslum við kjarasamninga megi búast við 20% kaupmáttaraukningu á næstu árum. Hæstv. forsrh. lýsti þessu yfir í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu og var þá að fjalla um kjarasamninga þar sem kveðið er á um að meðaltali rúmlega 4% kauphækkun á ári, þar sem verið var að fjalla um skattkerfisbreytingar sem fela í sér tekjuskattslækkun upp á fjögur prósentustig í áföngum á sama tíma og Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn spá því að búast megi við verðbólgu upp á 2,5%--3% á ári. Er þá eitthvað annað sem skýrir þessa miklu kaupmáttaraukningu? Er eitthvað annað í skattkerfisbreytingunum sem skýrir hina miklu kaupmáttaraukningu? Eru það hugsanlega breytingarnar á barnabótunum sem gera það? Nei. Vegna þess að í tillögunum sem fram hafa verið settar um barnabætur er ekki gert ráð fyrir neinu viðbótarfjármagni. Þar er einvörðungu um tilfærslur að ræða. Er það þá í skattleysismörkunum? Eru það þau sem skýra hina miklu kaupmáttaraukningu? Nei. Það er gert ráð fyrir að þau rýrni. Rýrni á þessu tímabili vegna þess að þótt gert sé ráð fyrir að þau fylgi verðlagsþróun á komandi árum þá gera þau það ekki á þessu ári.

Reyndar hefur bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. breytt málflutningi sínum ögn upp á síðkastið og skýrt þessa margrómuðu 20% kaupmáttaraukningu með því að bakka örlítið aftar í tímann. Nú á þetta að gilda um tímabilið frá 1995 og fram til aldamóta. Þetta eru miklar, grófar og alvarlegar blekkingar sem ég vil byrja á að vekja rækilega athygli á.

Hver er aðdragandi þessa máls? Hann er sá að á liðnum árum hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á skattkerfinu. Ef við hverfum aftur til ársins 1988 þá var tekjuskattur einstaklinga 35,2% en er nú 42%. Hver skyldi tekjuskattur fyrirtækja hafa verið 1988? Hann var 51%. Hver er hann núna? Hann er 33%. Að auki hefur verið ráðist á millifærslukerfið, bætur til húsnæðiskaupenda og leigjenda. Ráðist hefur verið á barnafólk sérstaklega auk þess sem sett hafa verið á komugjöld á heilsugæslustöðvar, lyfjakostnaður aukinn, gjöld sett á nemendur í skólum og þannig mætti áfram telja. Ég endurtek: Tekjuskattur úr 35,2% upp í 42% á sama tíma og tekjuskattur fyrirtækja fer úr 51% í 33%. Og nú kemur hæstv. fjmrh. hér og segir að hann sé að boða mestu skattalækkun, ég held bara í sögu lýðveldisins. Ég held að það hafi verið svo. (SJS: Allt frá dögum Rómverja.) Nú segir hann í ofanálag að þetta sé allt gert samkvæmt ýtrustu kröfum verkalýðshreyfingarinnar, sé í reynd hluti af kjarasamningum. Er það ef til vill líka hluti af kjarasamningum að hlunnfara öryrkja og atvinnulausa? Því var lýst blákalt yfir áðan að til stæði að hlunnfara þessa hópa sem á undanförnum árum hafa fylgt lægstu kauptöxtum en eiga nú að fylgja meðaltalslaunahækkunum í landinu.

Hvernig hefur verkalýðshreyfingin komið að þessu máli? Hún hefur löngum barist fyrir því að hér verði komið á réttlátri skattlagningu. Hún hefur barist fyrir því. Hún vildi taka ríkisstjórnina á orðinu þegar hún kom fram með sín kosningaloforð um lækkun jaðarskatta og hvatti mjög eindregið til þess í upphafi kjörtímabilsins að gengið yrði til þeirrar vinnu. Það gerði verkalýðshreyfingin. Hún fagnaði því þegar skipuð var svokölluð jaðarskattanefnd, sem átti að taka á þessum málum, sem hefði reyndar þurft að vera mun víðari og byggja á breiðri pólitískri samstöðu og fá þar einnig að borði fulltrúa stjórnarandstöðu til að reyna að skapa þjóðarsátt um skattkerfisbreytingar til langs tíma. En ríkisstjórnin hafði lofað að hún mundi taka til hendinni gagnvart jaðarsköttum. Nú segir hæstv. fjmrh. og lýsir því ítrekað yfir, að svo kunni að fara að menn þurfi að skera einhvers staðar niður vegna skattalækkana. Var kjósendum sagt frá þessu fyrir síðustu kosningar? Fengu kjósendur að velta fyrir sér þeim valkostum, niðurskurði annars vegar og skattalækkunum hins vegar? Nei. Það er ekki fyrr en að loknum kosningum að komið er í bakið á fólki á þennan hátt. Núna á að reyna að misnota góðan vilja verkalýðshreyfingarinnar til að láta líta svo út að hún sé hæstánægð með það sem hér er að gerast, skerðingu á bótum til öryrkja og atvinnulausra. Þetta stríðir beint gegn hennar vilja og hennar kröfum. Hún hefur líka sett fram kröfur um allt aðrar breytingar á skattkerfinu en hér er um að ræða.

Þetta minnir mig örlítið á það þegar verkalýðshreyfingin á sínum tíma setti fram kröfur um breytingar á skattlagningu fjármagns. Þá vildi verkalýðshreyfingin að komið yrði á réttlátri skattlagningu fjármagns. Ríkisstjórnin bjó hins vegar svo um hnútana að um leið og fjármagnið var skattlagt var tekjuskattur 40 tekjuhæstu hlutafélaga landsins lækkaður um rúmlega 800 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra á þeim tíma mátti ætla að skattstofn af arði, söluhagnaði, mundi lækka um 740 millj. kr. Allt átti þetta að vera verkalýðshreyfingunni að kenna. Þetta voru ekki hennar kröfur. En ríkisstjórnin misnotar ítrekað vald sitt til að þröngva upp á verkalýðshreyfinguna og stjórnarandstöðuna ranglátum skattkerfisbreytingum af þessu tagi. Nú er þetta einnig að gerast varðandi þessar breytingar.

Verkalýðshreyfingin setti fram kröfur um að sköttum yrði létt af tekjulágu fólki. Menn veltu vöngum yfir því hvaða leiðir væru heppilegastar að þessu leyti. Það er hárrétt sem kom fram nú síðast í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að menn lögðu til, ekki einvörðungu ASÍ heldur BSRB og samtök launafólks almennt hafa knúið á um þetta, að menn skoðuðu fleiri skattþrep. En við búum nú við tvö skattþrep. Þannig að um raunverulegar tekjubætur yrði að ræða hjá lægst launaða fólkinu. En ríkisstjórnin hunsaði þessar kröfur. Hún hunsaði líka og hefur hunsað kröfur um að menn tækju heildstætt á þessu máli. Eða skyldu menn vera búnir að gleyma því að þegar jaðarskattanefnd hóf störf í upphafi árs 1996 var gert ráð fyrir því, og sett á blað reyndar skriflega, að skoða þyrfti samspil skattkerfis og tryggingakerfis. Að skoða þyrfti þetta samspil í heild sinni. Hvað líður þessu starfi? Niðurstaðan er sú að menn ætla að hafa af atvinnulausu fólki og öryrkjum þær kjarabætur sem menn eru að semja um á almennum vinnumarkaði og eiga fljótlega eftir að semja um hjá hinu opinbera einnig. Vegna þess að sú var tíðin þangað til þessi ríkisstjórn komst til valda að bætur til þessara hópa fylgdu lægstu kauptöxtum. Nú segir hæstv. ráðherra að þetta sé liðin tíð, nú skulum við halda okkur við meðaltölin. Ekki nóg með það, við þurfum að breikka skattstofninn, segir hann. Eins og við séum að tala um einhver einföld reikningsdæmi. Breiðari skattstofn er miklu betri en þröngur skattstofn, segir hæstv. ráðherra. Í hverju felst þessi breikkun skattstofns hæstv. ráðherra Friðriks Sophussonar? Er það öryrkinn sem á að verða skattstofn ríkisstjórnarinnar? Er það hinn atvinnulausi sem á að verða skattstofn ríkisstjórnarinnar? Hvað eru menn eiginlega að tala um? Menn eru að stæra sig af því að í lok aldarinnar verði skattleysismörk komin í 66.000 kr. Ef skattprósentan væri hins vegar sú sama og hún var 1988 og persónuafsláttur hefði fylgt verðlagsþróun eins og gert var ráð fyrir, þá væru skattleysismörkin núna, ekki við næstu aldamót heldur núna, tæplega 80.000 kr. En menn eru að hrósa sér af því og slá sig til riddara í dýrðaryfirlýsingum um mestu skattalækkanir aldarinnar eða sögunnar að tala um að skattleysismörk verði um aldamótin komin í 66 þús. kr. þegar þau ættu að vera 80 þús. kr. núna.

[14:15]

Hvað er það sem verkalýðshreyfingin almennt hefur verið að fara fram á? Hún hefur sagt að hún vildi heildstæða skoðun á skattkerfinu og þar með öllum jaðarsköttum, þar með á breytingum á almenna tryggingakerfinu. Menn hafa alla tíð, og það á við um alla verkalýðshreyfinguna, lagt á það ríka áherslu að þeir sem njóta bóta frá almannatryggingakerfinu verði í engu hlunnfarnir. Það er gróft og lúalegt að gefa í skyn að það sé samkvæmt samráði við verkalýðshreyfinguna að þessir hópar séu hlunnfarnir. Það er alrangt. Þótt verkalýðshreyfingin hafi sagt að það væri forsenda fyrir því að menn gætu gengið til samninga að menn vissu að hverju menn gengju í skattumhverfinu, þá er það allt annar handleggur og óskyldur þeim að skrifa upp á þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur sett fram. Það er algjörlega óskylt mál.

Í þriðja lagi hefur verkalýðshreyfingin lagt áherslu á að meira fjármagn renni til barnabóta og að dregið verði úr tekjutengingu í því kerfi, þó þannig að lægst launaða fólkið og millitekjuhóparnir verði í engu hlunnfarnir. Það kostar meiri peninga inn í það kerfi. Það sem menn eru hins vegar að gera tillögur um hér er að tekjutengja allar greiðslurnar án þess að króna renni inn í þetta kerfi til viðbótar með þeim afleiðingum að millitekjuhóparnir eru stórlega skertir. Skerðingin byrjar hjá fólki með heildarfjölskyldutekjur upp á 270 þús. kr., skerðingin er orðin algjör og greiðslurnar uppurnar þegar komið er í 375 þús. kr. og reyndar orðnar afar litlar þegar komið er yfir 320--330 þús. kr.

Ég held að ríkisstjórnin þurfi að temja sér önnur vinnubrögð. Ef hún í raun ætlar að leita eftir samstarfi og víðtækri sátt í þjóðfélaginu þá verður hún að gera það í reynd en ekki að reyna að gera annan og þriðja aðila í sífellu ábyrgan fyrir sinni eigin stefnu. Þótt ítrekað hafi komið fram, eins og ég hef hér skýrt, af hálfu launafólks að menn vildu vita að hverju þeir gengju og legðu áherslu á sín sjónarmið og til þeirra yrði tekið tillit, þá er það allt annar handleggur en sá að skrifa upp á skattastefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.