Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:30:11 (5431)

1997-04-18 14:30:11# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:30]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi fá að gera frekari grein fyrir vegna ummæla sem hér hafa fallið. Í fyrsta lagi harma ég hvernig hv. síðasti ræðumaður snýr út úr því sem ég sagði fyrr í ræðu minni.

Það sem ég sagði var að ég vonaðist til þess að laun flestra hækkuðu það mikið að skattgreiðendum fjölgi. Þetta hafa verið tilefni tveggja ræðna af hálfu hv. þm. (ÖJ: Verður það sýnt við samningaborðið?) til þess að --- já, já, það skal sýnt við samningaborðið, það þarf ekkert að kvíða því. Ég hygg að það séu ekki margir opinberir starfsmenn, hv. formaður BSRB, sem eru fyrir neðan þessi mörk. En auðvitað mun um það verða samið og það veit reyndar hv. þm. (ÖJ: Mikilvæg yfirlýsing.) Já, já, það má vera mikilvæg yfirlýsing. Það sem ég ætlaði að segja er að ekki er heldur rétt hjá hv. þm., og ég undrast það dálítið, vegna þess að hv. þm. var í ríkisstjórn á árunum 1987 og 1988, að skattfrelsismörkin hafa verið sett sérstaklega til þess að vernda þá lægst launuðu. Hugmyndin var auðvitað sú, eins og kemur fram í gögnum sem eru til, að öllum frádráttarliðum var safnað saman og út úr þeim var fenginn skattafsláttur. Það er skattafslátturinn sem er greindur í lögunum. En afleiðingin af skattafslættinum er síðan skattleysismörkin sem hér hafa verið til umræðu og er ekkert við það að athuga. Með því að draga úr tekjustofninum og fella 4% framlag í lífeyrissjóði undan skatti þá virkar það auðvitað með sama hætti að frádrátturinn vex hjá öllu launafólki sem borgar í lífeyrissjóði. Á það hefur ekkert verið minnst hérna.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi er --- og að því leyti til var ræða hv. þm. Ágústs Einarssonar góð því hann benti á að við mættum skoða það í framtíðinni --- að íslensku skattleysismörkin eru miklu hærri en í nágrannalöndunum. Tölur um þetta er að finna á þingskjali sem hefur verið dreift hér. Þar kemur fram að þegar skattleysismörkin hér á landi eru 60 þús. þá eru skattleysismörkin í Danmörku 28.000 ísl. kr. og lægsta þrep skatthlutfallsins er 12% en hæsta 34%, þ.e. í Danmörku eru skattleysismörkin tvenns konar, annars vegar vegna skatta til ríkisins og hins vegar til sveitarfélaganna. Í Finnlandi eru skattleysismörkin engin til sveitarfélaganna þó að skatturinn sé 22%, það er skattað alveg frá grunni. Í Noregi eru skattleysismörkin 8.000 ísl. kr. til sveitarfélaganna og skatturinn 28% og í Svíþjóð eru skattleysismörkin 10% til sveitarfélaganna og meðalskatturinn er 30%, að vísu ekki alveg nákvæmlega það hjá öllum. Auðvitað eru skattkerfin ekki nákvæmlega eins hjá okkur og þessum þjóðum. En ég bið hv. þm. að skoða þetta af fullri sanngirni og rifja upp þá umræðu sem varð hér fyrir rúmlega tíu árum þegar verið var að fjalla um þessi mál, því að þá var ákveðið að hafa skattprósentuna eina. Menn voru að reyna að kalla fram ýmis gæði þess t.d. að geta borgað samtímis skatta sem ekki var hægt þá. Það var afspyrnuslæmt þegar tekjurnar eru misjafnar frá ári til árs. En skattleysismörkin, eða öllu heldur skattafslátturinn sem ræður skattleysismörkunum var fundinn með því að fella niður frádráttarliði í gamla kerfinu og safna þeim í skattafslátt. Þetta verður að rifja upp. Og vissulega er það svo að ástæða er til að skoða þetta. Við gætum t.d. hugsað okkur að hafa tvö þrep, annað sem færi til sveitarfélaganna og hitt til ríkisins. Slíkt kerfi er alveg hugsanlegt því þá kæmi líka í ljós hvor aðilinn það er sem tekur meira til sín af tekjunum úr tekjuskattkerfinu, ríkið eða sveitarfélögin. Það væri hægt að hugsa sér það en það mundi auðvitað kosta verulegar breytingar á kerfinu og erfiðleika þegar verið er að setja saman samtímagreiðslur í staðgreiðsluskattkerfinu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom hvergi í sínu máli að því hvort hann styddi þetta frv. eða ekki. Hann vék sér fimlega undan því að taka afstöðu til frv. en réðist að sjálfsögðu á ríkisstjórnina fyrir hitt og þetta. Þar á meðal heyrðist mér hann, ég held að ég hafi ekki misskilið hann, gagnrýna nokkuð þá spá um kaupmáttaraukningu sem ætti sér stað til aldamóta og hefði þegar átt sér stað frá árinu 1995. (ÖJ: Gagnrýndi blekkingarleik.) Allt í lagi. Þá ætla ég að fara með tölur frá Þjóðhagsstofnun. Þær eru þessar:

Árið 1995 er talið að ráðstöfunartekjur á mann, kaupmáttur þeirra, hafi hækkað um 3,5%, 1996 4,5%, spá fyrir yfirstandandi ár er 4,5%, spá fyrir 1998 4,1% og 1999 3,1%. Samtals 21%. Nú skulum við skoða afrakstur þeirra ríkisstjórna sem hv. þm. studdi, að ég best veit, og sátu við völd árin 1988--1991. Ef við tökum árin 1988--1990 þá skulum við skoða ráðstöfunartekjur á mann. (Gripið fram í: ... ríkisstjórn.) Það er náttúrlega mjög mikilvæg yfirlýsing og í raun og veru fróðleg í alla staði ef hv. þm., sem er óháði hlutinn í þingflokki óháðra og alþýðubandalagsmanna, lýsir því yfir að hann hafi ekki stutt ríkisstjórn á þessum tíma sem í sat þáv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson. Það er út af fyrir sig yfirlýsing sem hér er færð til bókar. En hvernig var kaupmáttarþróunin þá? Hún var þessi: Kaupmátturinn dróst saman árið 1988 um 2,8%, 7,8% 1989 og 4,6% 1990. Á þessum þremur árum dróst kaupmátturinn saman um 16%. Með öðrum orðum, fyrir launin eftir að búið var að greiða skatta minnkaði kaupgetan að meðaltali hér á landi, líka hjá opinberum starfsmönnum, um 16%. Nú er verið að skýra frá því að sömu stofnanir og reiknuðu þetta út á sínum tíma eru að segja okkur að kaupmáttaraukningin verði á árunum 1995--1999 21%. Það er auðvitað ekki spáð með fullri vissu en það eru líkur til að þetta geti staðist. Ég spyr, af því að hv. þm. var að tala um blekkingarleik, hvort þetta sé blekkingarleikur. Kann hann að bera þetta saman? Ætlar hann að halda því fram að þetta sé ósatt? Auðvitað getur hv. þm. barið höfðinu við steininn og gert það. En ég held að hann ætti aðeins að hugsa sig um áður en hann talar um blekkingarleik þegar verið er að tala núna um einhverja mestu kaupmáttartíma í íslensku þjóðfélagi frá 1995 fram til aldamóta ef fram heldur sem horfir. Ég segi sem betur fer.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurðist fyrir um hvort hefði verið haft samband við sveitarfélögin og haft samráð við þau. Það var gert með þeim hætti að áður en sagt var frá því í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins var haft samband við forráðamenn Sambands ísl. sveitarfélaga, ekki formanninn, hann var ekki á landinu, heldur varaformanninn sem kom reyndar í flugi frá Akureyri til að taka þátt í þeim fundi. Auðvitað samþykktu þeir þetta ekki en þeir vissu af því hvernig við mundum stilla málinu upp. Og samtökin, þ.e. Samband ísl. sveitarfélaga, hefur lýst yfir að það sé tilbúið til að ræða við ríkisvaldið um þetta og fleiri fjármálasamskipti. En það skal sagt frá því að þeir telja sig eiga nokkuð inni hjá ríkinu vegna fyrri samskipta. Reyndar tel ég að ríkið eigi heilmikið inni hjá þeim m.a. vegna húsaleigubóta, sem komið var á á sínum tíma og hv. þm. kannast kannski pínulítið við úr sinni eigin sögu, kannski pínulítið.

Það sem skiptir máli hér í dag er að við erum að afgreiða frv., frv. sem ekki allir auðvitað eru ánægðir með, en frv. sem var kynnt á úrslitastund í kjarasamningaviðræðunum, frv. sem beindist að því að koma til móts við meginmarkmiðið í kjarasamningum, að styðja við millitekjuhópinn í þjóðfélaginu, þann hóp sem er að ala upp börnin, skuldar námslánin og skuldar húsnæðislánin, og reyna að draga úr jaðaráhrifum í skattkerfinu gagnvart þessum hópi.

Kjarasamningarnir gengu þannig fram að sumir voru samþykktir, einkum þeir fyrstu, og þeir byggðust á því að ríkisstjórnin stæði við þessi orð sín. Það viljum við gera. Það þrengir að sjálfsögðu svigrúm okkar til að gera frekari breytingar á þessu frv. En ég efast nú um að þetta verði síðustu breytingar sem gerðar verði á íslenskum skattalögum.

Hér hefur í dag komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, sumra þingmanna þar, að þeir telja að ekki eigi að gera út á ríkissjóð á þenslutímum eins og nú. Ég ber virðingu fyrir slíkum sjónarmiðum. En í þeim yfirlýsingum felst að þeir hefðu sagt ef þeir hefðu verið í ríkisstjórn við forustumenn verkalýðsins: Nei, við erum ekki tilbúnir til að hnika skattalögunum til að greiða fyrir kjarasamningum. Í því hlýtur það að felast. Það eru auðvitað athyglisverðar upplýsingar fyrir þá sem starfa í forustu verkalýðsfélaganna þegar t.d. forustumenn Alþb. lýsa þessu svo blákalt yfir eins og gerðist í umræðunum í dag.