Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:41:26 (5432)

1997-04-18 14:41:26# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:41]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. leiðir til skattalækkunar, það er ótvírætt. Hins vegar á að ræða í tengslum við frv. dreifingu skattbyrðinnar hér á landi. Hún hefur þróast á þann hátt að einstaklingar bera sífellt meiri byrðar. Fyrirtækin eru að sleppa mjög vel í þeim réttmætu skattabreytingum sem hafa verið gerðar. Það er komið að því að þanþol einstaklinganna er þrotið í þessum efnum. Varðandi skattleysismörkin hef ég varpað því fram hvort ekki eigi að gera eins og gert er á Norðurlöndunum, þ.e. hafa lægra þrep og lægri skattleysismörk. Það er hægt að færa rök fyrir því að skattleysismörk hér á landi séu fátæktargildra. Ég segi: Það er ekki markmiðið að lækka skatta lágtekjuhópanna, markmiðið er að hækka laun lágtekjuhópanna, hækka kaupmátt lágtekjuhópanna. Um það snýst málið. Þessir kjarasamningar áttu að snúast um að sækja aukinn kaupmátt til millitekjuhópsins, til láglaunahópanna frá vinnuveitendum en ekki frá ríkissjóði. Það átti að vera markmiðið.

Mér þykir miður að eldri borgarar skuli ekki fá skýr svör við óskum um hvernig eigi að breyta almannatryggingakerfinu. Ég vil hins vegar benda á að einn ráðherra, félmrh., hefur sagt að hann óttist mjög svarta atvinnustarfsemi, ekki beinlínis í kjölfar þessa frv. Ég óska eftir að fjmrh. tjái sig um það vegna þess að það skiptir máli. Hann sér það í tengslum við vinnutímatilskipun. Það skiptir máli varðandi tekjur ríkissjóðs.

Fjmrh. nefndi í lokin hvort við hefðum staðið að því að greiða fyrir kjarasamningum ef við værum í ríkisstjórn. Samningar eru á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins. Ríkisvaldið á ekki að koma inn í þá nema sem samningsaðili við sína launþega. Þannig á grundvallarafstaðan að vera. Undantekningartilfelli geta verið en í hvert einasta skipti sem kjarasamningar (Forseti hringir.) eru gerðir er alltaf endað með skattafrv. frá ríkisstjórn, (Forseti hringir.) sama hvaða ríkisstjórn er. Það er ekki lengur góð aðferðafræði.