Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:45:11 (5434)

1997-04-18 14:45:11# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:45]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi áherslumun þá vil ég taka fram að ég er að varpa hér fram hugmyndum til uppstokkunar á þeirri aðferð og framsetningu sem menn hafa viðhaft mjög lengi, þ.e. að aðalleiðin til kjarabaráttu hljóti að vera sú að hækka skattleysismörk. Þetta hefur verið rauður þráður hjá verkalýðshreyfingu, ýmsum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ég er að gefnu tilefni að setja spurningarmerki við þessa aðferðafræði. Sú umræða er í gangi innan verkalýðshreyfingarinnar og innan stjórnmálaflokkanna. Ég veit ekki um niðurstöðu hennar en bendi á að þetta frv. skilur t.d. fjölmargt barnafólk eftir í verri stöðu en áður. Þetta frv. og þessi skattstefna er ekki sú fjölskylduvæna skattstefna með áherslu á barnafólk sem ég hefði óskað. Til þess hefði þurft miklu róttækari kerfisbreytingu heldur en hér er gerð. Það verður að bíða seinni tíma en, herra forseti, það verður að mínu mati örugglega að bíða annarrar ríkisstjórnar.