Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:46:23 (5435)

1997-04-18 14:46:23# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði hér fyrr í dag úr ræðustóli að hæstv. forsrh. og talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa farið með blekkingar með tölur í tengslum við þessa kjarasamninga og ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum þegar þeir hafa fullyrt að um verði að ræða 20% kaupmáttaraukningu. Þeir hafa reynt að leiðrétta sig örlítið með því að bakka í tíma og segja að ekki sé nú einvörðungu um kjarasamningana núna að ræða heldur um allt tímabilið frá 1995 fram til aldamóta. Ég færði rök fyrir þessu í máli mínu áðan. Það var rétt hjá hæstv. fjmrh. að á árinu 1989 hrundi kaupmáttur kauptaxta um 15% að minnsta kosti. Ég man ekki betur en að gengið væri á því ári lækkað um 30 prósentustig. Það var mikil verðbólga og verkalýðssamtök, atvinnurekendur og ríkisvald tóku höndum saman um að reyna að koma böndum á verðbólguna. Þetta var kallað þjóðarsátt. Þeirri þjóðarsátt var sagt upp á árinu 1991 að mínum dómi. Núna er kaupmáttur kauptaxta nýskriðinn upp fyrir það sem hann var í upphafi þessa tímabils og hafði hann þá hrunið um tugi prósentna. Núna erum við hins vegar að tala um efnahagsástand þar sem hagvöxtur á liðnu ári var 5,5%, nýjustu tölur frá Þjóðhagsstofnun eru 5,7% hagvöxtur á síðasta ári. Hann var þá 2,3% að meðaltali í OECD-ríkjunum, 1,4% í Evrópusambandinu. Við erum með miklu meiri hagvöxt hér. Það er fyrirsjáanlegur umtalsverður hagvöxtur á næsta ári og komandi árum. Það er við þessar aðstæður sem við erum að ræða á hvern hátt góðærinu verði komið til fólksins. (Forseti hringir.) Hér leyfir hæstv. fjmrh. sér að koma í pontu og segja að hann ætli að hlunnfara öryrkja og atvinnulausa, hann ætli að hlunnfara þá. Þeir eiga ekki að njóta sömu kjarabóta og láglaunafólk á Íslandi. Mér finnst þetta fyrir neðan allar hellur.