Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:48:51 (5436)

1997-04-18 14:48:51# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:48]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Ekki veit ég hvaðan hv. þm. fær þessar hugmyndir því það er búið að segja frá því hér í umræðunum að það verður staðið þannig að hækkun almannatryggingabóta að þeir munu fá þær meðaltalshækkanir sem koma --- (ÖJ: Ekki ....) --- út úr kjarasamningum og fá þær frá 1. mars. sl. (ÖJ: Það er skerðing frá því sem áður var.)

(Forseti (ÓE): Ekki grípa fram í.)

Ég hélt að hv. þm. hefði notað sinn tíma nokkuð og þurfi ekki að ganga á tíma annarra. En málflutningur hv. þm. núna þegar hann var að reyna að verjast vegna þess að hann vildi ekki kannast við stuðning sinn við ríkisstjórnina 1988--1991 og ég skil það vel, honum er vorkunn að vilja ekki styðja hana, er þannig að þegar honum var sagt og færð rök fyrir því og nefndar tölur um að nú væri kaupmátturinn frá 1995 til 1999 að aukast um 20% en hafði minnkað um 16% þá, þá segir hann: ,,Það sem núna blasir við er að hagvöxturinn hefur aukist og þess vegna þarf að skipta góðærinu``. Það eru auglýsingar frá BSRB sem hafa glumið í eyrum okkar. En hefur hv. þm. áttað sig á því hvers vegna hagvöxturinn er svona mikill. Kann það kannski að vera vegna þess að stjórnarstefnan hefur verið rétt? Kann það að vera vegna þess að stöðugleiki hefur verið fyrir hendi? Kann það að vera vegna þess að stjórn sú sem nú situr og sat þar á undan ... (JBH: Verkefni fyrri ríkisstjórnar.) verkefni fyrri ríkisstjórnar, hárrétt líka, það er alveg hárrétt hjá hv. fyrrv. utanrrh. Það er verk þessara ríkisstjórna að hafa búið þannig í haginn að hægt sé að nýta þau tækifæri sem eru nýtanleg hér á landi til að bæta lífskjörin fyrir alla landsmenn. Hv. þm. Ögmundur Jónasson verður að bíta í það súra epli að það er því góðæri sem við erum að skipta. Hann ætti nú kannski einu sinni að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna það þó að ég ætlist ekki til að hann gangi í lið með núv. ríkisstjórn.