Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 14:51:01 (5437)

1997-04-18 14:51:01# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:51]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Virðulegur forseti. Efnahagsstefna Reagan-stjórnarinnar var stundum nefnd brauðmolahagfræði, ,,reaganomics``. Hún byggði á því að það ætti að gefa hinum stóru fyrirtækjum og fjármagnseigendum svigrúm með skattalækkunum þannig að þeir gætu bakað sín stóru brauð og það mætti ætla að brauðmolar hrytu síðan til þeirra sem neðar stæðu. Þetta er sú stefna sem hér hefur verið fylgt í fjármálaráðherratíð hæstv. ráðherra Friðriks Sophussonar. Ef hann ímyndar sér að það sé vegna þess að menn hafi lagt álögur á sjúka og fatlaða, skert tekjur atvinnulausra og öryrkja, að það sé þess vegna sem búast megi við áframhaldandi hagvexti í þjóðlífinu, þá eru það slík tíðindi að vert er að gefa þeim góðan gaum. Það góðæri sem við búum við nú er ekki vegna ríkisstjórnarinnar, það er þrátt fyrir þessa ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Góðærið má rekja til þess að við öflum meira núna en nokkurn tímann í sögu þjóðarinnar. Það eru ytri aðstæður sem við getum þakkað þetta, ekki þessari ríkisstjórn. (Gripið fram í: En síðustu?)