Fjáraukalög 1996

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 15:05:08 (5445)

1997-04-18 15:05:08# 121. lþ. 106.7 fundur 529. mál: #A fjáraukalög 1996# (uppgjör) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:05]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til fjáraukalaga sem er að finna á þskj. 881 og 529. mál þingsins.

Ég tel ástæðulaust að halda langa framsögu um þetta mál. Það er í mjög hefðbundnum búningi. Allar upplýsingar sem koma fram í frv. hafa í raun komið fram áður í yfirliti sem kallað er skýrsla um ríkisfjármál fyrir árið 1996 og hefur birst á hinu háa Alþingi. Þó ber að geta þess að sú breyting er gerð á framsetningu á talnahluta þessa frv. miðað við fyrri ár að eingöngu er nú sótt um heimild til fjárveitinga umfram fjárlög og fyrri fjáraukalög ársins. Gagnstætt venju fyrri ára er niðurfelling óhafinna fjárveitinga ekki sett fram sérstaklega í frv. Litið er svo á að í lagagreinum frv. þurfi ekki að tilgreina niðurfellingu óhafinna fjárveitinga í árslok þar sem fjárveitingar fjárlaga gilda einungis til eins árs í senn. Eftir sem áður kemur fram í grg. frv. og fskj. hvernig fyrirhugað er að hækka eða lækka fjárveitingar fjárlaga 1997 í fyrri fjáraukalögum þessa árs með hliðsjón af óhöfnum fjárveitingum og umframgjöldum í lok ársins 1996.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um afkomu sl. árs. Það hefur verið gert á öðrum stað en í mjög grófum dráttum má segja að halli á ríkissjóði hafi verið 2 milljarðar þegar ekki var tekið tillit til vaxtagreiðslna vegna sérstakrar innköllunar á nokkrum flokkum spariskírteina. Sú innköllun er talin hafa sparað ríkissjóði um 2 milljarða kr. En að þeim gjöldum meðtöldum er á greiðslugrunni gert ráð fyrir að hallinn hafi verið um 12 milljarðar.

Eins og kemur fram í frv. eru óhafnar fjárveitingar ráðuneyta alls 3.730 millj. kr. í árslok 1996 en greiðslur umfram veittar heimildir eru 2.289 millj. kr. Sótt er um heimild fyrir umframgreiðslunum í frv. til síðari fjáraukalaga ársins 1996, samanber það sem kemur fram í 2. gr.

Í fskj. eru sérstaklega sýnd þau umframgjöld og þær afgangsheimildir og það skýrir sig nokkuð sjálft. Ég hef þó árlega á undanförnum árum skýrt út þá töflu sem nú er að finna á bls. 5. Ég held að ástæða sé til að gera það því sumum gengur illa að skilja hvernig uppsetningin er á breytingum framlaga árið 1997 vegna óhafinna fjárveitinga og umframgjalda árið 1996.

Fyrsti talnadálkurinn í töflunni sýnir greiðslur hvers ráðuneytis umfram heimildir á árinu 1996 og er niðurstöðutala hans, 2.289 millj. kr. þ.e. sú fjárhæð sem sótt er um í 2. gr. frv. Þar á móti koma í öðrum dálki töflunnar óhafnar fjárveitingar ráðuneyta sem alls eru 3.730 millj. kr. og mismunurinn á þessum dálkum eru 1.441 millj. kr. og lækka gjöld ríkissjóðs sem þeirri fjárhæð nemur frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og fyrri fjáraukalögum ársins 1996 samtals. Eins og undanfarin ár er fyrirhugað að hluti þessara umframgjalda og ónotaðra fjárveitinga falli niður og hafi ekki áhrif á fjárveitingar þessa árs í samræmi við vinnureglur sem gilt hafa um þessar ráðstafanir. Sú fjárhæð nemur alls um 367 millj. nettó. Næstu fjórir dálkar töflunnar á bls. 5, þ.e. þriðji til sjötti talnadálkur, talið frá vinstri að sjálfsögðu, sýna hins vegar þann hluta af umframgjöldum og ónotuðum fjárveitingum hvers ráðuneytis sem áformað er að ráðstafa til ársins 1997 með hækkun eða lækkun á fjárveitingum gildandi fjárlaga. Út úr því koma 1.074 millj. sem þá dragast frá áðurnefndum 1.441 millj. þannig að niður falla 367 millj. kr. Ég geri mér grein fyrir því að sjálfsagt hafa ekki margir hv. þm. skilið þetta nákvæmlega en við setjum auðvitað traust okkar á hv. fjárln. sem um þetta mál mun fjalla ef samþykkt verður tillaga mín um það. En ég geri tillögu um að málið verði sent til 2. umr.