Fjáraukalög 1996

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 15:37:20 (5448)

1997-04-18 15:37:20# 121. lþ. 106.7 fundur 529. mál: #A fjáraukalög 1996# (uppgjör) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara inn í orðaskipti nemanda og kennara og stærðfræðileg mál, heldur neyðist ég til þess að gera athugasemdir við það sem hæstv. fjmrh. sagði varðandi afstöðu Alþb. eða a.m.k. afstöðu mína, en hann var að vitna til umræðunnar fyrr í dag um skattamál og skattalækkanir. Það er alveg fjarri öllu lagi að halda því fram að þegar við ræddum tekjuskatt og eignarskatt fyrr í dag hafi komið fram í máli mínu andstaða við skattalækkanir almennt og algjör andstaða við skattalækkanir yfirleitt í tengslum við kjarasamninga. Það sem ég gagnrýndi voru almennar skattalækkanir, það var útfærslan á því að gera þetta með almennum hætti og alveg sérstaklega skattalækkanir á hátekjufólki og barnlausu hátekjufólki. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. man. Það er ekki sami hluturinn og að vera á móti því per se að skattbreytingar komi að einhverju leyti inn í þá mynd, t.d. að bæta kjör lágtekjufólks. Ég hef í mörg ár talað fyrir því að ráðist yrði á það misrétti og órétti sem jaðarskattaáhrifin eru gagnvart barnafjölskyldum og lágtekjufólki. Mér er að sjálfsögðu ljóst að ekki verður greitt úr því nema að létta þær álögur, það eru þá skattalækkanir eða ígildi þeirra þannig að ég styð það hér eftir sem hingað til að á því misrétti sé tekið. Þar með er það útúrsnúningur og rangtúlkun á minni afstöðu að stilla dæminu þannig upp að ég hafi hafnað því algjörlega að breytingar í skattkerfinu kæmu inn í þessa mynd til þess að bæta stöðu lágtekjufólks eða draga úr jaðaráhrifum gagnvart þeim hópum sem hafa mesta þörf fyrir slíkt.

En hitt er rétt að ég taldi það efnahagslega óskynsamlegt við þær aðstæður sem við búum við að fara í almennar skattalækkanir með þeim hætti sem nú á að gera og sérstaklega gagnvart hátekjufólki og þeim sem betur eru aflögufærir. Ég bið hæstv. fjmrh. að vera ekki að barna hér umræðuna með því að snúa út úr orðum manna. Það er ástæðulaust og henni ekki til framdráttar.