Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 15:50:10 (5453)

1997-04-18 15:50:10# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:50]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta er 530. mál þingsins og er að finna á þskj. 882.

Það frv. sem hér er lagt fram og er nú til umræðu miðar að því að setja almenna umgjörð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Því er fyrst og fremst ætlað að skilgreina inntak skyldutryggingarinnar, samninga um lífeyrissparnað, setja almenn skilyrði fyrir starfsemi lífeyrissjóða, heimildir þeirra til fjárfestingar og kveða á um eftirlit með lífeyrissjóðum.

Allt fram á þennan áratug hefur framtíð lífeyrissjóðakerfisins verið háð mikilli óvissu. Ekki eru nema 15 ár síðan flest benti til þess að markmið kerfisins og tilætlaður árangur næðist ekki; kerfið mundi sigla í strand og liðast í sundur. Fjárhagsstaða flestra lífeyrissjóða sem starfa án ábyrgðar launagreiðanda hefur hins vegar gjörbreyst á undanförnum árum og telst nú viðunandi. Í stað neikvæðrar raunávöxtunar á fyrstu árum almennu sjóðanna hafa þeir á undanförnum árum náð að ávaxta ráðstöfunarfé sitt langt umfram tryggingafræðilegar forsendur. Sjóðir hafa þar að auki verið sameinaðir og réttindi löguð að eignastöðunni. Nú er svo komið að óhætt er að fullyrða að með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins árið 1969 hafi tekist að byggja upp lífeyristryggingakerfi á Íslandi sem jafnast á við það besta í heiminum. Til að undirstrika þetta má geta þess að ýmsar þjóðir eru nú í óða önn að breyta sínum lífeyriskerfum í hátt við það sem Íslendingar búa við. Þetta kemur m.a. fram í ýmsum ritum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar sem bent er á þjóðir og nú síðast man ég eftir þjóð á borð við Chile en þar hefur verið mikill uppgangur á síðustu missirum og árum.

Samhliða bættri fjárhagsstöðu lífeyrissjóða er almenningur meðvitaðri en áður um þá hagsmuni sem eru í húfi. Frá sjónarhóli einstaklingsins er um að ræða uppsöfnun verðmæta sem vænta má að samsvari skuldlausu íbúðarhúsnæði við starfslok og upphaf töku ellilífeyris. Frá sjónarhóli heildarinnar ætti þessi sparnaður hins vegar að draga úr skattheimtu og kostnaði við almannatryggingakerfið.

Helstu atriðum frv. er lýst í greinargerð þess og ég mun hér á eftir gera frekari grein fyrir vissum atriðum eins og t.d. skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ég bendi einnig á það að í þessu frv. er fjallað um samninga um lífeyrissparnað sem kemur í stað séreignar í svokölluðum séreignarsjóðum. Um þetta er fjallað í II. kafla frv. en þar er lagt til að launamenn á aldrinum 16--70 ára geti gert sérstakan samning um lífeyrissparnað við bankastofnun, verðbréfafyrirtæki eða líftryggingafélag vegna viðbótariðgjaldanna. Ég tek það sérstaklega fram til þess að fyrirbyggja misskilning að auðvitað er hægt að stofna til slíkra fyrirtækja að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en það eru hins vegar ströng skilyrði sem löggjafinn hefur sett við stofnun og rekstur slíkra fyrirtækja. Þessi sparnaður myndar séreign og getur farið inn á bundinn reikning eða til kaupa á sparnaðartryggingu. Þetta þarf að taka fram og ég vil einnig, vegna þess að sá misskilningur virðist vera til, segja frá því að séreign og lífeyrissparnaður samkvæmt þessum samningi gegnir sömu lögmálum og annar lífeyrissparnaður, þ.e. skattheimtunni er frestað en þegar tekið er út af þessum reikningum, þá er sú upphæð sem kemur mánaðarlega, sköttuð eins og hverjar aðrar tekjur.

Í frv. er síðan fjallað um hluti sem menn eru meira og minna sammála um að þurfi og nauðsynlegt sé að lögfesta, eins og réttindi í lífeyrissjóðum, skilyrði lífeyrissjóðasrekstrar og starfsleyfi, rekstur og innra eftirlit, að eignir og skuldbindingar þurfi að standast á og loks um fjárreiður og eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða, en því miður hefur verið nokkur brotalöm á því þó að nýlega eða fyrir nokkrum árum hafi verið gerð lagabreyting til þess að auka eftirlit með starfsemi þessara mikilvægu sjóða.

Ég vil nú, virðulegi forseti, aðeins ræða um hvaða nauðsyn rekur okkur til þess að samræma og skilgreina skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Lögbundin skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til allra einstaklinga á vinnumarkaði, bæði launamanna og sjálfstætt starfandi. Innihald skyldutryggingarinnar er hins vegar hvergi skilgreint í lögum. Mikilvægur tilgangur fyrirhugaðrar löggjafar er að samræma og skilgreina þá vernd sem skyldutrygging lífeyrisréttinda á að fela í sér. Það er óviðunandi að hafa ákvæði um skyldutryggingu í lögum án lágmarksákvæða um innihald hennar.

Eins og málum er nú háttað felur skyldutryggingin í sér mjög mismunandi vernd allt eftir því hver í hlut á og hver veitir tryggingariðgjaldinu móttöku. Ef fram fer sem horfir mun þetta ósamræmi vaxa og þar með grafa undan markmiðunum með skyldutryggingunni. Hvers vegna þá skyldutryggingu? Eðlilegt er að menn spyrji að því.

Hvað lífeyrisþáttinn varðar hlýtur að mega byggja upp kerfi án lögboðinnar skyldutryggingar og gera þá kröfu að einstaklingar sýni þá fyrirhyggju að leggja til hliðar svo þeir eigi fyrir framfærslu í ellinni. Almennt mega menn vita að þeir þurfa að hætta vinnu og þar með að sjá sér farborða með öðrum hætti. Á móti þessu sjónarmiði kemur að lögboðna lífeyristryggingin felur almennt ekki aðeins í sér ellilífeyristryggingu heldur einnig örorkutryggingu og andlátstryggingu sem að vissu marki má segja að sé mannlegt að vanrækja. Það er t.d. auðvelt að skilja þann breyskleika að einstaklingur á besta aldri geri ekki sjálfur ráðstafanir vegna hættunnar á varanlegri eða alvarlegri örorku. Það má því rökstyðja það sem varnaraðgerð fyrir velferðarþjóðfélagið að hver og einn sé skyldaður til að sýna lágmarksfyrirhyggju og koma þannig í veg fyrir að skattgreiðendur séu látnir borga brúsann vegna óforsjálni annarra.

Almenn samstaða er um að skyldutrygging lífeyrisréttinda eigi fullan rétt á sér. Viðfangsefnið er þannig ekki hvort heldur hvernig skilgreina á innihald tryggingarinnar. Óhjákvæmilegt er að setja lágmarksákvæði um tryggingaverndina í lög en jafnframt mikilvægt að ganga ekki lengra í því efni en nauðsyn krefur. Í eins ríkum mæli og kostur er ber að varðveita rétt einstaklinganna til að útfæra tryggingaverndina með hliðsjón af markmiðum þeirra og þörfum. Valfrelsi einstaklinganna veitir aðhald, kemur í veg fyrir sóun og kallar á framfarir.

En hvernig er skyldutryggingin til komin? Þá staðreynd að Íslendingar búa við skyldutryggingu lífeyrisréttinda má rekja til kjarasamnings ASÍ og VSÍ árið 1969 um stofnun almennra lífeyrissjóða. Áður höfðu ríki, sveitarfélög og einstakar stofnanir eða félög starfrækt lífeyrissjóði. Í framhaldi af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins voru síðan sett lög 1974 um starfskjör launþega og fleira, sem kváðu á um að öllum launþegum væri rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Iðgjöld skyldu vera samkvæmt reglum sjóðanna. Rökin fyrir lagasetningunni voru þau að rétt þætti að samningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um kaup og kjör væru bindandi fyrir alla vinnuveitendur og alla launþega án tillits til þess hvort þeir væru aðilar að samtökum þeim sem undirrita kjarasamninga eða ekki. Til að tryggja þetta markmið var þannig tekin upp skylduaðild að tilteknum sjóðum í stað þess að skilgreina innihald tryggingarinnar og nauðsynlegt iðgjald. Skýringin er án efa sú að lífeyriskerfið var þá enn í mikilli mótun og þessi leið því talin viðráðanlegri.

Með lögum frá 1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, eru lögin frá 1974 leyst af hólmi og öllum á vinnumarkaði gert að taka þátt í tryggingunni. Í þeim er 10% lágmarksiðgjald tilgreint og öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi gert að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Innihald tryggingaverndarinnar er hins vegar ekki skilgreint og sjóðunum þannig áfram ætlað að sjá um útfærsluna. Það að öllum á vinnumarkaði var gert að greiða lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs var m.a. talið rökrétt framhald af lögum um eftirlaun aldraðra sem Alþingi hafði samþykkt í lok ársins 1979. Með þeim lögum var tilteknum aldurshópum tryggð sérstök lífeyrisréttindi vegna þess að þeir höfðu ekki átt kost á lífeyrissjóðsaðild. Tilgangur skyldutryggingarinnar var að gera öllum starfandi mönnum að bera á sama hátt kostnað af lífeyristryggingum þannig að sérstök framlög úr ríkissjóði og lög um eftirlaun til aldraðra gætu orðið óþörf í framtíðinni.

[16:00]

En hvers vegna er mikilvægt að skilgreina skyldutrygginguna? Sú tryggingavernd sem skyldutryggingin felur í sér í dag er mjög mismunandi eftir sjóðum. Hún er ýmist útfærð sem samtrygging eða bundinn séreignarsparnaður. Samtryggingin er síðan útfærð með ýmsum hætti og getur til viðbótar tryggingafræðilegum þáttum falið í sér félagsleg markmið af ýmsum toga. Þannig hafa t.d. almennu lífeyrissjóðirnir staðið að tilfærslu milli kynslóða og veitt sjóðfélögum sem komnir eru yfir miðjan aldur við stofnun flestra sjóðanna árið 1970 hlutfallslega meiri réttindi en þeim sem yngri voru og eru.

Þær kröfur sem gerðar eru til bundins séreignarsparnaðar þýða að hlutaðeigandi sjóðfélagi getur leyst út sparnaðinn á tíu árum eftir að 60 ára aldri er náð. Þessi sparnaður er þannig á mörkum þess að geta talist lögboðin ellilífeyristrygging auk þess sem engin krafa er gerð um örorku- eða andlátstryggingu. Síðastnefndu tryggingarnar og greiðsla tiltekins ellilífeyris til æviloka kalla á samtryggingu sem óhjákvæmilega samrýmist ekki einstaklingsbundinni inneign.

Lágmarkskröfur um iðgjald og innihaldsskyldu tryggingarinnar eru óhjákvæmileg forsenda aukins valfrelsis í lífeyrismálum. Þetta er mjög mikilvægt. Almennar reglur um rétt aðila til að stofna og eiga aðild að lífeyrissjóðum eru einungis mögulegar ef til staðar eru lágmarksákvæði um innihald tryggingaverndarinnar. Lágmarkskröfur eru með öðrum orðum forsenda þess að aðildarskylda að tilteknum lífeyrissjóðum sé afnumin. Yfir fimmtung ríkisútgjalda mátti á sl. ári rekja til kostnaðar við almannatryggingakerfið. Miðað við fast verð hefur þessi kostnaður hækkað um tæpan þriðjung sl. tíu ár þrátt fyrir margvíslegar aðhaldsaðgerðir. Stærstan hluta kostnaðarins má rekja til öryrkja og aldraðra.

Fram til ársins 2030 er áætlað að hlutfall fólks á lífeyrisaldri hækki úr 16% af fólki á vinnufærum aldri í rúm 30%. Þetta þýðir að fjöldi þeirra sem eru á aldrinum 20--67 ára að baki hverjum einum lífeyrisþega fækkar á næstu 33 árum úr 6--7 einstaklingum í aðeins 3 árið 2030. Ef litið er til annarra ríkja innan OECD, þá er það sammerkt með þeim að þau er nær öll að endurskoða útgjöld sín til heilbrigðis- og velferðarmála. Þó að staðan hér sé að ýmsu leyti viðunandi er óhjákvæmilegt að bregðast við framangreindri þróun. Það verður ekki gert nema með því að þjóðin sníði sér stakk eftir vexti og leiti allra ráða til að hagræða og auka verðmætasköpunina.

Umfang velferðarkerfisins ásamt eðlilegri kröfu um ráðdeild í opinberum rekstri og forgangsröðun þess fjár sem innheimt er með sköttum eru allt þættir sem undirstrika mikilvægi þess að lífeyrissjóðir og frjálsir samningar um lífeyrissparnað leysi almannatryggingakerfið af hólmi í eins ríkum mæli og nokkur kostur er.

En hvernig má skilgreina nauðsynlega tryggingavernd? Mjög ólíkar hugmyndir hafa verið uppi um það hvernig skilgreina beri þá lágmarksvernd sem skyldutrygging lífeyrisréttinda þarf að fela í sér. Almenn samstaða hefur þó náðst um svokallað sjóðsöfnunarkerfi, þ.e. að réttindi skuli ávinnast á grundvelli iðgjalda. Einnig má minnast á að nýsamþykkt lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna voru stór áfangi á þessari braut því þar var haldið inn á braut uppsöfnunarkerfisins. Allir starfandi lífeyrissjóðir leggja mest upp úr greiðslu ellilífeyris og þótt sjóðfélögum séreignarsjóða sé ekki gert að verja ákveðnum hluta iðgjalda til örorku- og andlátstryggingar bjóða flestir sjóðirnir upp á slíkar tryggingar.

Erfitt er að ákvarða nauðsynlegt iðgjald vegna fjölmargra óvissuþátta. Raunávöxtun iðgjaldanna hefur mjög mikið að segja eins og t.d. má sjá á því að hefðbundin lífeyrisréttindi sem tækju mið af 2,5% raunávöxtun mætti tvöfalda ef gert væri ráð fyrir 5,5% raunávöxtun til langs tíma. Þetta er þýðing ávöxtunar á eignum sem standa á móti skuldbindingum í lífeyrissjóðunum. Ýmsir sem fjalla um þessi mál telja eftirsóknarvert að iðgjald dugi til að tryggja mánaðarlegan ellilífeyri sem samsvari 60--70% af meðalmánaðarlaunum yfir starfsævina. Jafnframt að 20--30% iðgjald fari til örorku- og andlátstryggingar. Miðað við 10% iðgjald af öllum launum, 3,5% raunávöxtun, hefðbundnar tryggingafræðilegar forsendur og dæmigerðan launamun má segja að almennu lífeyrissjóðirnir fari nálægt því að veita framangreinda tryggingavernd.

Þá vík ég að því hvernig lágmarkstryggingin er skilgreind í frv. Frv. gerir ráð fyrir að sjóðfélagar ávinni sér lífeyrisréttindi með iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóða og í að samþykktum sjóðanna sé kveðið á um ávinnslu réttinda, þ.e. hvernig sambandinu milli iðgjalda og réttinda skuli háttað. Samkvæmt frv. skal lágmarksiðgjald vera a.m.k. 10% af launum og fara til greiðslu lífeyris vegna elli, örorku eða andláts. Í samþykktum lífeyrissjóðs er síðan heimilt að kveða á um það hvernig iðgjald skiptist milli einstakra tegunda lífeyris, en við það skal þó miða að ekki minna en 50% iðgjalds fari til greiðslu ellilífeyris og ekki minna en 20% til greiðslu örorku-, maka- og barnalífeyris.

Skilgreining frv. á tryggingavernd lágmarksiðgjalds er mjög almenn. Séreignarlífeyrissjóðir hafa fram til þessa tekið við iðgjöldum til séreignar. Iðgjaldið hefur farið inn á bundinn reikning og sjóðurinn tekið að sér að varðveita það og ávaxta. Sumir sjóðanna hafa jafnframt gefið sjóðfélögum kost á að verja hluta iðgjaldanna til kaupa á tryggingum, t.d. örorku- og andlátstryggingum. Ég tek það sérstaklega fram að það er líka misskilningur sem hefur komið upp að auðvitað er það svo í sumum séreignarsjóðunum að þeir kaupa sér tryggingar, t.d. hjá vátryggingarfélögum eða þeir tryggja sjálfir með einhverjum hætti þannig að séreignarsjóðirnir eru ekki allir séreignarsjóðir í þrengstum skilningi þess orðs eða í þeim skilningi sem nú er lagður í lífeyrissparnað samkvæmt samningi.

Virðulegi forseti. Eins og öllum er kunnugt var upphaflega gert ráð fyrir því við undirbúning þessa máls að einstaklingar í lífeyrissjóðum ættu þess kost að uppfylla samtryggingarskyldu sína með ákveðinni fjárhæð, 10 þús. kr. á mánuði, enda greiddu þeir það sem á 10% lágmarksiðgjald vantaði í lífeyrissparnað og hann væri séreign viðkomandi einstaklings. Í viðtölum kom fram að fulltrúar ASÍ og VSÍ lögðu á það áherslu að þeir hefðu fullt forræði á lífeyrisiðgjöldum sem byggðust á kjarasamningum burt séð frá fjárhæðum. Forsrh. gaf af því tilefni út yfirlýsingu um að forræði hinna almennu lífeyrissjóða á 10% sameiginlegu framlagi vinnuveitenda og launþega yrði tryggt í þeirri löggjöf sem var í undirbúningi. Ríkisstjórnin íhugaði þó að hafa í frv. heimild fyrir stjórnir lífeyrissjóða til að setja í samþykktir sínar ákvæði sem gæfu sjóðfélögum kost á áðurgreindri skiptingu lífeyrisiðgjalda milli samtryggingar og séreignar. Með því væri forræði hinna almennu lífeyrissjóða að sjálfsögðu tryggt því að ákvörðun um að nota heimildina væri alfarið á þeirra valdi. Á lokastigi undirbúnings frv. ákvað ríkisstjórnin hins vegar að taka þetta heimildarákvæði út en freista þess fremur á síðari stigum málsins að leita leiða til málamiðlunar milli mismunandi sjónarmiða. Þetta tek ég hér sérstaklega fram.

Ég hirði ekki um að fara út í það á þessu stigi málsins hvernig ýmslegt varð til þess að tefja málið. Við þurftum að leggja inn frv. rétt fyrir 1. apríl. Kjarasamningar stóðu sem hæst og á sama augnabliki aflaði Landsbankinn sér kaupréttar á hluta af tryggingafélagi sem varð til þess að sjálfsögðu að ýmsir fóru að geta í málin og komust því miður ekki allir að réttri niðurstöðu.

Eins og margoft hefur komið fram er það grundvallaratriði í frv. að greitt sé lágmarksiðgjald til samtryggingar fyrir alla sem eru á vinnumarkaði. Þeir sem nú greiða eingöngu til séreignarsjóða verða því jafnframt að gerast aðilar að nýjum eða þegar starfandi samtryggingarsjóði. Skylda allra til að taka þátt í samtryggingu að ákveðnu marki er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að tengja saman lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingakerfið á réttlátan og skilvirkan hátt. Ekki verður á móti því mælt að það er mikil umbreyting og langt gengið að þeim sem hingað til hafa getað fullnægt lagaskyldu sinni um aðild að séreignarsjóði eingöngu verður nú gert að greiða 10% í samtryggingarsjóð algerlega án tillits til fjárhæðar.

Þessi sjónarmið sem hér hafa verið rædd þarf þingnefndin að skoða í því skyni að finna ásættanlega og viðunandi lausn. Ég tel nauðsynlegt að athugað sé hvernig hægt er að samræma aukna möguleika sjóðfélaga til að velja sér lífeyrissparnaðarform án þess að ganga á forræði almennu lífeyrissjóðanna sem starfa á grundvelli kjarasamninga eða sérlaga. Náist ekki samkomulag um það þarf að kanna hvort lífeyrissparendur utan kjarasamningakerfisins eigi að njóta rýmri sjálfsákvörðunarréttar en hinir eins og þeir hafa reyndar gert hingað til.

Til að forðast allan misskilning mun ríkisstjórnin að sjálfsögðu standa við yfirlýsingu forsrh. sem hann gaf í nafni ríkisstjórnarinnar um forræði hinna almennu lífeyrissjóða á 10% framlagi launþega og atvinnurekenda til sjóða sem þeir hafa samið um.

Virðulegi forseti. Hvers vegna þarf að setja lög? Í því sambandi er rétt að segja frá því að gera verður skýran greinarmun á skyldutryggingu lífeyrisréttinda og skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóði og nú er ég að fjalla um aðildarmálin fyrst og fremst. Almenn samstaða er um skyldutrygginguna og að eðlilegt sé að tiltekið iðgjald sé greitt til lífeyristrygginga. Upphæð iðgjaldsins og hvert það á að renna eru hins vegar mjög umdeild atriði og þar með að hve miklu leyti hver og einn á að geta valið á milli lífeyrissjóða. Þó að skylduaðild og skyldutrygging séu tvö aðskilin mál er mikilvægt að hafa í huga að í fyrstu almennu lögunum um lífeyrissjóði frá árinu 1974 var enginn greinarmunur gerður á þessu tvennu. Þau lög kváðu á um skylduaðild launþega að tilteknum lífeyrissjóðum en sögðu ekkert annað um skyldutrygginguna en að iðgjöld ættu að vera í samræmi við þær reglur sem sjóðirnir settu. Í núgildandi lögum frá 1980 er hins vegar gerður greinarmunur á þessu tvennu, en þó ekki afgerandi. Ein ástæðan er sú að hvergi í lögum er að finna skilgreiningu á þeirri tryggingavernd sem sjóðunum er ætlað að bjóða upp á. Samkvæmt lögum frá 1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda er mönnum gert að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Í flestum tilvikum er aðildin hins vegar í raun ákveðin í sérlögum, kjarasamningum stéttarfélaga og atvinnurekenda og í ráðningarsamningum. Í nokkrum tilvikum reynir hins vegar á hið almenna lagaákvæði þegar einstaklingar tilheyra tiltekinni starfsstétt en eru utan stéttarfélaga og starfa sjálfstætt eða hjá atvinnurekendum sem ekki eiga aðild hjá kjarasamningum né gera kröfu um greiðslu í tiltekinn lífeyrissjóð. Þannig eru mörg dæmi um að mönnum sé gert að eiga aðild að sjóðum gegn vilja þeirra og án þess að hafa nokkra möguleika til áhrifa á stjórn þeirra sjóða sem um er að ræða. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand.

Núgildandi aðildarákvæði má rekja til laga frá 1974 um starfskjör launþega. Með þeim var öllum launþegum gert að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Skylduaðildin á þessum tíma náði hins vegar ekki til annarra aðila, svo sem þeirra sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Tilgangur laganna var að tryggja að samningar aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör væru bindandi fyrir alla vinnuveitendur og launþega án tillits til þess hvort þeir væru aðilar að samtökum þeim sem undirrita kjarasamninga eða ekki.

Þær ástæður sem tilgreindar voru árið 1974 fyrir aðildarskyldu að tilteknum lífeyrissjóðum verða í raun úreltar með lögunum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda árið 1980. Þá er skyldutryggingin gerð almenn og látin ná til allra einstaklinga á vinnumarkaði um leið og gerð er krafa um 10% lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða. Þrátt fyrir það er kröfunni um aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar og starfshóps haldið óbreyttri hversu óeðlilegt sem það nú kann að virðast. Sú röksemd hefur verið færð fyrir skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóði að hætta sé á að markmið skyldutryggingarinnar náist ekki og að hagsmunir annarra rétthafa í sjóðunum verði fyrir borð bornir megi menn ganga úr þeim og í að vild. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að ákveðin sátt milli kynslóða var talin nauðsynleg þegar skyldutryggingin var innleidd. Þannig samþykktu almennu sjóðirnir og löggjafarvaldið með sérstökum lögum um eftirlaun til aldraðra ákveðna tilfærslu til þeirra sem höfðu ekki kost á lífeyrissjóðsaðild nema lítinn hluta starfsævinnar. Þeim sem njóta þessarar tilfærslu fækkar nú ört og sá kostnaður sem henni fylgir fyrir ríkið og almennu sjóðina er ekki lengur röksemd gegn auknu valfrelsi milli lífeyrissjóða. Það kallar hins vegar á breytingar hjá sjóðunum hvað varðar ávinnslu réttinda sem sumir þeirra hafa byrjað á og aðrir ráðgera.

Á það hefur verið bent að aðildarskyldan hafi nú komið í veg fyrir þann glundroða sem valfrelsi mundi leiða í ljósi þess að innihald tryggingaverndarinnar er hvergi útlistað í lögum. Starfsgreinasjóðir eru hins vegar engin trygging fyrir lágmarkssamtryggingu, en það er almennur misskilningur að eingöngu svokallaðir frjálsir sjóðir starfi á séreignargrundvelli. Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands, Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands og Lífeyrissjóður íslenskra hljómlistarmanna eru t.d. allt séreignarlífeyrissjóðir. Aukin ásókn er einnig í séreignarsparnað á kostnað samtryggingar og liggur t.d. fyrir umsókn í fjmrn. frá Lífeyrissjóði Arkitektafélags Íslands um breytingar í þá átt að sjóðfélagar fái alfarið að velja, alveg frá botni, frá núll, um það hvort þeir séu með samtryggingu eða séreign.

Niðurstaðan var sú í stuttu máli, virðulegi forseti, í þessu frv. að hverfa frá lagaákvæðinu eins og það var sem skyldaði fólk í starfsgrein að vera í lífeyrissjóði ef það var utan kjarasamningsins. Með þessu frv. er brotið blað vegna þess að í því eru þeir einir skyldir að vera í tilteknum lífeyrissjóði sem eru aðilar að þeim stéttarfélögum annars vegar og vinnuveitendafélögum hins vegar sem gera kjarasamninginn. En þeir sem eru á starfssviðinu í starfsgreininni en eru utan kjarasamningsins geta valið um lífeyrissjóðsaðild. Það er nýtt og sýnir að í þessu frv. er tekið skref í þá átt að auka valfrelsi fólks í landinu, enda stendur þannig á að minni hluti Hæstaréttar hefur sagt sitt álit á þessu og það er mál fyrir Evrópudómstól um það hvort löglegt sé að fara að eins og gert er í núgildandi íslenskum lögum.

Virðulegi forseti. Umræður um þetta mikilvæga mál hafa verið mjög miklar að undanförnu og það er eðlilegt. Það er nauðsynlegt að umræða sé um það. Þetta snertir alla landsmenn, hvern og einn sem vill sýna þá fyrirhyggju og ráðdeild að leggja til hliðar fjármuni sem hann getur síðan eytt þegar að ævikvöldinu kemur. Mér finnst verulega miklu máli skipta þegar við ræðum þetta að vekja athygli á því hvernig stöðugleikinn sem hér hefur ríkt allt frá árinu 1990/1991 ----í friði á milli ríkisvalds og aðila á vinnumarkaðar --- hefur gjörbreytt þeirri mynd sem blasir við, hvernig við eigum miklu auðveldara með það nú en nokkurn tíma áður að horfa langt fram í tímann, sjá fyrir okkur hvernig hlutirnir geta gerst þegar stöðugleiki er fyrir hendi eftir 20, 30 eða 40 ár. Þetta frv. er hluti af þessari framtíðarhugsun. Hvernig ætlum við að komast af í þessu landi á sem bestan hátt eftir 20, 30, 40 ár? Niðurstaðan er sú að við eigum að gera það með því að beita fyrst og fremst þremur mikilvægum atriðum, þremur stefnuatriðum:

Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að halli sé á ríkissjóði þannig að framtíðarkynslóðirnar sem eru vinnandi og sífellt eru færri vinnandi á bak við hvern fullorðinn í þessu landi, þurfi ekki að bera miklu meiri skattbyrði en við berum í dag. Besta ráðið til þess er að reka ríkissjóð án halla og greiða niður skuldir. Við erum byrjaðir á því.

Í öðru lagi er bráðnauðsynlegt er að tengja saman annars vegar almannatryggingakerfið, bótakerfi almannatrygginga og lífeyrissjóðakerfið. Þetta er bráðnauðsynlegt og til að það geti gerst á réttlátan hátt þurfa allir að taka þátt að einhverju ákveðnu marki í samtryggingunni. Við þurfum síðan að finna hér í starfi hv. Alþingis hvar þau mörk eiga að liggja og hvort sömu reglur eiga að gilda um alla. Það er okkar verkefni hér í dag. En markmiðin eru þau sömu því að ef við gerum þetta ekki, þá getum við ekki varið það velferðarkerfi sem við viljum búa við.

Í þriðja lagi, og það skiptir afar miklu máli, þurfum við að hafa lagareglur sem eru settar þannig fram að þær gefi fólki möguleika á því að leggja meira til hliðar á starfsævinni en gert er í dag. Þetta frv. er grundvöllur þess.

Hér eru lagðar fram skilgreiningar um það hvað sé skyldutrygging og hvað séu lágmarksiðgjöld, en jafnframt gefinn kostur á leiðum til þess að auka sparnaðinn, fresta skattheimtunni þannig að fólk geti lagt til hliðar skattlaust fé, tekið það út síðar á ævinni þegar það þarf á þessum fjármunum að halda og þá að greiða af þeim skatta eins og hver annar þjóðfélagsþegn. Í raun má segja að með þessari skattalegu meðferð sem er grundvallarþáttur í lífeyrissjóðakerfinu hafi stjórnvöld, Alþingi, markað þá mikilvægu stefnu að fjárfesta til framtíðarinnar og jafna bilið á milli kynslóðanna. Þetta er ekki lítið mál sem við erum að fjalla hér um í dag og það er ekki skrýtið að menn hafi stríðar meiningar um það hvernig eigi að bera sig að í þessu máli. En umfram allt, og það er það sem skiptir mestu máli, hlýtur það að gerast í þeirri nefnd sem fær þetta mál að menn leiti að þeim meðalvegi sem sem flestir geti sætt sig við en reyni að komast hjá því að hér standi gráar fyrir járnum tvær fylkingar í voru landi.

Að svo mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.