Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 16:41:32 (5455)

1997-04-18 16:41:32# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[16:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson talaði um trölladans kapítalsins. Mig langar til að spyrja hann: Hvaða kapítal er þetta? Eigið fé Iðnlánasjóðs og þeirra sjóða sem á að sameina er um 8--10 milljarðar, eigið fé Landsbankans 6 milljarðar, eigið fé Búnaðarbankans 4 milljarðar og Íslandsbanka 5 milljarðar. Þetta eru samtals svona 20 milljarðar. (Gripið fram í: En eigið fé Péturs Blöndals?) Eigið fé Lífeyrissjóðs verslunarmanna er 25 milljarðar. Látum okkur nú sjá, hv. þm. Trölladans. Hver eru tröllin í þessum dansi? Það skyldu þó ekki vera lífeyrissjóðirnir? Það skyldi þó ekki vera verkalýðshreyfingin sem ræður þeim? Það skyldi þó ekki vera að það séu allt önnur tröll en hann er að tala um. Ég hef nefnilega grun um það að hv. smokkfiskur og hv. kolkrabbi séu smáseiði í dag. (Gripið fram í.) Það sagði ég ekki, hv. þm.

Hv. þm. sagði að ríkisstjórnin hefði tekið U-beygju og það þótti honum mjög alvarlegt mál vegna þess að hún tók U-beygju að tilhlutan aðila úti í bæ, ASÍ og Vinnuveitendasambandsins. Það eru aðilar sem eru búnir að taka sér löggjafarvald og þingmaðurinn ætlar að sætta sig við það.