Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:12:12 (5464)

1997-04-18 17:12:12# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:12]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég verði að taka upp þráðinn því ég er ekki sammála mínum ágæta flokksbróður um það sem hann sagði eða gaf í skyn. Ég held að það sem við þurfum að hafa í huga í þessu máli þegar við erum að leitast við að ná niðurstöðu í málinu sé þetta: Við erum að virða kjarasamninga á milli tveggja aðila og í þessum kjarasamningi er gert ráð fyrir að aðilarnir sem eru misstórir og mismargir hafi helmingaskipti í völdum í sjóðunum. Það eru ekki kosnir menn á aðalfundi sjóðfélaga o.s.frv. þannig að reglurnar um þessa sjóði eru mjög sérstakar. Það væri óeðlilegt af því að séreignin er ekki félagslegs eðlis að slíkur hópur ætti rétt á því að ávaxta fé sem er miklu nær því að vera bankastarfsemi, vátryggingastarfsemi eða verðbréfastarfsemi, og það er þess vegna af því að við virðum kjarasamninginn og förum ekkert í það í þessum lögum að skylda menn til þess að halda aðalfundi, kjósa stjórnir o.s.frv. heldur virðum kjarasamninginn að við verðum þá líka að takmarka umsvifin, því að þau eru nú þegar þannig að eignin sem er á móti skuldbindingunum er 300 milljarðar. Við erum þegar búin að metta innanlandsmarkaðinn vegna þess að ríkið er búið að draga niður lánsfjárþörfina. Húsnæðiskostur landsmanna er nánast fullveðsettur hvað þetta snertir og nú á síðasta ári keyptu lífeyrissjóðirnir fyrir 5 milljarða á erlendum vettvangi. Þeir munu í framtíðinni rækja sitt hlutverk að leggja inn í atvinnulífið stórkostlega meira en í dag og ég held að það þurfi að taka tillit til þess að uppbygging þessara félagslegu fyrirbæra svarar ekki til þess að þeir geti tekið að sér almenna bankastarfsemi og orðið miklu miklu stærri en sem nemur félagslegu hlutverki þeirra.