Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:16:33 (5466)

1997-04-18 17:16:33# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:16]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Ég held, virðulegi forseti, að menn þurfi að skoða sérstöðu lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir eru á kjarasamningssviðinu og hafa náttúrlega algera sérstöðu gagnvart því fólki sem þeir eru byggðir fyrir. Það liggur í augum uppi að slíkir lífeyrissjóðir hefðu hægan aðgang að því fólki til að bæta við sparnaði.

Þá kemur til skjalanna annað atriði sem mönnum má ekki yfirsjást. Það er að miklu strangari reglur um bankastarfsemi og verðbréfastarfsemi gilda heldur en um starfsemi lífeyrissjóðanna vegna þess að ábyrgðin á lífeyrissjóðunum er slík að réttindin eru bara tekin niður ef eitthvað skortir á að eignirnar standi ekki undir skuldbindingum.

Í bankastarfsemi og starfsemi verðbréfafyrirtækja er allt öðruvísi fyrirkomulag. Þar eru ábyrgðarsjóðir á bak við inneignir og þess vegna er ábyrgðin miklu ríkari og meiri. Þetta þarf að skoða og þess vegna er gert ráð fyrir því í frv. að setja starfseminni bás, ekki bara þeirri starfsemi sem er á vegum almenna vinnumarkaðarins heldur líka hjá þeim sem eru utan við þetta svið þannig að munur verði gerður á því sem við köllum samtryggingarsjóð --- sem nú heitir lífeyrissjóður í þessu frv., það er það sama --- og síðan séreignarsparnaði, lífeyrissparnaði samkvæmt samningum við þá aðila sem geta rekið fyrirtæki og tekið við slíku. Þetta er meginástæðan fyrir utan það að ég held að ekki sé hyggilegt hjá þessari þjóð að setja eggin öll í sömu körfuna og blanda of mikið saman annars vegar félagslegum þáttum sem eru í samtryggingunni og hins vegar hreinum persónulegum eignum sem eru í séreigninni.