Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:44:07 (5473)

1997-04-18 17:44:07# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:44]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að gera aðra tilraun til þess að fá hv. þm. til þess að skýra hugsun sína um leið og ég tek undir með honum að bændur eiga vissulega eitt valfrelsi, þ.e. frelsið til þess að segja sig úr lögum við kerfið sem sviptir þá frelsinu, þ.e. að hætta búskap eða una að öðru leyti þeirri fullkomnu frelsisskerðingu sem yfir þá hefur verið leidd.

Telur hv. þm. að ef maður kýs í nafni valfrelsis að vera í sjóði sem víkur sér alveg frá öllu því sem heitir áfallatryggingar, þ.e. fjölskyldutryggingar, makatryggingar o.s.frv. og tryggir heldur ekki ellilífeyri til loka ævinnar, að sá hinn frjálsi maður sem þetta velur eigi að hafa sama rétt til skattfrelsis í iðgjöldum og til skattmeðferðar í kerfinu eins og hinn sem tekur á sig allar skuldbindingarnar? Telur hv. þm. að þetta sé sambærilegt? Vegna þess að ef það er svo að sá sem ekki tekur á sig skuldbindingarnar en nýtur bara réttarins, er hann þá í raun og veru ekki að fara fram á ákveðin forréttindi?