Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:51:13 (5477)

1997-04-18 17:51:13# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:51]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði á alla ræðu hv. þm. og vil aftur ítreka það að samkvæmt mínum upplýsingum munu allir SAL-sjóðirnar eiga fyrir sínum skuldbindingum, ekki flestir heldur allir og það er þessi ánægjulega þróun sem hefur verið.

Það sem ég er að vara við og ég vona og skynja að hv. þm. er því raunverulega sammála í sambandi við orðið valfrelsi, því að ég er valfrelsismaður. Ég vil að einstaklingur fái að velja, það er lífsskoðun. Það er lífsskoðun okkar allra að það taki enginn val af einstaklingum. En með þessu orði, valfrelsi, er verið að rökstyðja að kerfi fjármagnsins eigi að ráða hvað viðvíkur eftirlaunum og örorkubótum landsmanna. Og menn verða að gæta sín mjög á þessu hugtaki vegna þess að orðið valfrelsi er mjög fallegt orð. Það hefur hins vegar ekkert með valfrelsi að gera ef öllum einstaklingum verður heimilt að velja sér sinn lífeyrissjóð. Þetta er nákvæmlega það sama og ef ég sem skattgreiðandi gæti valið í hvað skattarnir mínir færu og gæti valið að engir af mínum skattpeningum færu í að leggja vegi á Suðurlandi sem dæmi. Þetta er álíka fráleitt. En þetta er það sem málið snýst um. Ætlum við að standa saman að tilteknum hlutum hér í þjóðfélaginu eða ætlum við ekki að gera það? Við höfum náð saman um að standa saman að því að sköttum sé ráðstafað í þágu okkar allra. Við erum ekki alltaf ánægð með það og við tökumst á um það pólitískt. Við höfum náð saman um það að byggja upp lífeyriskerfi sem við erum öfundaðir af víða um heim. Og við eigum að fara varlega í það að rústa því, að setja það í hættu og nota til þess hugtök sem eru falleg því að það er þannig sem menn eyðileggja góð kerfi. Menn kunna að bera kápurnar á báðum öxlum. Menn kunna að reka áróður fyrir hagsmunum sínum og það er það sem er að gerast hér. Hér eru þeir sem ætla sér að verða tröll en eru litlir í dag. Það má vel vera, en þeir ætla sér að ná hlut í 300 milljörðunum. Um það snýst málið og ekkert annað.