Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:56:53 (5480)

1997-04-18 17:56:53# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:56]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér er ekki um að ræða að fyrirspurnirnar stangist á við mál sem hér er verið að ræða. Um það snýst málið ekki. Svo ég rifji upp fyrra málið, þá var það í sambandi við frv. um bankamál og fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðmundi Árna Stefánssyni. Þá var það skoðun forseta, sem ég var að vísu ekki sammála, að efni fyrirspurnanna væri þess eðlis að það væri það nátengt þingmálinu að ekki bæri að leyfa þær. Eftir þessum upplýsingum ætti að kalla í þingnefnd. Það varð niðurstaða forseta og það mál endaði með samkomulagi.

Hér er komið með fyrirspurnir sem tengjast þessu þingmáli. Hér er nákvæmlega sambærilegur hlutur á ferðinni. Hins vegar virði ég vitaskuld forseta það að hann hafi kannski ekki við skjótan yfirlestur áttað sig á samhengi þessa máls. Nú þekki ég ekki þingsköp nógu vel en ég vildi hins vegar biðja forseta um að endurmeta þetta mál þannig að þessar fyrirspurnir fái þá sömu meðferð og sú fyrri. Ég mundi fyrir mitt leyti vilja stuðla að því að allar þær spurningar komi til svars í efh.- og viðskn. sem ég sit í og gætu þannig orðið grundvöllur fyrir faglega umfjöllun. Mál mitt snýst ekki á nokkurn hátt um það að hindra að svarað sé hinum ágætu spurningum frá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hér er fyrst og fremst um formið að ræða og ég fer þess á leit við hæstv. forseta að hann endurmeti þetta mál og skoði það nánar, og ef hann hefur til þess vald, að setja þá þessar fyrirspurnir í eins farveg og ákveðið var með hina fyrirspurnina. Ég mundi vilja leggja mitt lið við því að þetta mál leystist á friðsamlegan hátt, en mér finnst að ekki sé hægt að gera hér upp á milli einstakra þingmanna eða mála. Ef forseti hefur hins vegar ekki séð samhengið við skjótan yfirlestur, þá á hann vitaskuld þann rétt, og ég fagna því ef forseti gæti gefið sér þann tíma að setja sig þá vel inn í málið og kynna okkur þá síðan niðurstöðu sína.