Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:23:36 (5484)

1997-04-18 18:23:36# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:23]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni, ef menn koma á skylduaðild þá verður hún að sjálfsögðu að ná til allra. En hvernig ætla menn að fylgjast með þessu, spurði ég. Og ég er ekki alveg sannfærð um að skattkerfið dugi. Ef það dugar ekki í dag, hvað er það sem tryggir að það muni duga seinna meir? Menn vita --- ég hef fyrir mér í því fullyrðingar Alþýðusambandsins og hæstv. fjmrh. verður þá að hrekja þær --- að eins og kerfið er í dag, þá er ákveðinn hópur fyrir utan kerfið sem kemst undan tryggingarskyldu og enginn hefur möguleika á að fylgjast með greiðslu þeirra, segir í bréfi frá Alþýðusambandinu. Þess vegna er ég með þessar vangaveltur.

En varðandi 15. gr. --- nú hljóp hæstv. fjmrh. út --- þá veit ég að á ýmsum stöðum þar sem tryggingar af þessu tagi koma við sögu er talað um að hafi maður sjálfur átt sök á einhverjum skaða vegna gáleysis í hegðun eða slíku, þá skerðast bætur. En á það við í þessum tilvikum? Á það við um þá sem eru fórnarlömb áfengis, lyfja eða fíkniefna? Ég set stórt spurningarmerki við það. Mér finnst þetta vera svona nokkurs konar gamaldags skilningur og mér finnst ekki vera mikil félagshyggja eða mannúð í þessu. Mér finnst að við eigum sameiginlega að hjálpa þeim sem eiga við vandamál að stríða og ekki sé réttlætanlegt að skerða bætur hjá fólki vegna þess að það hefur orðið áfengi eða fíkniefnum að bráð.