Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:25:49 (5485)

1997-04-18 18:25:49# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:25]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu benda á að á þskj. 466 er svar við fyrirspurn Tómasar Inga Olrich um greiðslur í lífeyrissjóði og almannatryggingar. Fyrsta spurningin er um það hvort fylgst sé með þessu og önnur er um hvort misbrestur sé á því að lagaskylda sé virt. Ég get því miður ekki tímans vegna lesið svarið en þar koma fram ágiskanir í dag um það hve margir standa utan við kerfið. Það eru bæði upplýsingar frá skattinum en einkum þó frá bankaeftirlitinu sem fylgist með lífeyrissjóðum.

Það sem við erum að gera með þessari löggjöf er að festa miklu betur niður grunninn og rammann utan um þetta kerfi og ætlunin er síðan að styrkja skattframtölin þannig að auðveldara verði að fylgjast með, því að okkur er ljóst nú hve mikilvægt það er í framtíðinni að tengja saman þessi tvö kerfi, almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðakerfið. Svarið við spurningunni er auðvitað það að við ætlum að beita nýrri og nákvæmari aðferð við að kalla þetta fram, t.d. á launamiðum, með öðrum hætti en gert hefur verið hingað til.

Ég hefði áðan átt að segja skýrar frá því af hverju við stefnum að því að hafa sjóðina stærri. Það er vegna þess að rekstrarkostnaðurinn er þá minni, það hefur sýnt sig og minni líkur eru til þess að þröng sjónarmið, kannski staðbundin, leiði til þess að sterkir einstaklingar eða sterk fyrirtæki á staðnum fái sjóðstjórnina til að leggja óhóflega mikla fjármuni til áhættusams rekstrar sem gæti þýtt að réttindum sjóðfélaga yrði stefnt í hættu.