Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:41:50 (5487)

1997-04-18 18:41:50# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:41]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það var um margt athyglisvert að hlusta á þá ræðu sem hv. þm. flutti hér, einkum og sér í lagi það þegar hann segir að ávöxtun sé of lítil, en í útreikningi lífeyrissjóðanna er notuð varúðarregla ávöxtunar, 3,5% þegar þeir eru framreiknaðir en allflestir lífeyrissjóðir eru þó með 8--9% ársávöxtun.

Hann talaði líka um að rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna væri allt of hár. Það er athyglisvert hins vegar að skoða hvað ýmis opinber fyrirtæki hafa verið að deila út miklu fjármagni eins og Stofnlánadeild landbúnaðarins hvar síðasti ræðumaður á jú sæti, en þar er framkvæmdastjóri og 15 stjórnarmenn og kostnaður þar er upp á 18 milljónir. Stofnlánadeildin er að sýsla með um 178 millj. á sama tíma og Lífeyrissjóður sjómanna, sem veltir margfalt meira fé, t.d. keypti bréf upp á 6,7 milljarða, og til stjórnar hans eru greiddar 6,3 millj.

Aðeins um samtryggingu. Þar talar hv. þm. um að það sé rétt að hún eigi að vera í föstum krónutölum en ekki í prósentum. Örlítið um það til þess að skýra þetta fyrir hv. síðasta ræðumanni. Örorkulífeyrir í Lífeyrissjóði sjómanna var á síðasta ári 295 millj. en ellilífeyririnn var 244 millj. Samtryggingin í reynd kemur hérna fram eins og í mörgum fleiri sjóðum þannig að þegar menn gera lítið úr samtryggingunni þá veit ég ekki hvaða moðreyk þeir eru að vaða. Manni vefst tunga um tönn og hugsar: Í hvaða lífeyrissjóði borga þessir menn? Hafa þeir ekki lagt það niður fyrir sig hvað þetta raunverulega þýðir? Ég hef það á tilfinningunni að þeir sem eru að tala hér um lífeyrissjóðina og gera lítið úr samtryggingunni og sjóðunum sjálfum, hafi bara ekki hugleitt það og viti ekkert og hafi enga þekkingu, hvað þá heldur reynslu af því hvað samtryggingin og lífeyrissjóðakerfið hafa gert.