Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:46:31 (5489)

1997-04-18 18:46:31# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:46]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Lífeyrissjóður sjómanna á nú tæplega fyrir 90% af skuldbindingum sínum en fyrir nokkrum árum voru þetta tæp 63% þannig að hann er því á réttri leið. Hann hefur ávaxtað sitt fé mjög vel og þurfti ekki neina samkeppni til. Það er rangt að þetta sé eitthvert sérvandamál Lífeyrissjóðs sjómanna. Hann getur staðið undir skuldbindingum sínum væntanlega mjög bráðlega og þarf ekki að breyta örorkubótum til lækkunar þess vegna.

Það sem snýr að hinum almennu lífeyrissjóðum hvað örorku áhrærir, þá er Lífeyrissjóður sjómanna ekkert sérstakt vandamál vegna þess að ef litið er á lífeyrissjóðinn Framsýn, þá voru þar á árinu 1996 greiddar út 582 millj. í ellilífeyri og 334 millj. í örorkulífeyri, þannig að samtryggingin er í gegnum þykkt og þunnt í gegnum alla lífeyrissjóðina. Ef menn ætla svo að koma hér upp og segja: Þetta er forræði og aftur forræði að láta lífeyrissjóðina taka þátt í því örorkulífeyristapi, sem því miður allt of margir Íslendingar verða fyrir, þá er það rangt vegna þess að það hefur verið reynt að segja við menn: Gerið þið svo vel og kaupið ykkur tryggingu. Ég hef upplifað það sjálfur að ungir sjómenn hafa komið og sagt: Ég er einn af þeim sem blótuðu og bölvuðu lífeyrissjóðakerfinu. En nú er ég öryrki og ég fæ greitt út úr sjóðnum og guði sé lof fyrir að samtryggingarkerfi skuli vera í sjóðunum.

Ég vil líka segja að lokum að þegar verið er að tala um valfrelsi, að það eigi að vera valfrelsi í sjóðunum, menn eigi að geta valið um sjóði, hvaða valfrelsi er það þá ef menn eiga að borga í lífeyrissjóði? Það er sjálfsagt og eðlilegt að halda þessari skiptingu á milli stétta í sjóðina eins og verið hefur. Við eigum að halda áfram þessari tryggingu, örorkutryggingunni, makalífeyri, barnalífeyri eins og gert er. Í sambandi við þennan eina lífeyrissjóð, sem ég nefndi áðan, að þegar lagðar eru saman tölur örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris, þá eru þær tölur að jöfnu við ellilífeyrinn.