Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:48:47 (5490)

1997-04-18 18:48:47# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:48]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég sé nú ekki að ræða mín hafi verið tilefni til svona mikilla viðbragða hjá hv. þm. því að ég var alls ekki að hafna samtryggingunni. Ég var einfaldlega að setja henni skorður því að ég vil ekki að við séum að oftryggja. Ég held að það sé slæmt og fjármunum ekki vel varið þannig.

Varðandi Lífeyrissjóð sjómanna og aðra þá sem hafa verið í vandræðum með að standa við sínar skuldbindingar, þá er það væntanlega ekki svo á þeim vígstöðvum að það sé bara vegna örorkunnar, heldur er það líka vegna þess hvernig ávöxtuninni hefur verið háttað á undanförnum árum en sem betur fer er ávöxtunin að batna en það er vegna þeirra háu vaxta sem hafa verið hér að undanförnu, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson gerði grein fyrir fyrr í dag. Því segi ég það að þeir sjóðir sem bjóða upp á lífeyri munu hafa betri ávöxtun og þeir munu skila sjóðfélögunum meiri fjármunum en þeir ella mundu hafa gert ef ekki væri um samkeppni að ræða.

Varðandi þær tölur sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi um hver væru hlutföll greiðslna úr Lífeyrissjóði sjómanna, 50% í lífeyri og 50% í örorku-, maka- og barnalífeyri, þá eru þetta allt önnur hlutföll en gert er ráð fyrir í frv. að séu í lífeyrissjóðum í framtíðinni. Það undirstrikar þá sérstöðu sem ég sagði í mínu fyrra andsvari að Lífeyrissjóður sjómanna hefði í þessum efnum. (GHall: Það var í lífeyrissjóðnum Framsýn sem ég sagði fiftí-fiftí. ... örorku í Lífeyrissjóði sjómanna.) Þess þá frekar. (Forseti hringir.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þm. að ljúka ræðuhöldum áður en þeir stíga úr stóli.)