Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 19:11:34 (5492)

1997-04-18 19:11:34# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[19:11]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir stuðningi við þetta lagafrv. sem er löngu tímabært að fram komi. Það hefur lengi verið þörf á almennri rammalöggjöf um lífeyrissparnað. Ég tel að við þær hugmyndir sem koma þar fram sé mjög víðtækur stuðningur í þjóðfélaginu. Engu að síður er til staðar hugmyndalegur ágreiningur sem á rætur í hagsmunum. Það hefur verið gerð mjög vel grein fyrir þessum ágreiningi, um hvað þetta mál snýst í grundvallaratriðum, m.a. í máli hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrr í dag, og fleiri hafa skýrt þessi mál mjög vel, þar á meðal síðasti ræðumaður, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson.

Um hvað snýst þetta mál í grundvallaratriðum? Spurningin er svona einfalt orðuð: Hvernig ætlum við að tryggja fullorðnu fólki lífeyri í ellinni? Hvernig ætlum við að tryggja peninga til barna sem missa foreldra sína eða til einstaklinga sem slasast og verða öryrkjar? Um þetta snýst málið.

Menn vilja fara tvær ólíkar leiðir. Menn skiptast í fylkingar, annars vegar þeir sem vilja sjóðsmyndun og hins vegar eru skattamennirnir, þeir sem velja skattaleiðina. Það er svo undarlegt að það eru fyrst og fremst frjálshyggjumennirnir, hægri mennirnir, sem jafnan tala harðast gegn sköttum, sem velja skattaleiðina. Þeir eru margir hverjir andvígir sjóðaleiðinni, söfnunarleiðinni, þeir vilja skattaleiðina.

Ef við veljum sjóðaleiðina, þá hljótum við að spyrja áfram: Hver er hagkvæmasta sjóðaleiðin? Með hvaða hætti tryggjum við sem mesta peninga til einstaklinganna? Hver er hagkvæmasta leiðin í því efni? Ég held að ekki þurfi að leita lengi til að komast að þeirri niðurstöðu að samtryggingarsjóðirnir eru einfaldlega heppilegasta fyrirkomulagið, skila einstaklingunum mestu, einstaklingunum sem í hlut eiga, ekki börnum þeirra sem koma til með að erfa eignina úr séreignarsjóðum.

[19:15]

Menn velta því fyrir sér hvort það eigi að beina einhverju af þessum sparnaði inn í verðbréfasjóði eða bankastofnanir út úr lífeyrissjóðunum og telja að það snúist fyrst og fremst um valfrelsi einstaklingsins og eigi á einhvern hátt að koma honum til góða. En eins og bent hefur verið á, er einn grundvallarmunur á lífeyrissjóðum eins og þeir starfa og verðbréfasjóðum og hann er sá að verðbréfasjóðir og bankastofnanir eiga að skila eigendum sínum arði. Iðulega er gert ráð fyrir arði upp á fleiri prósentur, 10% arðs á ári er sums staðar krafist. Þessir peningar í samtryggingarsjóðum, í lífeyrissjóðum, skila sér hins vegar á einn stað, til eigenda sjóðanna sem er launafólkið, sem er það fólk sem kemur til með að njóta ávaxtanna í gegnum sinn lífeyrissparnað.

Ég vil gera athugasemdir við nokkrar greinar frv. í örstuttu máli. Í fyrsta lagi vil ég gera athugasemd við 2. gr. frv. þar sem vísað er til ráðningarsamninga. Ég tel að það eigi að detta út, sérstaklega í ljósi þess sem segir í greinargerð með frv. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Sé ekki kveðið á um aðildina í sérlögum eða kjarasamningi getur vinnuveitandi gert þá kröfu í ráðningarsamningi að starfsmaður hans greiði í tiltekinn lífeyrissjóð.``

Ég gruna þessa ríkisstjórn mjög um græsku. Hún hefur sýnt það í annarri lagasetningu sem frá henni hefur komið að hún vill gjarnan grafa undan verkalýðsfélögunum, veikja þau. Hún vill koma einstaklingum út út stéttarfélögum, hún hefur margoft sýnt það. Það kom fram í upphaflegri mynd frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Það kom líka fram í frv. um vinnulöggjöfina á sínum tíma. Þegar atvinnuástand er slæmt sérstaklega, þegar launþeginn stendur höllum fæti, hinn atvinnulausi öllu heldur í leit að vinnu, þá hefur atvinnurekandinn öll ráð hans í hendi sér. Hann getur mætt honum við ráðningarborðið með þeirri spurningu: Já, ég skal ráða þig í vinnu að því tilskildu að þú gangir ekki í stéttarfélag og farir í þann lífeyrissjóð sem ég vil að þú farir í. Það er í þessu ljósi sem ég set stórt spurningarmerki við þetta orðalag í þessari grein.

Eins held ég að það þurfi að fara vel yfir 5. gr. þannig að hún orki ekki á nokkurn hátt tvímælis.En hana mætti orða skýrar en þegar er gert. Ég ætla ekki að orðlengja um það hér, enda má öruggt heita að í nefndinni sem fjallar um lífeyrisfrv., verði þetta tekið til endurskoðunar.

Þá vil ég gera athugasemd við 8. gr. þar sem séreignasparnaður sem menn kynnu að semja um er í raun lögþvingaður með þessari grein út úr samtryggingarsjóðnum og inn í sjóði sem eru mjög líklega óhagstæðari fyrir launamanninn, inn í sjóði sem eru í eigu annarra aðila sem koma til með að krefjast arðgreiðslna, hlutdeildar í hagnaðinum, í eigin vasa. Ég set því stórt spurningarmerki þar við.

Að lokum vil ég setja spurningarmerki við 36. gr. frv. þar sem fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna er tekin til umfjöllunar. Þar segir í upphafi greinarinnar, með leyfi forseta:

,,Stjórn lífeyrissjóðs skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.``

Þetta finnst mér vægast sagt mjög vafasamt að festa í landslög. Þetta er stefna sem lífeyrissjóðirnir geta fylgt og munu án efa fylgja og fylgja flestir hverjir án efa, að þeir reyni að leita eftir hámarksávöxtun. En mér finnst mjög vafasamt að festa svona okurvaxtaákvæði í landslög. Mér finnst mjög vafasamt að festa ákvæði þar sem kveðið er á um hámarksávöxtun fjármuna í landslög. Ég minni á að á undanförnum árum hefur hávaxtastefna verið ein helsta meinsemd í efnahagslífi þjóðanna í okkar heimshluta og menn hafa iðulega leitað leiða til þess að ná vaxtastiginu niður og stundum hefur verið talað um tilraun til þjóðarsáttar á því sviði sem öðru, að menn reyndu að samræma aðgerðir til að ná vöxtum niður. Og á bak við samræmdar aðgerðir þarf samræmdan vilja, en þá mega lögin ekki standa þar í vegi.

Fyrir nokkrum áratugum hygg ég að það hafi verið í lögum að bannað væri að lána fé umfram tiltekið vaxtastig. Það var talað um okurlán og þótti ekki par fínt í þá daga. Nú hafa menn snúið þessu við. Nú er verið að festa í landslög ákvæði þar sem beinlínis er bannað að láta fjármagnið renna annað en þar sem vextir eru hæstir. Mér finnst þetta mjög vafasamur hlutur að gera.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þetta frv. nái fram að ganga núna í vor. Það þarf að gera á því nokkrar breytingar og ég vona að það muni ganga hratt og vel fyrir sig.