Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 19:23:44 (5493)

1997-04-18 19:23:44# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[19:23]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er nú margt búið að koma fram í þessari umræðu sem ég get tekið undir og er ljóst að hér er á ferðinni mál sem snertir alla þjóðina því að lífeyrissjóðir og lífeyristryggingar koma við hvern einasta mann, getum við sagt, í hverri einustu fjölskyldu og hvernig þessum málum er fyrir komið er því mjög mikilvægt að allir skilji hvað er um að vera og sætti sig við það sem er verið að gera.

Það frv. sem hér er lagt fram er að mörgu leyti til bóta að mínu mati þó að þar sé að sjálfsögðu margt sem ég held að nauðsynlegt sé að skoða mun betur og breyta svo að hægt sé að ímynda sér að um þetta geti orðið sú sátt sem er nauðsynlegt að verði þegar svo mikilvægt mál er á ferðinni. Það er mjög mikilvægt í þessum lögum að hér er öllum gert skylt, sama hvaða starfsemi þeir stunda eða hvaða starf þeir stunda, að vera aðilar að lífeyrissjóði. Það er í mínum huga mjög eðlileg krafa og allt of mikið um það að menn hafi sloppið undan þeirri sjálfsögðu skyldu að tryggja ævikvöld sitt á einn eða annan hátt.

Það er einnig mjög mikilvægt sem kemur fram að þarna er verið að gera mönnum kleift að komast í lífeyrissjóði og það er ekki hægt að neita neinum um inngöngu í lífeyrissjóð á grundvelli, t.d. eins og kemur fram í lögunum, heilsufars, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns. Fjárhæð lífeyristrygginga skal miðuð við heildarlaun og margt annað má tíunda sem kemur fram í þessu frv. og er að mínu viti mjög eðlilegt.

Það er aftur á móti í 5. gr. ýmislegt sem menn staldra við og væri mjög æskilegt að skoðað yrði mun betur og ég treysti því að það verði gert í hv. efh.- og viðskn. Þar er m.a. það ákvæði að skyldutrygging skal að lágmarki nema 10% af iðgjaldsstofni og geti skipst í lágmarksiðgjald og viðbótariðgjald. Ég er út af fyrir sig ekkert ósammála því að heildargjaldið sé 10% en mér fyndist eðlilegt að það yrði bundið við 10% þannig að það væri ekki hægt að rokka með þá upphæð eftir því sem vindar blása í þjóðfélaginu eða gera mönnum auðvelt að ákveða þetta annars staðar en hér í þinginu. Mér finnst að það þurfi að ríkja verulega mikil festa og því tel ég að þarna ætti að standa einfaldlega að iðgjaldið eigi að vera 10%.

Ákvæðið um skyldutrygginguna finnst mér að mörgu leyti mjög eðlilegt en varðandi það gjald sem er umfram 10% ef viðkomandi aðilar, launþegar eða atvinnurekendur, semja um hærra gjald en 10%, þá finnst mér algjör óþarfi að vera með einhvers konar skyldutryggingu. Það er að mínu mati mjög eðlilegt að viðkomandi ráði því hvar hann setur þá fjármuni sína til vörslu og tryggi þá enn betri lífeyri en hann hefur annars gert með þessu skylduaðildargjaldi sem væri 10% af öllum launum. Mér finnst því að nefndin ætti að kanna hvort ekki væri eðlilegra að þetta atriði sérstaklega yrði frjálst og miklu frjálsara en kemur hér fram. Það er alls ekki nauðsynlegt að það renni í lífeyrissjóð sem samtrygging.

Margt annað sem kemur fram í þessu lífeyrissjóðafrv. hefur valdið miklum óróa í þjóðfélaginu að mér finnst og bara í dag er ég búinn að hitta földann allan af fólki sem hefur mjög miklar áhyggjur af því sem er að gerast með séreignarsjóðina. Séreignarsjóðirnir hafa verið að blómstra, skulum við segja, á síðustu árum og hafa náð ákveðinni fótfestu og við megum ekki kippa fótum undan þeim í einu vetfangi. Í þeim sjóðum er fólk sem fékk leyfi til að ávaxta lífeyrissparnað sinn á þennan hátt og ég held að það sé algjört óráð að fara af stað með aðgerðir, að svipta það þessum möguleika sem það fékk lögum samkvæmt, þ.e. að nýta sér öðruvísi möguleika við þessa séreignarsjóði.

Ég get tekið undir þá skoðun sem komið hefur hér fram að það væri leið að þessir séreignarsjóðir mundu ná sér í einhverja samtryggingu með tryggingavernd sem kæmi þá í staðinn fyrir samtryggingarákvæði sem er í hinum hefðbundnu lífeyrissjóðum. Ég held að margir mundu sætta sig við það þó svo það sé ekki í anda þeirra reglna sem þeir hafa unnið eftir hingað til. Eigi að síður finn ég það á þeim aðilum sem helst hafa áhyggjur af séreignarsjóðunum að þeim finnst ekki sanngjarnt heldur að fólk sem greiðir í almenna lífeyrissjóði í dag kemur ekki betur út úr því þegar upp er staðið, eftir að hafa greitt í lífeyrissjóði 40 ár, en sá sem hefur aldrei séð sér fært að greiða í neinn lífeyrissjóð og fær greitt út úr almannatryggingakerfinu sinn ellilífeyri, uppbætur og annað sem slagar þá nánast upp í lífeyrissjóðsgreiðslurnar þegar búið er að taka með í jaðarskattaáhrifum allar bætur sem fólk hefði annars fengið frá ríkinu. Í mínum huga er það auðvitað alveg óþolandi fyrir þetta fólk að það skuli ekki njóta þess að hafa sýnt ráðdeild og greitt sína tíund alla sína ævi umfram þá sem hafa sólundað öllu sínu fé og aldrei velt því fyrir sér að það þurfi að spara til efri áranna eða þegar eitthvað óhapp skeður í fjölskyldunni. Mér finnst að þessu leyti að ekki sé nein ástæða til þess að óttast að við getum ekki náð samkomulagi við þá sem hafa áhyggjur af séreignarsjóðunum og sínum hlut sem þar er. Margir séreignarsjóðsmenn telja reyndar að þeir eigi að geta haft ráðstöfunarrétt yfir sinni hlutdeild í sjóðnum þannig að börn þeirra erfðu innistæðuna og þar með væri þetta séreign fjölskyldunnar og samtryggingarákvæðin væru ekki þar með. Ef séreignarsjóðirnir geta tryggt sig gegn örorku og öðrum atriðum sem í samtryggingarkerfinu er gert með tryggingavernd, þá er það í sjálfu sér ásættanlegt að mínu viti og við ættum að gefa nefndinni tíma til þess að skoða það.

[19:30]

Eitt annað atriði sem mér finnst sjálfsagt að skoða er varðandi stjórnir sjóðanna. Það er búið að setja hér upp alveg gríðarlega öflugt lífeyrissjóðakrefi sem eins og komið hefur fram á eignir upp á hátt í 300 milljarða kr. og eignir þeirra munu vaxa á næstu árum og áratugum og verða margföld fjárlög íslenska ríkisins. 700--800 milljarðar eru taldir verða þarna eftir 10--15 ár þannig að þarna er alveg gríðarlegt vald og þetta eru gríðarleg auðæfi sem þjóðin og fólkið í landinu á. En spurningin er: Hver á að stjórna þessum sjóðum? Hver á að stjórna lífeyrissjóðum með öllu þessu valdi? Eiga það að vera menn sem eru valdir af verkalýðshreyfingunni til þess og atvinnurekendur, eða eiga það að vera eigendur sjóðanna á venjulegum aðalfundi? Auðvitað er það tiltölulega flókið, getum við sagt, en eigi að síður eru mörg fyrirtæki á Íslandi að verða eign mörg þúsund eigenda. Hlutafélag eins og Samherji bætti við sig hátt í 4 þúsund hluthöfum á nokkrum dögum núna um daginn þegar boðinn var út hlutur í því fyrirtæki þannig að þó svo fjöldi eigenda lífeyrissjóðanna væri mjög mikill, þá ætti að geta verið jafnmögulegt fyrir þá að gera slíkt eins og þá sem í dag starfa í fyrirtækjum sem eru í eigu mörg þúsund manna. Ég held að stærðarinnar vegna ætti það ekki að vera vandamál, a.m.k. ekki óyfirstíganlegt vandamál og spurningin er sú hvort það sé ásættanlegra fyrir alla að lífeyrissjóðirnir séu með stjórnum sem aðalfundur eigenda kýs til þess að stjórna þeim hvert sinn. Allt annað lítur út fyrir að vera stjórn á fárra manna höndum sem hafa í sjálfu sér ekki fengið umboðið frá neinum nema stjórnum verkalýðsfélaga eða stjórnum vinnuveitendasambanda. Spurningin er hvort það sé nokkurt lýðræði í því. Við getum líka velt því fyrir okkur hvort þetta skapi nokkurt los í sjóðunum, að stjórnunin sem hefur verið talin fara mjög batnandi á síðustu árum mundi verða losaralegri og skapa óvissu. Ég hygg að ekki þyrfti meiri óvissa að skapast þar en á öðrum sviðum þjóðlífsins þar sem fyrirtæki eru í eigu mjög margra. Reyndar er þetta að mörgu leyti öðruvísi, en mér finnst að það ætti að skoða það mjög rækilega.

Önnur atriði sem ég hef hér minnst á finnst mér í rauninni mjög nauðsynlegt að skoða og kynning á þessu máli er mjög nauðsynleg. Það er, eins og ég sagði áðan, ótrúlega mikil ólga í þjóðfélaginu út af þessu máli. Ég er alls ekki viss um það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan, að það sé mjög mikil sátt um þetta mál. Ég hef ekki orðið var við þá sátt. Það er mikill óróleiki og fólk heldur í rauninni að hérna sé á ferðinni eitthvert mál sem sé að kollvarpa allri þeirri framtíðarsýn sem það sér með þeim lífstíðarsparnaði sem það hefur tamið sér á undanförnum árum og áratugum. Mér finnst mjög alvarlegt ef skilaboðin eru þau úti í þjóðfélagi frá fjölmiðlum og öðrum að hér sé verið að kollvarpa þessu mikilvæga máli, þessum mikilvægu hagsmunum þannig að fólk telji sig vera að tapa nánast öllum sínum réttindum. Þess vegna tel ég kynningu á þessu máli mjög mikilvæga. Það er eiginlega ekki hægt, finnst mér, að láta þetta ganga í gegnum þingið öðruvísi en að fólk sé upplýst um hvað taki við eftir að þetta frv. verður að lögum, ef af verður, og hvaða breytingar sé í rauninni verið að gera þegar frv. sem slíkt hefur verið tekið til afgreiðslu í hv. efh.- og viðskn. Ég vona að þar verði hlustað á þessar óánægjuraddir og reynt að vinna úr þeim þannig að sáttin náist. En eftir það tel ég ríkisstjórnin og Alþingi verði að kynna það sem kemur upp úr potti efh.- og viðskn.