Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 19:58:00 (5495)

1997-04-18 19:58:00# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[19:58]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni áðan, þá er alveg ljóst að uppruni lífeyrissjóða og tilvera er að þeir eru hluti kjarasamnings. Þetta vita allir. Sé það nú vilji manna að breyta þessu, þá verður það ekki gert nema hér á Alþingi. Þá setjum við löggjöf um þetta. Ef við teljum betra og farsælla að hafa það þannig og eru náttúrlega hvorki atvinnurekendur né einhver verkalýðsforusta að þvælast þar neins staðar nálægt. Þá bara annast skattstjórinn þetta eða einhver slíkur embættismaður ríkisins.

En ef menn vilja hafa þetta svona, þá á náttúrlega hið sama við um hinn opinbera markað. Þá kemur ríkinu ekkert við eftirlaunasjóður ríkisstarfsmanna eða bæjarfélaga og þá skulum við bara hafa það þannig. En ég hef litið þannig á að ábyrgð og skyldur atvinnurekenda væru ein meginstoð samfélagsins og ég hélt ræðu um það áðan, herra forseti, að ég teldi lífsnauðsynlegt til þess að vernda ríkissjóð á næstu öld að ætla þessu lífeyriskerfi að taka við af almannatryggingakerfinu. Öðruvísi fengist þetta ekki staðist, við værum búnir að kasta teningunum, við ætluðum að setja svo og svo mikla fjármuni, svo stóran hluta af heildarlaunastabbanum, í lífeyrissjóðina. Úr því að svo væri komið, þá sætum við uppi með það, þá gætum við ekki líka ætlað að skattgreiða til þess að borga í almannatryggingar. Því er það lífsnauðsynlegt, herra forseti, að mínu áliti að við höldum þessu kerfi eins og það er, að það sé fyrst og fremst á vegum vinnumarkaðarins, vegum þeirra aðila sem bera ábyrgð á samningsgerðinni, á meðan við höfum það kerfi vinnumarkaðarins að launþegar eru í samtökum og meðan þeir semja um kaup sín og kjör eins og gert er samkvæmt lögum. Ef menn síðan vilja breyta því, þá víkur þessu náttúrlega allt öðruvísi við.