Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 20:08:01 (5500)

1997-04-18 20:08:01# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[20:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að hlutverk almannatrygginga mun aldrei hverfa algjörlega. Við erum alltaf með fólk sem ekki hefur tekjur í þjóðfélaginu. Við erum með öryrkja. Við erum með sjúklinga, ævilanga sjúklinga og við erum með þó nokkuð mikið af fólki sem aldrei hefur tekjur. Almannatryggingar þarf til að veita þessu fólki lífeyri þannig að við getum ekki alveg útilokað almannatryggingar, en þær ættu að vera lausar við það að borga lífeyri til fólks sem er vinnandi alla ævi.

Um það að yngra fólkið ætti meiri réttindi. Það á að vera almennt hjá öllum lífeyrissjóðunum að það ætti að fá meiri réttindi vegna þess að vaxtaþátturinn vinnur svo miklu lengur með því. Þessir 3,5% vextir sem reiknað er með í lífeyrissjóðunum vinna miklu lengur með tvítugum manni en með sextugum manni. Það upphefur allan mismun í örorkulífeyri. Það kann að vera að hjá sjómönnum sé örorkan mikil frá tvítugt til þrítugs og það er rétt, en vaxtaþátturinn upphefur það þannig að yngra fólkið ætti samt sem áður að fá meiri réttindi af því að það er svo langt þangað til það fer á ellilífeyri.

Um sýn hv. þm. á allsherjarkaosið. Hann hefur ekki mikla trú á lýðræðinu. Ég verð nú að segja það eins og er. Ég veit ekki betur en að meira að segja hjá Sjómannasambandinu sé mjög gott lýðræði og kosningar og menn kjósa út um allan heim og það gengur bara ljómandi vel og það er enginn að tala um allsherjarkaos þar. Hvers vegna skyldu sömu menn ekki geta kosið sér góða og fullgilda fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðsins beint? Þeir mundu örugglega gera það. (EOK: Þeir gera það.) Ekki beint í lífeyrissjóðinn. Hvers vegna skyldu þeir ekki kjósa í öllum lífeyrissjóðunum stjórn beint? Hvers lags vantrú er þetta á lýðræðinu?