Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 20:09:54 (5501)

1997-04-18 20:09:54# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[20:09]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alls ekki að ég hafi ótrú á lýðræðinu, alls ekki, þó ég hafi tekið svo til orða að þetta gæti orðið eitt allsherjarkaos í sambandi við kosningar til stjórnar lífeyrissjóðanna. Það er einfaldlega vegna þess að ég óttast að verið sé að hræra upp í máli sem mundi stefna í algert óefni vegna þess að ef á að fara að hafa þann háttinn á, þá hafa einhverjir setið í stjórn lífeyrissjóðsins í upphafi og það mun leiðbeina eða leiða kjósandann til þess að kjósa þennan og þennan aðila áfram vegna þess að það er nú svo að í stjórn lífeyrissjóðanna almennt í dag sitja ábyrgir menn. Það eru breyttir tímar frá því um 1980 að menn sátu og spekúleruðu bara í því hvernig þeir gætu lánað sjóðfélögunum peninga. Nú sitja menn og hafa miklar áhyggjur af því að lífeyrissjóðirnir standi við skuldbindngar sínar og eru þess vegna að leggja sig mjög fram um að ávaxta alla þá peninga sem inn í sjóðina koma þannig að enginn situr í stjórn lifeyrissjóða og lætur sig fátt um finnast, hvorki um sjóðina sjálfa né sjóðfélagana. Ég held því að þetta form sé ágætt, þ.e. þessi leið sem ég var að lýsa hér, t.d. varðandi Lífeyrissjóð sjómanna, hvernig það gengur í sjómannafélögunum, hvernig þeir kjósa sína fulltrúa og síðan þeir aftur kjósa í stjórn sjóðsins. Ég er ekkert að vanmeta sjóðfélagana sjálfa en ég tek undir það sem hv. þm. kom inn á hér áðan um aðalfundi lífeyrissjóðanna. Ég tel eðlilegt að þar séu opnir fundir og málin ígrunduð og stjórnin geri grein fyrir því hvernig þeir hafa haldið á fjármunum og hvernig þeir hafa ávaxtað peningana og hvernig þeir muni og ætli að standa við skuldbindingar þær sem sjóðirnir hafa tekist á sínar hendur.