Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 20:29:06 (5503)

1997-04-18 20:29:06# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[20:29]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera athugasemdir við málflutning síðasta ræðumanns. Ég vil benda á að í ágætu riti eftir Má Guðmundsson um lífeyrissjóðina, ástand og horfur, er vel gerð grein fyrir stöðu þessara mála í hinum ýmsu löndum Evrópu. Það er mjög mismunandi hvernig þjóðir Evrópu koma upp sínum sparnaði. Frjáls sparnaður virðist eiga mjög greiðan aðgang að hjarta t.d. frænda okkar Norðmanna á meðan öðrum virðist þetta vera nokkurn veginn ómögulegt. Það kemur fram í þessu riti að Hollendingar, Englendingar og Svisslendingar eru með kerfi líkast okkar Íslendinga og þarf engum að koma á óvart þó að uppsöfnunarkerfið íslenska hafi gengið illa á tímum neikvæðra vaxta. Það gekk mjög illa, það segir sig bara sjálft. En þetta sama kerfi gekk á sama tíma mjög vel í Sviss á meðan þeir varðveittu verðgildi sinnar myntar og það sama gerðist á aftur á Íslandi þegar við fórum að varðveita verðgildi okkar myntar, þá fór að ganga betur. Samanburður að þessu leyti og umræður um það hvort við ættum heldur að spara á frjálsan hátt eða þvingaðan þá er það náttúrlega upp og ofan með gæfu einnar þjóðar í því sambandi. Það má út af fyrir segja að langbest væri að ekkert væri þvingað og allt saman frjálst o.s.frv. Ég get alveg tekið undir það.

En ég gat þess hér áðan og ég ætla að taka undir það með hv. ræðumanni að það er ekkert í þessu frv. sem segir til um það hvernig lífeyrissparnaður landsmanna á að taka við af almannatryggingunum og það er miður. Ég saknaði þess líka mjög mikið úr þessu frv. þar sem þess var sérstaklega getið í erindisbréfi nefndarinnar að þeir skyldu gera um það tillögur. Ég ætla því að taka undir það. Og ég vil bara benda á, herra forseti, að þar af leiðir að það er verkefni sem bíður okkar að gera grein fyrir því hvern veg við ætlum því fram að ganga.