Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:18:16 (5521)

1997-04-21 15:18:16# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:18]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hafnaáætlun er gerð til fjögurra ára í senn og endurskoðuð á tveggja ára fresti. Heildarupphæð framkvæmda í höfnum er um 2,8 milljarðar kr. og hlutur ríkissjóðs tæpir 2 milljarðar eða 1,9 milljarðar, um 68%. Auk þess gerir áætlunin ráð fyrir að allar skuldir ríkissjóðs við hafnasjóði verði gerðar upp á áætlanatímabilinu en í árslok 1996 námu þessar skuldir 728 millj. kr. Heildarframlög úr ríkissjóði til nýframkvæmda og uppgjörs skulda munu nema um 2,6 milljörðum kr. á þessum fjórum árum.

Við gerð hafnaáætlunar var að þessu sinni stuðst við úttekt á höfnum sem unnin var af Siglingastofnun. Í úttektinni var ástand og nýting mannvirkja metin og umferð um hafnirnar skoðuð. Áhersla var lögð á þær framkvæmdir sem úttektin sýndi mesta þörf á. Áætlunin gerir ráð fyrir að allar framkvæmdir sem á annað borð eru metnar styrkhæfar njóti sama ríkisframlags. Hins vegar er í nokkrum sveitarfélögum ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður styrki hafnarframkvæmdir á áætlunartímabilinu. Þetta á fyrst og fremst við um höfuðborgarsvæðið þar sem litið er á það sem eitt markaðssvæði og ekki talið rétt að ríkissjóður sé að raska samkeppnisstöðu hafna þar með fjárframlögum. Ég tel einnig nauðsynlegt að hv. samgn. taki til athugunar hvort rétt sé að skerða nokkuð framlög ríkissjóðs til þeirra hafna sem tekjumestar eru úti á landsbyggðinni.

Árið 1997 verður framlag ríkissjóðs til dýpkana og brimvarnargarða 90% en seinni ár áætlunarinnar breytist það og verður 75%. Í samræmi við ákvæði hafnalaga er gert ráð fyrir að Hafnabótasjóður geti veitt allt að 15% styrk til tekjulágra hafna í fámennum sveitarfélögum. Lækkun kostnaðarhlutdeildar á þá ekki að hafa áhrif á þessi sveitarfélög.

Megináhersla er lögð á endurbyggingu mannvirkja með það fyrir augum að þau standist þær kröfur sem nútímaútgerðarhættir gera. Aðallega er verið að uppfylla kröfur um meira dýpi og álag á kanta auk krafna um meiri kyrrð í viðlegum. Stærstu óskirnar lúta að bættri aðstöðu fyrir loðnu- og síldveiðiflotann. Þessar framkvæmdir eru í Siglufirði, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafirði, Eskifirði, Djúpavogi, Hornafirði, Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Grindavík og Sandgerði.

Stærsta einstaka verkefni áætlunarinnar er fyrsti áfangi úrbóta í innsiglingunni til Grindavíkur. Í áætluninni er gert ráð fyrir að unnið verði fyrir um 230 millj. kr. en áætlaður heildarkostnaður verði um 700 millj. kr.

Önnur stór verkefni sem byrjað verður á er endurbygging viðlegukanta í Vestmannaeyjahöfn, úrbætur á flutningaaðstöðu á Höfn í Hornafirði og fiskihöfnin á Akureyri. Á Ísafirði og í Húsavík verður haldið áfram við að bæta aðstöðu fyrir stærri skip.

Herra forseti. Ég lít svo á að hafnaáætlun skýri sig að öðru leyti sjálf og legg til að henni verði vísað til síðari umr. og hv. samgn.