Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:30:28 (5523)

1997-04-21 15:30:28# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:30]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt satt að segja að þingmenn Reykn. væru sammála um að það verkefni sem brýnast væri þar nú væri innsiglingin til Grindavíkur og að reyna að bæta þar hafnarskilyrði, sem er gífurlegt verkefni. Ég hafði því ekki búist við önuglyndi frá þm. Hafnarfjarðar af því að þannig hafði verið raðað upp á hafnaáætlun. En maður verður margs fróðari í sölum Alþingis.

Herra forseti. Það kom fram smámisskilningur hjá hv. þm. sem kannski er ekki óeðlilegur þar sem hafnaáætlun hefur aldrei verið samþykkt á Alþingi þó hún hafi einstaka sinnum verið lögð fram. En í hafnalögum segir í 3. mgr. 27. gr.: ,,Greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal ákveðin um leið og verk eru tekin inn á hafnaáætlun og tekin til endurmats á tveggja ára fresti við endurskoðun hafnaáætlunar. Við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs skal tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs.`` Það er því beinlínis kveðið á um það í lögunum að samgn. eða hið háa Alþingi skuli vera ákvarðandi um hver skuli vera greiðsluþátttaka ríkissjóðs. Þannig er raunar líka við uppgjör á gömlum hafnarframkvæmdum að miðað hefur verið við reglugerðir og hvernig staðan hefur verið.

Ef rætt er sérstaklega um Akureyri þá er það svo að greiðslur til Akureyrar á þessu ári og hinu næsta eru aðallega til skulda þannig að Akureyrarhöfn fær ekki óskert framlag úr ríkissjóði vegna þeirra uppsöfnuðu skulda sem þar er um að ræða. Það er einungis gert ráð fyrir 9,9 millj. kr. á þessu ári til nýframkvæmda, sem raunar er að ég hygg vegna Grenivíkur, sem hefur verið með óskert framlag en þar hefur nú (Forseti hringir.) verið stofnað hafnasamlag þannig að við erum ekki í raun að bæta hlut Akureyrar þó gert sé ráð fyrir því að þetta mál sé tekið til athugunar.